Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 11:10:36 (40)

1995-10-05 11:10:36# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu var á dagskrá á vorþingi og fóru fram um það nokkrar umræður. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að rétt væri að styðja frestun á gildistöku kaflanna um verðlagningu lyfja og veitingu lyfsöluleyfa. Ekki höfðu þá, þ.e. 7. júní sl., komið fram nema örfáar reglugerðir af þeim sem við Íslendingar skuldbundum okkur að setja er við gerðumst aðilar að EES-samningnum. Á síðasta þingi var ákveðið að fresta gildistöku þessara tveggja kafla til 1. nóvember 1995, þar sem ástæða þótti til að kanna áhrif breytinga á lyfjalögunum. Meðal þeirra ákvæða sem ástæða þótti til að kanna sérstaklega voru t.d. áhrif lyfjaauglýsinga á lyfjanotkun landsmanna og einnig á lyfjaverð. Nefnd var sett á laggirnar til að kanna þessi áhrif en hún hefur ekki getað sinnt því starfi vegna þess að reglugerðir voru ekki komnar fram í sumar hjá ráðuneytinu og þó nokkrar hafa enn ekki verið settar. Reglugerðin um lyfjaauglýsingar var ekki sett fyrr en í júní sl. svo að áhrifa hennar, þ.e. áhrif lyfjaauglýsinga á lyfjanotkun og lyfjaverð, er ekki farið að gæta enn, svo stutt er frá því að hún tók gildi. En ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Það er spurning hvort heilbrrn. hafi unnið heimavinnuna sína í þessum málum. A.m.k. hefur orðið ótrúlega mikill dráttur á því að reglugerðir í þessu máli hafi komið frá ráðuneytinu sem er eins og komið hefur fram hér í umræðunni ástæðan fyrir því að fresta þarf gildistöku laganna. Og ég gagnrýni þessi vinnubrögð hverjum svo sem um er að kenna.

En varðandi þetta reglugerðafargan sem kemur í kjölfar lagasetninga, þá langar mig til að minnast aðeins á og taka til umræðu verklag þingsins í þeim efnum. Það hefur komið mér á óvart að þingmenn og Alþingi sem löggjafarvaldið í landinu skuli ekki fylgjast með og fjalla um þær reglugerðir sem settar eru til frekari útfærslu þeirra laga sem samþykkt eru hér. Mér þættu það eðlileg vinnubrögð að reglugerðir væru kynntar í viðkomandi fagnefndum svo að þingmenn geti kynnt sér þær. Það eru eðlileg vinnubrögð og ég tel að Alþingi ætti að íhuga hvort ekki sé ástæða til að kynna reglugerðir í viðkomandi nefndum. Ef sá háttur hefði verið viðhafður í þessu máli hefði verið auðveldara að taka á því hér þar sem þessi lög kalla á mjög mikla reglugerðarsetningu.

En aftur að lagabreytingunni. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að koma að varðandi hana og þar er komið að þeim atriðum sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, þ.e. að í lögunum eru bæði höft og frelsi. Með nýrri tilhögun á veitingu lyfsöluleyfa þarf lyfsali eða eigandi apóteks ekki að afsala sér eigninni þegar leyfið fellur úr gildi. Hann getur samið við lyfjafræðing sem fær lyfsöluleyfi til að reka apótekið hans. Þetta veldur því að það er ekkert sem ýtir undir að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð fari saman.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir verði umsagnaraðili að leyfisveitingu og taka eigi tillit til fjarlægðar frá næstu lyfjabúð, fjölda íbúa á svæðinu og jafnvel umsagnar fleiri aðila. Það er spurning að hve miklu leyti á að takmarka þessi leyfi og spurning hvort að eigi ekki að gefa þau alveg frjáls. Ég er hlynnt því að aflétt verði þeirri einokun sem ríkt hefur hér í lyfsölumálum. Það þarf að sjá til þess að það lénskerfi sem ríkt hefur haldist ekki. Lyfsala á ekki að ganga í erfðir. Þetta verður að koma í veg fyrir. Það þarf að koma í veg fyrir að ákvæði um leyfisveitingar verði þrengd. Ef það tekst ekki er verr af stað farið en heima setið.

Í lögunum er kveðið á um það að lyfsalar hafi ákveðnar skyldur við viðskiptavini sína. Þeim ber að veita þeim ákveðna þjónustu. Nú fá lyfsalar greidda ákveðna prósentu af sölu lyfja. Ég teldi réttara að þeir fengju greitt fyrir þjónustu en ekki prósentu af sölu. Í Bretlandi er t.d. greitt fast verð fyrir afgreiðslu hvers lyfseðils en ekki prósenta af lyfjaverði. Það er óeðlilegt að lyfsalinn hafi hag af háu lyfjaverði. Það ætti að greiða fyrir lyfjameðferð sambærilega og greitt er fyrir sérfræðiþjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Ég styð frestun á ákvæðum um verðlagningu lyfja og veitingu lyfsöluleyfa á þeirri forsendu að margar lyfjareglugerðir eru ekki komnar fram og áhrifa þeirra, sem nýlega tóku gildi, er ekki farið að gæta. Né heldur er farið að gæta þeirra greina laganna sem þegar hafa tekið gildi. Ég álít að það liggi ekki svo mjög á í þessu máli. Ég styð þessa frestun í trausti þess að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í máli mínu. Heldur hefði ég viljað sjá frá ráðuneytinu að þessar reglugerðir bærust en að sjá þann boðskap um niðurskurð og skerðingu til þeirra sem minnst mega sín sem getur að líta í fjárlagafrv. því sem kom á borð þingmanna nú í þingbyrjun.