Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 23:34:30 (31)

1995-10-04 23:34:30# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, SvG
[prenta uppsett í dálka]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Sjaldan hefur reiðin verið jafneindregin og djúpstæð og í haust. Hún hefur beinst gegn öllum stjórnvöldum og sérstaklega þó afleiðingum stjórnarstefnunnar. Hún beinist gegn þeim stjórnvöldum sem svíkja bókstaflega allt sem stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningarnar í vor. Reiðin er svo mögnuð að full ástæða er til að vona að hún breytist í svarrandi brimöldu sem þurrkar burtu misrétti samfélagsins hvar sem það birtist.

Eitt af því sem vekur reiði er leyndin. Það er einmitt leyndin sem eitrar og vekur grunsemdir. Fólk spyr: Af hverju fær Kjaradómur ekki að birta yfirtíðina sem hann hefur dæmt fólki að undanförnu? Af hverju fæst kjaranefnd ekki til að birta niðurstöður sínar? Af hverju hefur fjmrn. neitað sjálfum forseta Alþingis um upplýsingar um launakjör æðstu embættismanna í fjórar vikur þrátt fyrir kröfu Verkamannasambandsins um að leggja spilin á borðið? Leyndin vekur skuggalegar grunsemdir.

Þjóðin bregst svona hart við vegna þess að lífskjörin hafa verið sprengd niður á steinaldarstigið. Það er vegna þess að atvinnuleysi hefur aldrei verið meira um hábjargræðistímann. Í ágústmánuði voru 6.000 manns á atvinnuleysisskrá. Nú ætlar ríkisstjórnin að auka atvinnuleysið á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. með því að bæta við 1--2 þúsund manns og 2.400 manns eru flúin úr landinu frá ársbyrjun 1993. Hér vantar með öðrum orðum 10.000 atvinnutækifæri auk þeirra sem munu bætast við á vinnumarkaðnum á næstu árum.

Þjóðin bregst svona hart við vegna þess að stjórnarherrarnir hafa svikið kosningaloforðin. Framsfl. spilaði á atvinnuleysið í kosningabaráttunni. Framsfl. lék sér tillitslaust að tilfinningum fólks sem býr við vonleysi í afkomu sinni. Staðreyndin er sú að það hefur ekkert verið gert frá því að ríkisstjórnin tók við í atvinnumálum. Það hefur ekkert gerst nema það að fimm framsóknarmenn hafa fengið vinnu í Stjórnarráðinu og fimm sinnum fimm framsóknarmönnum hefur verið troðið í ráð og nefndir. Einu atvinnutækifærin sem fundist hafa þar fyrir utan eru í útlöndum eins og formaður Framsfl. er reyndar yfirleitt í seinni tíð. Þau atvinnutækifæri eru á Jótlandsheiðum. Þangað flytja Íslendingar núna sjálfviljugir undan ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Það fóru 520 manns úr landinu í septembermánuði, 130 á viku, 26 manns á hverjum virkum degi hverfa úr landi. Í dag gætu hafa farið 26 einstaklingar. Í kvöld eru 3--6 fjölskyldur í landinu að pakka niður til að koma búsmunum sínum fyrir. Þannig er komið fyrir íslensku þjóðinni undir stjórn Sjálfstfl. fyrst með Alþfl., svo með Framsfl. Hver er framtíðarsýnin sem þessir stjórnarflokkar hafa skapað þjóðinni? Hún er myrkrið í gámi.

Fólkið er líka reitt vegna þess að batinn sem Sjálfstfl. lofaði þjóðinni fyrir kosningar hefur ekki skilað sér til hennar og sést hvergi í fjárlagafrv. að sjálfsögðu.

Þar er ekki minnst á einstæða móður í Grafarvogi sem baslar áfram með börnin sín og þarf að borga skatta af 70 þús. kr. á mánuði.

Þar er ekki minnst á unga fjölskyldu í Hafnarfirði sem byggði þar íbúðarhús, er með 250 þús. kr. á mánuði samtals og ræður samt ekkert við húsið en situr uppi með 6% affallabréfin frá Jóhönnu, formanni Þjóðvaka.

Fólk er líka reitt vegna þess, virðulegi forseti, hvernig komið hefur verið fram við aldraða og öryrkja þar sem kerfið er nú orðið svo fullkomið eftir aðfarir Alþfl. á síðasta kjörtímabili að fólk er að borga í jaðarskatta jafnvel yfir 100%. Í skýrslu sem send hefur verið þingmönnum um lífeyrissjóði kemur þetta m.a. fram. Þar er nefnt dæmi um einstakling sem býr einn og hefur á bilinu 22--27 þús. kr. á mánuði. Dæmi er nefnt um að hann hækki um 1.000 kr. á mánuði. Hvað gerist þá? Hann fer í 65 þús. kr. á mánuði. Og samstundis hækka opinber gjöld hans um 1.420 kr. á mánuði. Kaupið hans lækkar við að hækka.

Fólk er líka reitt vegna þess, virðulegur forseti, að aldraðir og öryrkjar hafa verið hlunnfarnir sérstaklega að undanförnu. Niðurstaða heilbrrn. varð sú að aldraðir og öryrkjar fá ekki sömu krónutölu og aðrir. Þeir fengu færri krónur en allir aðrir af því að það var ákveðið að reikna prósentuna í krónutölunni út frá 70 þús. kr. á mánuði en ekki 48 þús. kr. á mánuði. Hjón sem eru bæði lífeyrisþegar hjá almannatryggingum fá hvort um sig aðeins 1.621 kr. í lífeyrishækkun á mánuði þegar kjarasamningar áttu að skila hinum lægst launuðu 3.700 kr.

Í fjárlagafrv. sem birt var í dag er því svo lýst yfir að það eigi áfram að skerða kjör þessa fólks, það eigi að höggva á tenginguna við verðlagsþróun sem hér hefur verið um áratuga skeið. Á sama tíma verður fólk enn að taka verðtryggð lán en verðtrygging tryggingabóta þeirra sem allra minnst mega sín í þjóðfélaginu verður afnumin. Niðurskurðarhnífur Sighvats Björgvinssonar er eins og gömul ryðbredda við hliðina á blikandi niðurskurðarsveðjum Framsfl. Þar er engu eirt. Byggingarsjóður verkamanna er skorinn mjög harkalega niður undir forustu hæstv. félmrh. og Framkvæmdasjóður fatlaðra er að verða að engu.

Fólk er líka reitt, hæstv. forseti, vegna þess hvernig sjávarútvegsstefnunni hefur verið framfylgt, hvernig sjávarútvegur og fiskimiðin og aðgangur að þeim er að færast á fárra manna hendur, hvernig fiskveiðistjórnin er að reka trillurnar á sjó í vitlausu veðri, hvernig slysum á sjó fjölgar beinlínis vegna þess hvernig fiskveiðireglukarlarnir stjórna landinu eins og fram kom á ráðstefnu um öryggismál sjómanna núna nýverið.

Herra forseti, fólk er líka reitt vegna þess hvernig komið hefur verið fram við láglaunabændur í þessu landi, ekki síst sauðfjárbændur. Sauðfjárbændur eru hnepptir í fjötra ofstjórnar og fátæktar, verr en flestir aðrir landsmenn. Hin nýju drög að búvörusamningi laga á engan hátt kjör þessa fátæka fólks. Þvert á móti bendir margt til þess að kjör þess fólks eigi enn eftir að versna, að það verði sveltistefna Framsfl. sem svæli bændur burt úr sveitum landsins.

Herra forseti. Síðasta ríkisstjórn vann markvisst að því að tala kjarkinn úr þjóðinni. Sú svartsýni grúfir enn yfir vötnunum og það er niðamyrkur inni gámunum sem flytja búslóðirnar á hverjum degi frá Íslandi á Jótlandsheiðar. Bjartsýni fólks blikar ekki lengur í því auga sem virðir framtíðina fyrir sér. Framtíðarlandið er gámur. Þannig hefur ríkisstjórn Sjálfstfl., fyrst með hjálp Alþfl. og nú Framsfl., farið með þjóðina. Við í þingflokki Alþb. og óháðra munum í vetur beita okkur gegn því þjóðfélagslega ranglæti sem hér hefur verið rakið. Við munum flytja tillögur um atvinnumál sem meginverkefni okkar í vetur. Við vonum að það takist að flytja svo mál okkar að heyrist um allt land. Þeir sem kalla saman alþingi götunnar eiga vísa liðsmenn í okkur. Svo mikið er víst. --- Góðar stundir.