Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 22:56:41 (26)

1995-10-04 22:56:41# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti, góðir tilheyrendur. Það er mikið að gerast í þjóðfélaginu þegar stöðugleiki ríkir, þá er hægt að horfa til framtíðar, vinna að framtíðinni, að umbótum, að framförum. Kaupmáttur vex, hagvöxtur eykst, hagur atvinnuveganna er allgóður og greinilega töluvert batnandi. Í þjóðhagsspánni, sem lögð var fram hér í þinginu í gær, er tekið fram að hinar góður horfur séu að meira að segja varlega fram settar. Niðurstaðan er því sú að ríkisstjórninni, þinginu og þjóðinni miðar gangan til meiri hagsældar vel. Ytri skilyrði eru öll eða flest til staðar, það er bjart fram undan. En svo skyndilega er maður barinn í höfuðuð. Raunveruleikinn kemur vaðandi utan af Ingólfstorgi með reiði, með óánægju, með andúð. Þegar útifundurinn fjölmenni og magnþrungni var haldinn hér fyrir utan átti ég leið á nefndarfund upp í Arnarhvoli og ég gekk Austurstrætið. Út undan mér heyrði ég og sá hvar barn hnippti í móður sína og sagði: Þarna er einn þeirra. Blessað barnið hafði svo sem áttað sig á því hverjir væru skúrkarnir í samfélaginu.

Herra forseti. Ég tek vel eftir þessari óánægju og tek hana alvarlega. Það eru ástæður fyrir því að slíkt bylgja andúðar og nánast heiftar kemur upp. Og hverjar eru þær ástæður? Heiðvirðum launamanni gremst hvernig undanskot á sköttum og skyldum viðgangast, hvernig hlutar tekna, jafnvel stór hluti er falinn. Hvernig neðanjarðarhagkerfi þrífst án þess að við verði ráðið. Ef fólk fær á tilfinninguna að hið háa Alþingi sé af hinu sama sauðahúsi er auðvelt að láta reiðina ólga. Er þá ekki einu sinni hjálp í þessu liði sem er kosið til að stjórna málum og þoka þeim til betri vegar?

Herra forseti. Margir hv. þm. hafa minnst á það í kvöld að við erum sjöunda ríkasta þjóð heimsins. Allir landsmenn eiga að geta búið við góðan hag. Enginn skal fá mig til að trúa því að það sé ekki hægt. En til þess þarf sameiginlegt átak, almennt breytt hugarfar. Mundu eftir því, áheyrandi minn, að neðanjarðarhagkerfið, svarta atvinnustarfsemin, gerviverktakinn, undanskotin viðgangast vegna býsna almennrar þátttöku. Kannski þekkir þú eitthvað til þessa að spilað sé á svörtu nóturnar. Það þarf tvo til að nótulaus viðskipti séu stunduð. Ef þú tekur þátt í slíku ertu að segja að aðrir eigi að bera þínar byrðar. Kerfið, bótakerfið, tryggingakerfið, félagskerfið, allt á það að vera fyrir þá sem þurfa. Enginn ætti að hugsa um það hvort það borgi sig að vinna eða vera á bótum. Skattbyrðin er svona þung, m.a. vegna þess að það greiða ekki allir það sem þeim ber.

Herra forseti. Ágætu tilheyrendur. Við höfum sameiginlegt verk að vinna. Við berum öll ábyrgðina. Ýmiss konar undanskot valda því að ríkissjóður verður af 8--11 milljörðum kr. á ári hverju. Hvað væri hægt að bæta margt í menntun, heilsugæslu, í hækkun ellilífeyris svo dæmi séu tekin ef allt það skilaði sér? Hver eru skilaboð fólksins frá útifundinum? Ég held að þau séu þessi. Stjórnmálamönnum hefur á undanförnum árum ekki tekist að koma í veg fyrir alls kyns óhæfu og ósóma sem skekkir kjörin og mismunar fólki í landinu. Þar sem ekki ríkir réttlæti ríkir ekki heldur friður.

Herra forseti. Á allra næstu árum þarf að verða breyting á þessu. Það á ekki að vera að hægt að tala um sérstaka láglaunahópa og láglaunasvæði á landinu. Lagfæringar á þessu eru kynntar í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég nefni nokkur atriði. Þeirra er getið í fjárlagafrv. og eru stórmál, tímamótamál. Lífeyriskerfinu verður breytt þannig að allir landsmenn njóti sambærilegra lífeyrisréttinda. Tekjuskattskerfið verður endurskoðað og gert gagnsærra. Atvinnuleysistryggingakerfið er í endurskoðun, aðeins nokkur mál af mörgum sem vinna er hafin við.

Till. til þál. var lögð fram í kvöld á þessum fundi og bíður framsögu fyrsta flutningsmanns. Þingmenn úr öllum flokkum flytja tillöguna sem ætla ríkisstjórninni með hjálp sérfróðra aðila í þjóðfélaginu að leita leiða og finna leiðir til að bæta skattheimtu ríkis og sveitarfélaga. Fleiri munu fylgja á eftir. Bættur hagur á að koma öllum vel. Ég vænti sýnilegs árangurs áður en kjörtímabilið er hálfnað. Þá hafi samhentir stjórnarflokkarnir unnið gott verk, hvattir og brýndir til verka af gagnrýninni stjórnarandstöðunni og umfram allt í sátt við þjóðina. --- Góðar stundir.