Lyfjalög

Fimmtudaginn 05. október 1995, kl. 12:51:27 (58)

1995-10-05 12:51:27# 120. lþ. 3.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eftir svar hæstv. heilbrrh. við andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ætla ég ekki að segja mikið. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra enn um að svara þessum þremur spurningum:

Í fyrsta lagi er það rétt sem hún segir að það eru ýmsar þýðingarmiklar reglugerðir enn ófrágengnar. Ég ætla ekki að kenna henni eða öðrum um það. Allar þær reglugerðir, sem eru fram komnar, varða aðra kafla laganna en VII. kaflann og XIV. kaflann sem hún er að biðja um frest á. Hvernig getur það verið rökstuðningur fyrir fresti á VII. kafla laganna og XIV. kafla laganna að reglugerðir eru ekki fram komnar um atriði sem varða alla aðra þætti þessara laga en fresta á? Ég vil fá rök fyrir því en þau hef ég ekki fengið. Það þýðir ekkert að segja: Það er bara svona. Það er bara ekkert svona því ef eitthvert samhengi væri í málflutningi ráðherrans ætti ráðherrann auðvitað að gera tillögu um það að fresta gildistöku þeirra kafla laganna sem enn er óvissa um en ekki einhverra allt annarra. Væri t.d. vit í því að hæstv. ráðherra breytti tillögu sinni og gerði ráð fyrir því að fjárlögum yrði frestað vegna þess að það ríkti svo mikil óvissa um ýmsa þætti lyfjalaga? Það eru alveg jafnmikil rök fyrir því, virðulegi forseti, vegna þess að hennar eigin áætlanir í fjárlagafrv. um sparnað í lyfjakostnaði gera ráð fyrir því að í gildi séu í lyfjalögum ákvæði sem hún er núna að biðja um fá frestun á. Ég vil því fá svar við því hvaða rök eru fyrir því að fresta VII. og XIV. kafla lyfjalaganna að reglugerðir skulu ekki enn fram komnar sem allar varða aðra kafla í þeim lögum.

Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra. Það er rétt að það liggur ekki enn þá frammi nein niðurstaða. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra yrði við á meðan ég legði fram spurninguna áður en hún fer að leita upplýsinga um svarið, að ekki liggur enn fyrir reynslan af EES-samningunum. Það er alveg rétt. En ég spurði hana hér áður en ég fékk ekki svar við því. Gerum ráð fyrir því að reynslan af því sé annaðhvort verri eða betri en menn hafa áformað af EES-ákvæðum lyfjalaganna sem hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af og nefnd var sett á fót á sínum tíma til þess að fylgjast með áhrifum. Það getur bara tvennt gerst í því ferli: Annaðhvort er reynslan af því betri eða svipuð eins og menn gerðu ráð fyrir eða hún er verri. Nú skulum við segja sem svo að það séu liðnir átta mánuðir og að búið sé að fresta þessu í átta mánuði eins og hæstv. ráðherra vill og það liggi fyrir niðurstaða nefndarinnar, hún sé á annan hvorn þennan veg, hún getur ekki orðið öðruvísi. Hvaða áhrif hefur það á þá kafla laganna sem hæstv. ráðherra er nú að biðja um frestun á? EES-ákvæðin og samkomulagið um samhliða innflutning og fleira varða nákvæmlega ekki neitt skipulag lyfjaverslunar í landinu sjálfu og ekki heldur neitt ákvörðun um frjálsa verðsamkeppni á lausasölulyfjum. Þess vegna vil ég fá svar við þeirri spurningu: Hvaða áhrif getur þetta nefndarstarf haft á þá kafla lyfjalaganna sem nú á að fresta? Hvaða breytingar verða gerðar á þeim ákvæðum sem verið er að fresta? Ef reynslan er betri en menn gera ráð fyrir eða ef hún er verri en menn gera ráð fyrir? Ef reynslan hefur engin áhrif á þessa tvo kafla laganna eða ráðherra getur ekki svarað þeim spurningum, hvernig getur hæstv. ráðherra notað starf nefndarinnar sem rökstuðning fyrir því að fá viðbótarfrestun á þessum ákvæðum ef hún getur ekki svarað því hvaða áhrif reynslan af starfi nefndarinnar gæti hugsanlega haft á ákvæði þessara laga?

Í þriðja lagi spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. ráðherra: Fyrst gert er ráð fyrir því í fjárlögum í kaflanum um hennar eigin ráðuneyti að hægt verði að ná árangri í því að draga úr lyfjakostnaði með því að taka ákvörðun um það á grundvelli laga að heimilt sé að ekki fari saman að samþykkja ný lyf til notkunar í landinu og að Tryggingastofnun ríkisins taki þátt í að greiða þau, hver eru rökin fyrir því að fresta því ákvæði sem er að finna í 41. gr. lyfjalaganna? Hvað kemur það því máli við sem hún hefur verið að ræða í þessu sambandi? Ef fallist verður á tillögu hæstv. ráðherra mun hún þá ekki sjá til þess að samsvarandi breytingar séu gerðar á fjárlögum? Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá samhengið í þessu og ég vil fá svar við því frá hæstv. ráðherra hver séu rökin fyrir því að fresta framkvæmd 41. gr. Hvernig kemur það mál við reynslunni af samhliða innflutningi lyfja og hvað kemur sú grein því málinu við að þær reglugerðir sem eru enn óútgefnar af ráðherra varða aðra þætti lyfjalaga?

Ef ég fæ ekki skýr svör við þessum þremur spurningum ítreka ég það sem ég sagði áðan að þetta eru duttlungar hæstv. ráðherra. Þetta er leið til þess að geta náð þó ekki væri nema einhverri frestun fram á lögum sem hún var á móti en hverju er hún nær? Ef það er meginatriðið í máli ráðherrans að fá þá fram einhverja frestun af hverju þarf það þá endilega að vera átta mánaða frestun? Er þá ekki bara prýðilegt að miða gildistökuna við næstu áramót þegar fjárlögin eiga að taka gildi sem byggja á því að 41. gr. laganna sé ekki frestað?