Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 10:37:23 (68)

1995-10-06 10:37:23# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1996. Í ræðu minni í dag mun ég í fyrsta lagi fjalla um ástand og horfur í ríkisfjármálum ekki síst þegar horft er fram á veginn næstu árin. Niðurstaðan af þeirri umfjöllun er sú að ríkisstjórn og Alþingi geti ekki vikið sér undan því að grípa nú þegar til róttækra aðgerða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum.

Í öðru lagi og í beinu framhaldi mun ég gera nokkra grein fyrir efnahags- og ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og þeim aðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til á næstu árum til að ná markmiðum hennar. Að lokum fjalla ég um það hvernig þær aðgerðir sem m.a. birtast í þessu fjárlagafrv. munu þegar fram líða stundir styrkja atvinnulífið, auka kaupmátt launafólks og þannig stuðla að bættum lífskjörum almennings í landinu.

Það fer ekkert milli mála að íslenskt efnahagslíf er smám saman að rétta úr kútnum eftir langvinnt erfiðleikatímabil. Verðbólga er ein sú minnsta í heiminum. Tekist hefur að snúa þrálátum halla og viðskiptajöfnuði í afgang. Þetta þýðir að erlend skuldasöfnun hefur verið stöðvuð og raunskuldir fara nú lækkandi ár eftir ár. Þá hafa vextir lækkað verulega frá því sem áður var en það stuðlaði að aukinni fjárfestingu fyrirtækja og léttari vaxtabyrði heimila. Í kjölfarið hefur hagvöxtur tekið við sér og störfum á vinnumarkaði fer nú aftur fjölgandi. Allt eru þetta jákvæðir þættir í efnahagslífinu sem mikilvægt er að treysta enn frekar.

Gagnstætt því sem við þekkjum frá fyrri tíð stafar batnandi afkoma þjóðarbúsins nú ekki af sérstakri uppsveiflu í sjávarútvegi. Skýringarnar eru aðrar. Allt frá miðjum síðasta áratug hefur íslenskt efnahagslíf gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Lykilorðið í þessari þróun er aukið frelsi í viðskiptum, jafnt með vörur, þjónustu hvers konar og fjármagn. Á öllum sviðum hefur hömlum verið aflétt og höftum, boðum og bönnum verið ýtt út af borðinu. Auk þess hefur af hálfu stjórnvalda verið gripið til ýmissa aðgerða til að laga rekstrarskilyrði atvinnulífsins að því sem best gerist í helstu samkeppnislöndunum. Þessi þróun hefur skapað nýjar forsendur fyrir atvinnulífið í landinu. Auknu frelsi fylgir vaxandi samkeppni inn á við sem út á við. Fyrirtækin hafa því þurft að taka sér tak, hagræða og endurskipuleggja reksturinn. Þessar breytingar hafa ásamt stöðugleika í efnahagslífinu lagt grunninn að öflugra atvinnulífi í framtíðinni.

Þótt margt hafi þannig þokast í rétta átt að undanförnu eru enn ýmis vandamál óleyst. Þetta birtist í því að hagvaxtarhorfur hér á landi næstu árin eru lakari en í nágrannalöndunum. Það stafar m.a. af því að fjárfesting í atvinnulífinu hefur enn ekki tekið nægilega við sér. Hér gætir í senn áhrifa hárra vaxta þótt þeir hafi lækkað nokkuð á undanförnum árum og erfiðleika við að afla fjármagns á hlutabréfamarkaði. Afleiðingin er sú að hagvöxtur verður minni en ella og störfum fjölgar ekki nægilega mikið til að taka við því nýja fólki sem kemur inn á vinnumarkaðinn árlega.

Meginskýring hárra vaxta er að fjármagna þarf hallarekstur ríkis og sveitarfélaga með lántökum. Auknar lántökur þessara aðila á innlendum markaði þrengja svigrúm fyrirtækja til að afla sér lánsfjár til fjárfestinga. Afleiðingin verður sú að vextir hækka. Ekkert bendir til þess að halli ríkissjóðs minnki á næstu árum ef ekki er gripið til sérstakra aðgerða. Þvert á móti eru horfur á að hallinn fari ört vaxandi, m.a. vegna fjölgunar ellilífeyris- og bótaþega en hún kallar á aukin útgjöld á næstu árum. Hér er komið að kjarna málsins. Til að komast út úr þessari sjálfheldu þarf að stöðva hallarekstur ríkisins. Það er lykillinn að auknum hagvexti, fjölgun starfa og bættum lífskjörum í framtíðinni. Að þessu leyti má segja að íslenskt efnahagslíf sé nú á krossgötum. Ef ekkert er aðhafst blasir við áframhaldandi og vaxandi hallarekstur ríkisins. Í kjölfarið munu vextir hækka og fjárfestingar fyrirtækja minnka. Við þær aðstæður mun ekki draga úr atvinnuleysi.

En það er önnur og dekkri hlið á þessari framtíðarsýn. Með því að halda áfram að reka ríkissjóð með halla hlaðast upp skuldir sem komandi kynslóðir þurfa að borga. Það er að mínu viti fullkomlega óábyrgt að standa þannig að málum. Með batnandi efnahag getum við ekki með nokkru móti réttlætt sífelldan hallarekstur og haldið áfram að senda börnum og barnabörnum okkar reikninginn. Hallareksturinn gerir hvort tveggja í senn að draga úr hagvexti og kalla á hækkun skatta vegna skuldasöfnunar. Þannig erum við með áframhaldandi hallarekstri að þrengja hag komandi kynslóða með tvöföldum þunga. Annars vegar með lakari lífskjörum og hins vegar með hærri sköttum. Okkur verður að lærast að taka ábyrgð á framtíðinni, ekki að skuldsetja hana. Við höfum einfaldlega ekkert val í þessum efnum og það er meginboðskapur þessa fjárlagafrv.

Ríkisstjórnin er staðráðin í að bregðast við þessum vanda og grípa til þeirra aðgerða sem hún telur nauðsynlegar til að treysta hagvöxt, tryggja atvinnu og bæta lífskjör almennings. Fyrr í þessari viku voru hér á Alþingi umræður um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar þannig að ég mun aðeins í stuttu máli nefna nokkur áhersluatriði efnahagsstefnunnar, einkum þau er varða ríkisfjármál.

Meginmarkmiðið er að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir auknum hagvexti og fjölgun starfa. Lítil verðbólga og sambærilegir vextir og í helstu samkeppnislöndum stuðla að auknum fjárfestingum og nýsköpun í atvinnulífinu og er því forsenda þess að störfum fjölgi. Því er mikilvægt að draga úr lánsfjárþörf ríkisins.

Ríkisstjórnin telur það forgansverkefni að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á ráðdeild um leið og stoðir velferðarinnar verða treystar. Í þeim tilgangi er brýnt að stöðva að sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs. Unnið verður að ýmsum skipulagsbreytingum til að nýta sem best þá fjármuni sem varið er til heilbrigðis- og menntamála einstakra atvinnugreina og opinberra framkvæmda.

Í stefnuyfirlýsingunni segir að áfram verði unnið að nýskipan í ríkisrekstri með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum, breyttu launakerfi og aukinni ábyrgð stjórnenda. Stefnt verður að meiri hagkvæmni við opinberar framkvæmdir og ríkisrekstur gerður einfaldari og skilvirkari. Aðstöðumunur verður jafnaður þar sem ríkið stundar atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila og arðsemiskröfur verða gerðar til ríkisfyrirtækja. Lögð verður fram áætlun um verkefnasvið einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða, ríkisfyrirtækja og stofnana, sem eru í samkeppni við einkaaðila. Jafnframt er áhersla lögð á að treysta rekstrarskilyrði atvinnuvega og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetingu. Mótuð verður heildarstefna um upplýsingatækni og upplýsingamiðlun í því skyni að bæta framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Lög um erlenda fjárfestingu verða endurskoðuð til að laða að erlent fjármagn og atvinnustarfsemi.

Fjárlagafrv. endurspeglar þær áherslur í efnahagsmálum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þessi stefna kallar á aðgerðir á mörgum sviðum. Einna mikilvægast er að draga úr halla ríkissjóðs og ná jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu tveimur árum. Ábyrg og traust ríkisfjármálastefna er forsenda þess að vextir geti lækkað, fjárfesting í atvinnulífinu taki við sér og hagvöxtur komist á skrið og störfum fjölgi. Þetta er kjarninn í stefnunni sem fjárlagafrv. byggir á og ætlað er að bæta lífskjör heimilanna í landinu. Markmið fjárlagafrv. er að minnka halla ríkissjóðs um helming á árinu 1996 og ná jafnvægi árið 1997. Árið 1996 er áætlaður halli tæplega fjórir milljarðar kr. Gangi þessi áform efir verður það minnsti halli á ríkissjóði í tólf ár en árið 1984 var síðast afgangur á rekstri ríkissjóðs. Til að ná þessu markmiði þarf að beita ýtrasta aðhaldi í útgjöldum. Við fjárlagagerð ársins 1996 hefur einkum verið litið til lækkunar tilfærsluframlaga hvers konar og framkvæmda, einkum á sviði samgangna. Nýjar aðgerðir til að draga úr rekstrarútgjöldum krefjast lengir undirbúnings. Til þess verður horft við fjárlagagerð 1997 og er undirbúningur þegar hafinn.

Á gjaldahlið er megináhersla lögð á að halda aukningu útgjalda í skefjum. Í þessu skyni er dregið úr sjálfvirkni í vexti útgjalda einkum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. Jafnframt er aðhaldi beitt í rekstri stofnana ríkisins. Loks eru framlög til fjárfestinga lækkuð. Þrátt fyrir aðhaldssama útgjaldastefnu aukast framlög til ýmissa málaflokka, t.d. til eflingar skólastarfi vegna aukinnar kennslu.

Ég legg áherslu á að þó nokkuð dragi úr framkvæmdum á vegum ríkisins þýðir það ekki minni umsvif í efnahagslífinu þar sem minni lánsfjárþörf ríkisins eykur svigrúm atvinnulífsins til fjárfestingar. Stefna ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjárlagafrv. stuðlar að aukinni atvinnu og fjölgun starfa. Um þetta vitna allar tölur. Skoðum þetta eilítið nánar. Lítum fyrst á fjárfestinguna. Hvað gerist? Jú, á tveimur árum eykst fjárfesting í atvinnulífinu um 25%, um fjórðung að raungildi. Þetta eru engar smátölur því þetta þýðir 10 milljarða kr. viðbótarfjárfestingu í þjóðarbúinu. Þótt framkvæmdir dragist saman hjá ríkinu eru það smámunir miðað við þetta eða vel innan við tvo milljarða á sama tíma. Eins verður að hafa í huga að fjárfestingar ríkisins voru óvenju miklar síðustu ár vegna sérstakra átaksverkefna í þeirri efnahagslægð sem við vorum í. Leiðin til að skapa atvinnu er ekki að ríkið sogi til sín meira og meira fjármagn. Til að fjölga störfum þarf að skapa skilyrði til fjárfestinga í atvinnulífinu. Á samdráttartímum getur verið réttlætanlegt að auka fjárfestingar hins opinbera. Hinu má ekki gleyma að meiri fjárfesting ríkisins leiðir oftast til nýs rekstrar og aukinna útgjalda sem þrengja aftur að möguleikum atvinnulífsins. Að öllu samanlögðu er talið að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 1996 verði u.þ.b. 124 milljarðar kr. og verði nokkurn veginn óbreytt í krónum talið frá áætlun þessa árs. Hins vegar lækka útgjöldin að raungildi um 2--3% eða sem nemur rúmlega þremur milljörðum kr. Hlutfall útgjalda af landsframleiðslu lækkar því umtalsvert eða rúmlega 1% og hefur ekki verið lægra síðan 1987.

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var undirritaður samningur um sauðfjárframleiðslu en sá samningur er samningur um breytingar á samningi landbrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Stéttarsambands bænda frá 11. mars 1991. Ég legg áherslu á að þessi samningur er samningur til breytinga á þeim samningi. Verði þessi samningur samþykktur af Bændasamtökum Íslands mun ég flytja brtt. við þetta frv. þess efnis að um það bil 200 millj. kr. hækkun verði á lið 04-805 sem nefnist Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu.

Miklar umræður hafa orðið um þennan samning og sýnist sitt hverjum um ágæti hans. Af því tilefni tel ég rétt að drepa á nokkur atriði sem snerta samninginn.

Í fyrsta lagi hefur það verið gagnrýnt að verðtryggingarákvæði sé í samningnum en hann er til fimm ára. Í því sambandi er rétt að minna á að í gamla samningnum eru sams konar ákvæði og ekki þótti rétt að gera breytingar á því þar sem samningurinn er til langs tíma ef t.d. er miðað við kjarasamninga sem bæði fela í sér hækkanir á samningstímabilinu og verða lausir ef verðlag breytist umfram ákveðin mörk. Það skal tekið fram að gefnu tilefni að verðbótaákvæði þess samnings voru sett inn í hann með fullri vitund og í þökk aðila vinnumarkaðarins.

Í öðru lagi má ekki gleyma því að með nýja samningnum eru gerðar verulegar breytingar sem ættu að skila sér í lægra verðlagi til neytenda. Frjáls verðlagning á framleiðslu og vinnslustigi eykur samkeppnishæfni framleiðslunnar. Fjárhagsleg ábyrgð á ráðstöfun vaxta og geymslugjalds og ullarniðurgreiðslna færist til bænda. Verulegt átak verður gert til að stækka búin og þróa framleiðsluvöruna. Skilið er á milli stuðnings ríkisins og framleiðsluskyldunnar og aðgangur að markaði er því óháður stuðningi þannig að öllum er frjálst að framleiða á innanlandsmarkaði. Ábyrgðin á framleiðsluskipulaginu er færð frá ríkinu til bænda.

Í þriðja lagi vil ég benda á að framlög ríkisins til sauðfjárræktar voru 17,6 milljarðar á fimm ára tímabilinu 1991--1995 en verða 11 milljarðar á fimm ára tímabilinu 1996--2000. Á árinu 1991, en það var síðasta árið með gamla fyrirkomulaginu, var varið 4,5 milljörðum króna til sauðfjárframleiðslu en fjárhæðin verður tveir milljarðar árið 2000. Þannig verður stuðningur í lok áratugarins fast að 60% lægri en hann var í upphafi hans.

Ég vil enn fremur geta þess að í samningnum eru ákvæði þess efnis að hluti samningsins eða hann allur sé til endurskoðunar ef viss skilyrði eru fyrir hendi. Þannig eru tölurnar í samningnum viðmiðunartölur sem geta hækkað eða lækkað og ég vil taka það sérstaklega fram að ef innanlandsneyslan dregst saman er sérstakt ákvæði í samningnum þess efnis að hægt sé að endurskoða hann eftir tvö ár og taka tillit til innanlandsneyslunnar þannig að beingreiðslur geta hækkað eða lækkað eftir atvikum eftir því hvernig innanlandsneyslan þróast á samningstímabilinu en þetta er sams konar ákvæði og var í þeim samningi sem nú er í gildi.

Herra forseti. Tekjuhlið fjárlagafrv. markast af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að þyngja ekki skattbyrði. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar rétt innan við 120 milljarða kr. árið 1996. Þar af nema skatttekjur tæplega 112 milljörðum kr. Tekjurnar aukast um tæplega 6 milljarða frá árinu 1995 eða sem nemur almennum verðbreytingum og hagvexti. Tekjuaukninguna má alfarið rekja til meiri kaupmáttar launafólks í kjölfar kjarasamninga sem birtist í aukinni neyslu og fjárfestingu almennings. Hlutfall tekna af landsframleiðslu lækkar hins vegar lítillega frá því í ár og hefur ekki verið lægra síðan 1987. En árið 1987 var stundum kallað skattlausa árið ef einhver skyldi hafa gleymt því.

Því hefur verið haldið fram að þetta fjárlagafrv. feli í sér hækkun skatta. Þetta er ekki rétt eins og tölurnar sem ég nefndi sýna. Í frv. er hins vegar verið að bregðast við skattalækkun sem kom til framkvæmda fyrr á þessu ári og enn frekari skattalækkun á næsta ári. Hér er ég að tala um þá ákvörðun að gera greiðslur launafólks í lífeyrissjóði skattfrjálsar. Þessi ákvörðun var tekin undir þeim formerkjum að hér væri réttlætismál á ferðinni þar sem annars væri um tvísköttun að ræða. Hvað sem um þær röksemdir má segja var á það fallist en því var skilmerkilega og afar skýrt komið á framfæri við aðila vinnumarkaðarins að hér væri um svo mikla kerfisbreytingu að ræða að hún kallaði óhjákvæmilega á aðra tekjuöflun. Þetta var alveg skýrt og það var forsendan fyrir því að fyrri ríkisstjórn féllst á þessa aðgerð. Og ég vil taka það fram að fyrir kosningar var mjög skýrlega sagt frá þessu bæði af minni hálfu og eins af forustumönnum Alþfl. sem þá átti aðild að stjórnarsamstarfi með Sjálfstfl. Þess vegna er ekki hægt að koma núna, nokkrum mánuðum síðar, og tala um þessa tekjuöflun sem sérstaka skattahækkun. Það gengur auðvitað ekki upp því þetta tvennt hangir saman. Ég vil líka benda á að skattleysismörkin hækka á næsta ári þrátt fyrir að persónuafsláttur verði óbreyttur í krónum talið. Ástæðan er auðvitað sú að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda jafngildir í reynd lækkun tekjuskattshlutfallsins um rúmlega 1,5% þegar það er að fullu komið til framkvæmda en það er ígildi hækkunar skattleysismarka. Ég vek líka sérstaka athygli á því að skattleysismörkin á næsta ári verða hærri en þau hefðu orðið miðað við að þau hefðu fylgt almennum verðlagsbreytingum en það stafar sem fyrr segir af skattfrelsi lífeyrisiðgjalda.

Eins hefur því verið haldið fram að sérstaklega sé verið að ráðast á launafólk þegar tekna er aflað í stað þeirra sem ríkið verður af. Þetta er auðvitað ekki rétt heldur. Því að tekjutapinu er mætt með tekjuöflun sem skipt er á milli fyrirtækja og einstaklinga. Þegar upp er staðið og breytingarnar að fullu komnar fram er launafólkið betur sett en áður. Þess ber þó að geta að skattar á fyrirtæki hljóta að sjálfsögðu að rýra getu þeirra til að hækka laun að sama skapi. Aðalatriðið er hins vegar það að skattbyrðin er ekki að þyngjast samkvæmt frv. Þvert á móti lækka skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu og það er óumdeilt vona ég.

Þegar rætt er um tekjuöflun næsta árs vil ég geta þess að samráðsnefnd um olíugjald sem skipuð var fulltrúum hagsmunaaðila og stjórnvalda komst í gær að þeirri niðurstöðu að fresta bæri gildistöku laga um vörugjald af olíu um tvö ár og taka upp litun gjaldfrjálsrar olíu innan þess tíma. Ástæðan er sú að Danir hafa nú nýlega þróað hagkvæma aðferð við að lita olíu sem vert er að athuga nánar. Ég tel því rétt að málið verði undirbúið betur og fylgst með þróuninni í Danmörku. Frv. um frestun gildistöku laganna verður væntanlega lagt fram á Alþingi á næstu dögum ef ríkisstjórnin samþykkir og þingflokkar stjórnarflokkanna en samþykkt þess hefur ekki áhrfi á tekjuáætlun frv. Þungaskattskerfið mun að sjálfsögðu verða í gildi á biðtímanum en gerðar verða lagfæringar á lögunum, m.a. til að styrkja eftirlit.

Ég vil nefna að lokum, virðulegi forseti, varðandi tekjumálin að samhliða fjárlagagerðinni hefur verið unnið að ýmsum umbótum í skattamálum. M.a. er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp á næsta ári og unnið er að heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu með það fyrir augum að draga úr jaðaráhrifum þess. Ég vík nánar að því atriði síðar.

Herra forseti. Fyrir efnahagslífið og atvinnulífið er afar mikilvægt að minni rekstrarhalli dregur úr lánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári. Jafnframt er áætlað að lánsfjárþörf ríkisfyrirtækja, opinberra lánasjóða og sveitarfélaga verði minni en á þessu ári. Hvort tveggja stuðlar að lægri vöxtum en ella. Gert er ráð fyrir að lánsfjárþörf ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og opinberra lánasjóða verði minni en verið hefur í meira en áratug. Til að undirstrika þetta enn frekar er gert ráð fyrir að lánsfjárþörfin á næsta ári verði innan við fjórðungur þess sem hún var árið 1991.

Í fjárlagagerð hér á landi hefur hingað til einkum verið horft til eins árs í senn og til ráðstafana sem skila sér á fjárlagaárinu. Í nágrannaríkjunum hafa hins vegar um nokkurt skeið verið settar fram áætlanir um horfur í ríkisfjármálum til nokkurra ára að gefnum tilteknum forsendum um þjóðhagshorfur. Þessar áætlanir hafa nýst stjórnvöldum til að marka stefnu í ríkisfjármálum til lengri tíma.

Þrátt fyrir að þessar áætlanir hafi ekki lagagildi styrkja þær trúverðugleika efnahagsstefnunnar út á við og stuðla að meiri stöðugleika. Gildi slíkra áætlana er því ótvírætt. Ég tel sterklega koma til álita að treysta þessa áætlanagerð enn frekar í sessi með lagasetningu og bindandi ákvörðunum ríkisstjórnar og Alþingis.

Þá má geta þess einnig að í sumum ríkjum hefur verið rætt um að fjárlög séu gerð til tveggja ára í senn og verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í þeim efnum á næstu missirum og árum.

Fyrr á þessu ári lagði ég fram í ríkisstjórn drög að áætlun í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Áætlunin var unnin í fjmrn. í samvinnu við Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka. Í henni eru sýndar niðurstöður athugana á hugsanlegri þróun efnahagsmála fram til ársins 1998. Á næstu árum er búist við að heldur hægi á hagvexti hér á landi miðað við það sem nú er nema gripið verði til sérstakra aðgerða til að örva efnahagslífið. Lykilatriði í þessu samhengi er að ríkisfjármál verði tekin föstum tökum og rekstrarhalla snúið í afgang. Að öðrum kosti stefnir í umtalsvert minni hagvöxt en í nágrannalöndunum, hækkun vaxta og minni fjárfestingar. Við slík skilyrði fjölgar störfum engan veginn nóg til að taka á móti nýju vinnuafli og draga úr atvinnuleysi. Niðurstöður langtímaáætlunarinnar staðfesta einnig að eina örugga leiðin til þess að örva hagvöxt og efla atvinnulífið felst í því að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og lægri vexti. Forsenda fyrir því er að dregið verði úr halla ríkissjóðs með ströngu aðhaldi að ríkisútgjöldum.

Mikill og þrálátur hallarekstur hins opinbera er eitt meginvandamál og viðfangsefni hagstjórnar í OECD-ríkjunum og reyndar víða um heim. Um það eru menn sammála á alþjóðavettvangi enda eru helstu skilaboð frá alþjóðaefnahagsstofnunum til stjórnvalda að taka fjármál ríkis og sveitarfélaga föstum tökum og nýta þannig uppsveifluna í efnahagslífinu sem best. Það er enn fremur til marks um hve víðtæk samstaða virðist vera að skapast um megináherslur í efnahagsmálum að í sameiginlegri greinargerð samtaka launþega og atvinnurekenda í Evrópusambandinu eru aðgerðir til að ná tökum á hallarekstri hins opinbera taldar forsenda þess að skapa fleiri störf og minnka atvinnuleysið. Þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þeirrar umræðu sem hefur orðið um frv. þetta á síðustu dögum.

Virðulegi forseti. Með því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu er stigið mikilvægt skref í átt til jafnvægis í ríkisfjármálum. Útgjöldum er haldið í skefjum og sá tekjuauki sem efnahagsbatinn skilar gengur til þess að minnka halla ríkissjóðs á næsta ári. Þessu starfi þarf að halda áfram á næstu árum. Fyrr í ræðu minni vakti ég athygli á nokkrum áhersluatriðum í ríkisfjármálum sem fram kom í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og vinna þarf að á næstunni. Vinna er nú þegar hafin vegna margra þessara verkefna og önnur í undirbúningi. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir nokkrum þeirra.

Ýmislegt í skatta- og útgjaldamálum ríkisins ber enn merki um fyrri verðbólgutíma. Sjálfvirk verðuppfærsla ýmissa bóta og afsláttarliða í takt við vísitölubreytingar er dæmi um þetta. Með auknum stöðugleika í verðlagsmálum eru ekki lengur rök fyrir þessari sjálfvirkni. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að öll ákvæði laga og reglna sem fela í sér beina tengingu útgjalda og tekna við breytingu á vísitölum og launum verði afnumin en þess í stað verði ákvarðanir um breytingar teknar við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Í framhaldi af þessu hefur ríkisstjórnin ákveðið að á næsta ári verði helstu afsláttar- og bótaliðir skattkerfisins óbreyttir. Jafnframt er ekki gert ráð fyrir að gjaldskrár verði hækkaðar og sama gildir um þá skatta og gjöld sem hafa verið tengd verðvísitölu eins og bifreiðaskatt, bensíngjald og nefskatt í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta gildir því hvort tveggja um afsláttar- og bótaliði annars vegar og um skatta og gjaldskrár hins vegar.

Sömu grundvallarbreytingar eru gerðar gjaldamegin í almannatryggingakerfinu. Sjálfvirk tenging við laun er afnumin. Í staðinn er gerð sú mikilvæga breyting að svokallaðar eingreiðslur sem hingað til hafa verið ákveðnar í tengslum við gerð kjarasamninga hverju sinni eru felldar inn í grunnfjárhæðir tryggingabótakerfisins. Þetta þýðir að bótafjárhæðir hækka í flestum tilvikum meira um næstu áramót en annars hefði orðið. Jafnframt þýðir þetta og það vil ég sérstaklega undirstrika að eingreiðslurnar verða varanlegar. Ekki þarf lengur að semja um þær í kjarasamningum. Þeirri óvissu er því eytt. Ég vænti þess að þessi aðgerð verði metin að verðleikum enda þýðir hún að bótafjárhæðirnar verða hærri í upphafi árs 1997 en ella hefði orðið.

Eins og ég hef áður nefnt ber fjárlagafrv. og fjárlagagerðin sem slík merki þess að horft er til lengri tíma en eins árs í senn. Dæmi um þessa langtímahugsun er að nú þegar er hafinn undirbúningur að fjárlagagerð ársins 1997 hvað varðar sparnað og aðhald í rekstri. Í þessu sambandi vil ég nefna að sérstök nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hefur gert tillögur um ýmsar skipulagsbreytingar og hagræðingu í rekstri á næstu árum. Á næstunni hefst vinna við að útfæra þessar tillögur á vegum ráðherranefndar um ríkisfjármál þar sem farið verður ofan í saumana á því hvernig unnt er að spara í rekstri ríkisins. Niðurstöður þessarar athugunar verða væntanlega lagðar fram í frumvarpsformi til afgreiðslu á vorþingi.

Virðulegur forseti. Þótt fyrirhugað sé að spara sérstaklega í rekstri er ástæða til að benda á að á undanförnum árum hefur verið tekið á ýmsum rekstrarþáttum ríkisins og samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að áfram verði haldið á sömu braut. Þannig hefur verið gerð krafa um tiltekna hagræðingu í rekstri mörg undanfarin ár sem nemur um það bil 2% á ári að meðaltali. Þetta hefur skilað sér í umtalsverðum rekstrarsparnaði. Jafnframt hafa verið í gangi sérstakar hagræðingaraðgerðir á sjúkrahúsum og í skólum svo að dæmi séu tekin. Þessar aðgerðir og ýmsar fleiri hafa skilað sér í sparnaði í rekstri sem hleypur á milljörðum króna á ári. Lausleg athugun fjmrn. bendir til þess að rekja megi 11--12 milljarða árlegan sparnað til aðgerða á undanförnum árum til að draga úr lögbundnum útgjöldum og útgjaldasjálfvirkni.

Loks vil ég enn á ný nefna tengslin milli fjárfestingar og rekstrar sem birtast í því að um leið og ákveðið er að fjárfesta í byggingu er í reynd tekin ákvörðun um aukinn rekstur. Með því að hamla gegn fjárfestingum af þessu tagi er jafnframt verið að sporna við auknum rekstrarkostnaði í framtíðinni.

Eins og ég hef áður nefnt er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir að taka tekjuskattskerfið til sérstakrar endurskoðunar, m.a. með það að markmiði að lækka jaðarskatta. Ástæðan fyrir auknum jaðaráhrifum á undanförnum árum er sú krafa að skattbyrði eigi að hækka með hækkandi tekjum og margs konar bætur skuli fyrst og fremst skila sér til hinna tekjulægstu. Oft er þetta gert í nafni félagslegs réttlætis. Með því að tekjutengja einnig endurgreiðslu námslána og fleiri þætti getur það gerst hér á landi sem er alþekkt í nágrannalöndunum að fólk vilji ekki afla viðbótartekna eða reyni að afla þeirra í svartri atvinnustarfsemi. Skatta- og bótakerfi sem leiðir til slíkrar niðurstöðu þarf að breyta. Ég hef nú þegar óskað eftir tilnefningu ýmissa aðila í nefnd til að vinna að þessu verkefni. Nefndin á að skila tillögum fyrir árslok 1996. Það er ljóst að þetta verkefni er býsna umfangsmikið og því verður ekki lokið á örfáum vikum eða mánuðum ef eitthvert hald á að vera í tillögunum. Þess vegna þarf að stefna að því að tillögurnar geti verið lögfestar næsta haust og komið til framkvæmda á árinu 1997 og slíkt ætti að takast.

Ég vil hins vegar í þessu sambandi nefna að samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að dregið verði úr tekjuskerðingu barnabóta eða réttara sagt barnabótaauka. Þetta jafngildir því að dregið verði úr jaðaráhrifum skattkerfisins og er þannig fyrsta skrefið í átt til almennrar lækkunar jaðarskatta og jaðaráhrifa. Með þessu er jafnframt staða barnafjölskyldna með þunga framfærslubyrði treyst. Þessar tillögur eru enn í mótun en gera má ráð fyrir að jaðarskattur 3--4 barna fjölskyldna geti lækkað umtalsvert og barnabæturnar jafnframt hækkað um allt að 10 þús. kr. á mánuði sé miðað við 200 þús. kr. mánaðartekjur hjóna. Jaðaráhrifin jafngilda allt að 10% lækkun jaðarskatts. Þetta er því mikilvægt framlag til lækkunar jaðarskatta og fyrsta skrefið á þeirri braut sem ég lýsti áðan.

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að nefna að nú er á lokastigi sérstök athugun sem ég hef látið gera á samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og horfunum á næstu árum og áratugum. Hér er horft til margra þátta, svo sem þróun efnahags og atvinnumála, menntunar, viðskiptareglna og opinberrar stjórnsýslu. Tilgangur athugunarinnar er að leita leiða til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins, m.a. í ljósi breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi og aukinnar samkeppni frá fjarlægum löndum í Asíu, Austur-Evrópu og víðar.

Að undanförnu hefur skatteftirlit verið hert til muna. M.a. hefur verið skipuð sérstök framkvæmdanefnd á þessu sviði og hafa margar tillögur hennar, t.d. um hert viðurlög við skattsvikum, komist í framkvæmd. Þá hefur sjálfstætt embætti skattrannsóknastjóra styrkt skatteftirlit. Frekari umbætur eru í undirbúningi og munu þær enn styrkja skatteftirlit og draga úr skattsvikum. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði að unnið sé ötullega að því að uppræta skattsvik og tryggja að framtöl byggist á skattalögum. Þess vegna hefur sérstaklega verið unnið að þessum málum og lagðir til þeirra meiri fjármunir en áður. Til marks um árangurinn má geta þess að endurálagðir skattar hafa þrefaldast frá árinu 1992 og hækka úr tæpum 600 millj. í tæpar 1.800 millj. Skatteftirlit og skattrannsóknir ríkisvaldsins beinast að því að bæta skattheimtuna bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Í sumum sveitarstjórnum er áhugi á hertara eftirliti. Í því sambandi finnst mér koma til greina að sveitarfélög leggi þessari starfsemi lið með fjárframlögum til að styrkja eftirlitið. Ég vara hins vegar við nornaveiðum og bendi á nauðsyn þess að skattborgarar hafi jafnan rétt til að skýra framtöl sín og áfrýja úrskurðum á grundvelli skattalaganna.

Í samræmi við ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar hef ég skipað sérstaka nefnd til að undirbúa tillögur um úrbætur í lífeyrismálum sem miða m.a. að því að allir landsmenn njóti sambærilegra lífeyrisréttinda, valfrelsi í lífeyrissparnaði verði aukið og innleidd verði samkeppni milli lífeyrissjóða. Þetta er í mínum huga afar mikilvægt og brýnt mál sem nauðsynlegt er að ná sem víðtækastri sátt um.

Þá vil ég nefna að ég hef skipað nefnd til að endurskoða starfsmannastefnu ríkisins. Nýjar hugmyndir í starfsmannamálum fela m.a. í sér að ábyrgð og frammistaða vega þyngra í launakjörum en starfsaldur og að stofnanir fái aukið sjálfstæði í launa- og starfsmannamálum. Núgildandi lög um starfsmannamál ríkisins taka um margt mið af aðstæðum sem ekki eru lengur fyrir hendi og hafa breyst í ýmsum grundvallaratriðum. Þá tel ég einnig mikilvægt að taka jafnréttismál karla og kvenna í kjaramálum til sérstakrar skoðunar. Í erindisbréfi nefndar um starfsmannastefnu ríkisins er sérstaklega kveðið á um að nefndin fjalli um þessi tilteknu mál. Í fjmrn. er einnig unnið að sérstakri athugun í þessu máli og þá er fyrirhuguð kynning meðal ríkisstarfsmanna um stöðu jafnréttismála. Unnið hefur verið að margvíslegum undirbúningi og framkvæmd breytinga á rekstri ríkisins sem miða að því að gera hann einfaldari og skilvirkari og nýta skattfé betur en áður. Útboð framkvæmda og verkefna hafa verið aukin. Gerðir hafa verið sérstakir þjónustusamningar milli nokkurra ríkisstofnana og viðkomandi fagráðuneyta sem fela í sér aukið sjálfstæði stofnana og aukna ábyrgð stjórnenda. Lagt verður fram frv. um heildarendurskoðun á reikningshaldi ríkissjóðs og framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga. Í ríkisreikningi fyrir árið 1994, sem lagður var fram á Alþingi fyrir skömmu, er að finna breytingar sem miða að því að gera ríkisreikninginn auðveldari aflestrar fyrir stjórnmálamenn og aðra þá sem leita upplýsinga um fjárreiður ríkisins og ríkisumsvif yfirleitt.

Unnið er að mótun stefnu og starfsáætlunar um tilhögun og notkun upplýsinga frá ríkisstofnunum. Með hagnýtingu nýjustu tækni í rekstri ríkisins má m.a. draga úr tvíverknaði í gagnaöflun, einfalda þjónustu og gera hana markvissari.

Þá vil ég geta þess að í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að draga úr verðtryggingu fjárskuldbindinga hafa verið gefin út óverðtryggð ríkisbréf til fimm ára. Þessi breyting er gerð í ljósi þess efnahagslega stöðugleika sem hér ríkir. Enn fremur verða gefin út verðtryggð spariskírteini til lengri tíma en áður eða allt að 20 ára. Með þessu er komið til móts við þarfir stærstu fjárfestanna á verðbréfamarkaðnum.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum á næstu tveimur árum. Jafnframt verður gripið til aðgerða sem horfa til lengri tíma til að treysta þann grunn sem fjárlagagerð næstu ára mun hvíla á. Meginboðskapur frv. er að ekki sé réttlætanlegt að ríkissjóður haldi áfram að safna skuldum og velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Þess vegna þarf að grípa strax í taumana. Sem betur fer er vaxandi skilningur í þjóðfélaginu á mikilvægi þessarar stefnu, einkum meðal ungs fólks. Brýnt er að skapa víðtækan skilning á því að þetta er eina færa leiðin til að treysta og bæta lífskjörin í landinu og vinna þannig ábyrgri ríkisfjármálastefnu fylgi.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa á undanförnum dögum verið ódeigir við að gagnrýna fjárlagafrv. Allir segjast þeir í orði kveðnu styðja þá stefnu að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. En síðan beina þeir spjótum sínum að sparnaðartillögum frv. og finna þeim flest til foráttu. Þetta er auðvitað ekki trúverðugur málflutningur. Verður því fróðlegt að fylgjast með því í umræðunum hér á eftir hvaða tillögur koma frá stjórnarandstöðunni um sparnað og samdrátt í útgjöldum ríkisins til að ná þeim markmiðum sem þeir þykjast vera sammála um. Þjóðin mun fylgjast mjög gaumgæfilega með þeirri tillögugerð.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ýmsar þeirra aðgerða sem gripið verður til eru ekki til vinsælda fallnar. Það er einu sinni þannig að það virðist vinsælla að auka útgjöld en að draga úr þeim. Þeir eru fáir, vinir ríkissjóðs, þegar á reynir. Það er hins vegar óábyrgt að hlaupast undan vandanum og hafast ekki að. Það er verkefni stjórnmálamanna að taka ákvarðanir sem horfa til heilla fyrir land og þjóð, ekki aðeins í dag og á morgun, heldur ekki síður fyrir framtíðina. Við verðum að láta skammtímahagsmuni víkja fyrir mikilvægari markmiðum til lengri tíma. Ég tel að við eigum engra annarra kosta völ. Það kann að vera að þessi afstaða eigi ekki upp á pallborðið hjá öllum. Ég er hins vegar sannfærður um að kjósendur morgundagsins, unga fólkið í landinu, styður þessa stefnu og fagnar henni. Með fjárlagafrv. og stefnu ríkisstjórnarinnar tel ég því vera stigið mikilvægt skref í átt til hagsældar og farsældar.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.