Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 11:57:49 (71)

1995-10-06 11:57:49# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GE
[prenta uppsett í dálka]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins um það bil þrír sólarhringar frá því að grundvöllur að ríkisfjármálum kom til umfjöllunar í fjárln. Mikið vantar á að fyrstu yfirferð sé lokið. Embættismönnum hefur engan veginn unnist tími til að svara ýmsum af þeim spurningum sem þegar hafa verið settar fram þó ekki sé nema rétt liðlega hálfnað að fara yfir efnið. Það hlýtur því að verða þannig að við 2. umr. hljóta að verða bornar fram spurningar sem ekki er komið svar við enn þá og jafnvel spurningar sem hafa ekki enn verið mótaðar. Ég hefði talið, herra forseti, að við hverja umræðu fjárlaga ættu allir ráðherrar að vera viðstaddir ásamt formanni fjárln. sem barðist blóðugum bardaga fyrir formennsku í fjárln. Ég veit reyndar að hann hefur fjarvistarleyfi en skoðun mín er engu að síður sú að hann ætti að vera við umræðuna.

Í upphafi máls míns leyfi ég mér að spyrja spurninga út frá því máltæki að orð skulu standa og þar sem hæstv. samgrh. er ekki við vildi ég spyrja hv. varaformann fjárln. en hann er heldur ekki við og ég ætlaði, herra forseti, að spyrja hæstv. heilbrrh. spurninga en hún er heldur ekki við. (Gripið fram í.) Hún er við. Þær spurningar sem ég hef fram að færa við þau í fjarveru framsóknarráðherra eru hvort þau ætli að láta yfir sig ganga að Gilsfjarðarbrú verði frestað eða framkvæmdin tekin út af verkframkvæmdalista ársins í ár. Ástæðu spurningarinnar þarf ég ekki að rekja. En allir þingmenn Vestfjarða og Vesturlands gáfu fyrirheit um að þetta verk skyldi framkvæmt og út frá máltækinu sem ég nefndi í upphafi að orð skulu standa ítreka ég enn spurninguna og vonast til að hv. varaformaður fjárln., Sturla Böðvarsson, svari spurningunni við umræðuna á eftir. (StB: Hvaða spurning er það?) Mér er sönn ánægja að ítreka þá spurningu. Ég spyr varaformann fjárln.: Ætlar hann að láta það yfir sig ganga ásamt og með hæstv. heilbrrh. að verkefnið Gilsfjarðarbrú verði tekið út af listanum og ekki verði unnið að framkvæmdinni í ár? Í kjölfar þess að ég segi að orð skulu standa og þessu hétu allir þingmenn Vestfjarða og Vesturlands. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. og treysti því þá úr því að þess er getið að hún sé í salnum: Ætlar hún að taka út af verkefnalista D-álmu Sjúkrahúss Keflavíkur? Ætlar hún að taka út af verkefnalista hjúkrunarrýmin í Fáskrúðsfirði? Ætla menn að láta það yfir sig ganga að fresta miskabótum til fórnarlamba ofbeldisverka eins og nú er gert ráð fyrir í þessu frv.? Er það virkilega meiningin að þar sem undirritað er að lyfjalög gangi í gildi 1. nóv. að þetta allt saman eigi að fara fyrir bí? Er þá þetta gamla íslenska máltæki, orð skulu standa, einskis virði?

Virðulegur forseti. Við ræðum grundvöll hæstv. fjmrh. fyrir ríkisfjármálum, fjárlagafrv. sem hann leggur fram til umræðna og frekari vinnslu en ekki sem stórasannleik. Hæstv. ráðherra er ekki banginn frekar en fyrri daginn. Auðvitað vill hann trúa því efni sem hann hefur sett fram fyrir alþjóð en mér segir svo hugur um að hann viti betur, að hér sé um að ræða væntingar sem veik stoð er fyrir. En, hæstv. ráðherra, það má lengi lifa í voninni en ekki á henni.

Það plagg sem hér liggur fyrir er byggt á miklum vonum en veikum staðreyndum. Það er fjölmargt sem rennir stoðum undir þá skoðun að almennar forsendur séu óraunhæfar. T.d. er gert ráð fyrir því í frv. að tekjur af úthafsveiðum haldist, þ.e. að úr Smugunni og af Reykjaneshrygg komi sömu verðmæti og voru í ár. Enn fremur er gert ráð fyrir að það veiðist 100 þús. tonn af loðnu í ár. Þess sjást engin merki. Það er gert ráð fyrir 900 þús. tonna veiðum úr loðnustofninum á næsta ári. Engin rök liggja fyrir því að það muni standa. Aðeins þessi atriði í forsendum fjárlaga eru nægjanleg til að draga í efa trúverðugleik frv.

Gert er ráð fyrir minnkun fjárlagahalla niður í 4 milljarða kr. Það er markmið sem ég tel vera göfugt. En m.a. gerir tekjuhliðin ráð fyrir aukinni einkaneyslu og ríkið á að hafa mest af sínum viðbótartekjum upp á 5,5 milljarða af einkaneyslu. Sú neysla á að vera af hálfu einstaklinga og fjölskyldna. Sér hæstv. fjmrh. þess einhver merki? Það er nú reyndar þannig að ástand þessara mála er slíkt í dag að það hafa aldrei farið fleiri til útlanda án þess að hafa til þess peninga. Gjaldeyri er eytt í útlöndum en ekki á heimamarkaði eins og gert er ráð fyrir. Allar flugvélar til allra borga, sem í boði er að heimsækja, eru fullar. Það er alveg ljóst að hvergi sér þess merki að um sparnað sé að ræða til notkunar á heimaslóð. Það fara nefnilega flestir upp á krít á lögmálinu, græða fyrst og greiða svo. Fólk fellur nefnilega fyrir því að það er um hagkvæmar ferðir að ræða samkvæmt auglýsingum og með vörukaupum erlendis megi græða fyrir fari og uppihaldi. Það er reyndar undarlegt lögmál ef unnt á að vera að hagnast á því að eyða fjármunum á þennan hátt.

Virðulegur forseti. Ég hlýt að halda áfram að spyrja hæstv. fjmrh.: Telur hann að samdráttur fjárfestinga ríkis og sveitarfélaga, sem nema munu allt að 5 milljörðum, geti leitt til annars en stórfellds atvinnuleysis? Gerðar eru tillögur um niðurskurð hins opinbera í framkvæmdum og það mun að mínu mati draga úr atvinnutækifærum fyrir byggingarmenn og iðnaðarstéttir. En einkaaðilar munu samkvæmt þjóðhagsspá auka fjárfestingar um 13% á þessu ári og síðan er vonast eftir 10% aukningu á næsta ári. Það er miðað við sl. tvö ár en þá var samdráttur um 25% og hvar stöndum við þá? Í þessum boðskap felast því ekki fyrirheit um aukin störf í iðnaði heldur þvert á móti því að álitið er að fjárfestingar verði aðallega í tækjum og búnaði og þess vegna skapist tiltölulega fá störf af þeim sökum. Þar á móti kemur að verði um verulegar fjárfestingar að ræða í stóriðju, sem við jafnaðarmenn höfum talið nauðsynlega forsendu fyrir bættum þjóðarhag og fjölgun starfa, horfa mál öðruvísi við. Ég minni bara á það að markaðsskrifstofan var sett á laggirnar undir forustu Alþfl. Helstu forustumenn markaðssetningar á möguleikum stóriðnaðar á Íslandi hafa verið Jón Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. iðnrh.

Kynningarstarfsemi á vegum markaðsskrifstofunnar er nú að bera árangur sem lýsir sér í aukinni eftirspurn eftir möguleikum og aðstöðu til stofnunar stóriðju hér á landi. Áhugi t.d. bandarískra fjárfesta, sem nýlega hefur verið greint frá um byggingu álvers í Hvalfirði eða á Reykjanesi, er bundinn við þann aðgang að mörkuðum sem við Íslendingar eigum fyrst og fremst og ég undirstrika það --- fyrst og fremst vegna EES-samninga og þeim aðgangi og þeim möguleikum sem skapaðir voru sérstaklega undir forustu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrv. utanrrh. Ef hlutir skipast á þann hátt sem ég nú hef verið að geta um horfa mál þannig að það er möguleiki að forsendur geti staðist.

Stækkun álvers í Straumsvík mun hafa jákvæð áhrif. Hvert það skref, sem stigið verður á skynsamlegan veg til eflingar iðnaði, mun leiða af sér stöðugleika. Erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi getur haft mest áhrif á afkomu heimilanna og þar með þjóðarinnar á betri veg hvort sem mönnum líkar það eða ekki.

Inn í þetta fléttast auðvitað umræðan um aðild að Evrópusambandinu. Það eru allt of miklar líkur, hæstv. fjmrh., fyrir því að við getum bætt stöðu okkar með aðild til þess að ríkisstjórnin geti leyft sér að taka það málefni út af borðinu eins og hún hugsar sér og hefur raunar gert. Hvernig má það eiginlega vera að menn kasta frá sér þeim markaðsmöguleikum sem eru fyrir íslenska síld á Evrópumarkaði sem aðildarland? Aðgangur að mörkuðum fyrir lax og bleikju er ekki nýttur. Aðgangi að markaði fyrir landbúnaðarafurðir er kastað á glæ. Þrátt fyrir það vita allir að Evrópumarkaðurinn er sá markaður sem hefur best efni á að taka við landbúnaðarafurðum á því verði sem við þurfum að fá fyrir okkar vörur.

Ég vil bara rétt minna á að nýlega var ákveðið að Íslendingar fá aðeins 4.150 tonn í síldarinnflutningsleyfi til Evrópulandanna í stað frjáls aðgangs. 13% tollur á lax gerir það að verkum að við eigum ekki nokkra möguleika í samkeppni við helstu vini okkar, Norðmenn, á þeim markaði og auðvitað fáum við ekki neina aðstoð frá þeim í þessum málum frekar en öðrum. En það er rétt að nefna það að sérstaða Norðmanna er slík að þeir vilja gera norskt enn norskara í einangrunarstefnu sinni á meðan aðrar þjóðir en Íslendingar stefna á sífellt meira og öflugra samstarf á sem flestum sviðum.

Við lifum að sjálfsögðu í landi sem hefur þá kosti og möguleika að hér ætti fólk að geta haft góða afkomu vegna gæðanna og möguleikanna til sölu á afurðum okkar og orku sem felast í náttúru landsins. En, herra forseti. Því miður verður ekki deilt um að verulegar þrengingar eru hjá mörgum. Ég lýsi auðvitað yfir ánægju með það að menn gefi yfirlýsingar um það að þeir ætli að taka á vanda heimilanna og svo er eftir að sjá hvort staðið verði við slíkar yfirlýsingar. Framsfl., annar armur helmingaskiptastjórnar Davíðs Oddssonar, hefur lofað 12 þúsund störfum til aldamóta. Hvernig standa þeir svo við fyrirheitin, hæstv. utanrrh.? Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir fjölgun starfa fram til aldamóta sem nemur helmingi þessarar tölu eða um 1.700 manns á ári. Fróðlegt væri að fá að vita hvernig menn ætla að skapa þau 6.000 störf sem upp á vantar. Ég ætla ekki að leggjast gegn hagræðingu og ráðstöfunum sem geta leitt til minni ríkisútgjalda meðan unnið er á þann hátt að það skerði ekki velferðarkerfið íslenska. Þá á ég við að þeir njóti velferðar sem þess þurfa, þeim sé hjálpað sem á þurfa að halda eða störfum sé hagrætt á þann hátt að ekki komi til lakari þjónustu en verið hefur á liðnum tímum. En menn geta ekki búist við því að það sé hægt að kasta fram tillögum og fá þær samþykktar bara si svona eins og virðist vera með ýmislegt í framlögðu frv. til fjárlaga. Ég nefni t.d. niðurlagningu sýslumannsembættanna í Bolungarvík og Ólafsfirði. Ef tillögurnar væru unnar í sátt og samlyndi við heimamenn og þingmenn kjördæmanna, og ég er þess fullviss að það hefur ekki verið gert, þá næðu menn árangri. Það atriði að leggja niður þessi embætti er að sjálfsögðu plat til að geta sett fram tölur. Hæstv. dómsmrh. veit að af þessu verður ekki. Því er þetta atriði blekking og svo er auðvitað um fleira í þessu frv. En flest í þessum dúr hefur lítil heildaráhrif og sett fram auðvitað bara til að viðkomandi þingmenn kjördæmanna geti hælt sér af því að hafa náð þessu út af borðinu. Ég sé að hæstv. fjmrh. kinkar kolli og það lít ég á sem samþykki. En vinnubrögð sem hæstv. dómsmrh. hefur tamið sér, sem er að skjóta fyrst og spyrja síðan, eru óþolandi hvort sem hann er í sjávarútvegsstakknum eða dómarakuflinum.

Ég verð einnig að benda á að ekki er sett fram í fjárlagafrv. skilgreind aðstoð við skipasmíðaiðnaðinn. Ég dreg stórlega í efa að unnt sé að komast hjá henni við þær aðstæður sem við erum með, þ.e. flota sem þarf á miklum breytingum að halda. Ég nefni bara loðnuskipin og þeim verður að breyta ef þeim er ætlað að veiða t.d. síld til manneldis og ég nefni ísfiskstogaraflotann sem er kominn að úreldingarmörkum. Ég tel að það eigi að standa við það sem gert var á síðasta ári í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi aðstoð við skipasmíðaiðnaðinn. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. fjmrh. sjái ekki til að svo verði.

Herra forseti. Ég tel að auðvitað verði að halda fast um stjórnartaumana. Minn flokkur, Alþfl., hefur ekki hvað síst gengið hart fram í að draga úr víxlhækkunum og sjálfvirkum hækkunum innan ríkiskerfisins. Við erum reiðubúnir til viðræðu um á hvern hátt á að standa að lækkun skulda, ná fram hallalausum fjárlögum og fjölgun starfa en til þess verða stjórnarherrar að leita eftir samstarfi. Við getum ekki sætt okkur við að ráðist sé á þá sem hingað til hafa notið skjóls af gerðum kjarasamningum. Ég á við þá sömu og hv. núv. formaður fjárln. ræddi um að skerða ekki bætur til, þ.e. aldraða og öryrkja. Þetta ræddi hv. núv. formaður fjárln. um við síðustu fjárlagaumræðu. Hann sagði að þetta mætti ekki eiga sér stað. Ég vil undirstrika það að þetta prinsipp hefur aldrei verið brotið fyrr og slíkt er fyrir neðan virðingu okkar allra hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Við verðum að lækka skuldir heimila, en því miður sjást þess hvergi merki. Þær eru að aukast verulega. Það verður auðvitað að lækka skuldir ríkisins en ætlunin er að gera það með samdrætti í fjárfestingum sem leiða til fækkunar starfa. Ég er ekki að mæla með óskynsamlegum fjárfestingum en skoði menn málin vel, geta fjárfestingar leitt til sparnaðar og ég vil bara nefna þar til byggingu barnaspítala sem mun leiða til hagræðingar og sparnaðar.

Herra forseti. Mér eru minnisstæð orð hæstv. núv. landbrh. frá umræðu við síðustu framlagningu fjárlagafrv. þegar hann sakaði menn, þáverandi stjórnarherra, um að stefna í aukið atvinnuleysi, það eru hans óbreyttu orð. Hver varð raunin? Það varð um verulega fjölgun starfa að ræða á milli áranna núna, 1994 og 1995. Því verður ekki á móti mælt að spádómar hv. þm. Framsfl. um kaldakol og skipbrot stóðust ekki fremur en svo margt annað sem þeir láta frá sér fara.

En hvað hefur þá breyst? Það sem gerst hefur er að grundvöllur til að vinna að stöðugleika er eingöngu mögulegur fyrir tilstilli Alþfl. og óþreytandi elju hans í síðustu ríkisstjórn og í ríkisstjórnum. Hann hefur unnið óþreytandi að viðreisn frá efnahagssjúkdómi sem nær alla tíð hefur fylgt ríkisstjórnum Framsfl. eins og veira. Nú eru þó ekki tákn á lofti um að flokkurinn sá hafi náð nokkrum bata í einangrun. Það hefði e.t.v. verið betra að tvöfalda dvöl hans utan stjórnar. Ég vil t.d. benda á að það hefur ekki gefist nógu vel að hafa riðufjárbúin fjárlaus í tilskilinn tíma. Menn í landbúnaðargeiranum telja að það þurfi að tvöfalda tímann. Eins held ég að sé með Framsfl. Verðbólgu vill hann, er ekki alveg fráhverfur henni enn, a.m.k. hluti þingliðsins. Sú bót sem unnt er að merkja er að þeir sjá nú orðið að það verður að takast á við þann vanda sem myndaðist í heilbrigðiskerfinu vegna sjálfvirkniáhrifa og þenslueiginleika sem fyrrv. heilbrrh. Sighvatur Björgvinsson barðist við. Þá var m.a. mikil andstaða frá hæstv. núv. heilbrrh.

Ég vil bara minna á það að þegar verst lét fóru þau starfsystkin úr Framsókn, hv. þm., algeru offari gegn hvers konar úrbótaaðgerðum og kölluðu alla til, aldraða, sjúka, fatlaða og vanmegna á hvern hátt sem það nú var, til vitnis um að nú væri verið að leggja heilbrigðiskerfið í rúst. En það er svolítið önnur orðaröð uppi núna. Forgangsröðun, hagræðing, niðurskurður, sársaukafullar aðgerðir, jöfnunargjöld, þetta eru orðin sem nú eru í tísku svo að nokkuð sé nefnt þegar fjallað er um heilbrigðiskerfið og áform framsóknarflokkanna beggja.

En hver er svo forgangsröðin? Hverja ætlar hæstv. ráðherra að skilja eftir? Ég spyr: Hvað felst í orðinu forgangsröðun? Þýðir það ekki að menn ætla að láta einhverja sitja á hakanum? Og því spyr ég enn: Hverjum ætlar hæstv. heilbrrh. að sitja eftir? Eru það aldraðir? Eru það þeir sem eru með hryggskekkju? Eru það þeir sem þurfa að gangast undir mjaðmaaðgerðir? Forgangsröðun, eins og ég sagði áðan, þýðir að það á að láta einhverja sitja á hakanum, en hverjir eiga það að vera? Við þurfum að fá svör við því.

Þessu þarf ekki að fylgja frekar eftir með lýsingum. Allir sjá að ef eitthvað er, þá er gengið harðar fram með niðurskurðarhnífinn og honum beitt gegn lítilmagnanum sem ekki á sér málsvara í núverandi ríkisstjórn.

Nýgerður búvörusamningur hefur verið mikið í umræðu og hann á eftir að koma til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga. Við alþýðuflokksmenn höfum margbent á að kerfið hefur verið að leggja sauðfjárbúskap af. Mér finnst að uppkaupaleið sé eitt af því sem er rétt að vinna að. Við alþýðuflokksmenn höfum hvatt til búsetustyrkja en ekki framleiðslutengdra styrkja. Við höfum verið einir á báti og taldir helstu óvinir bænda. Ég lýsi því enn þá einu sinni yfir úr þessum stóli að við erum óvinir kerfisins en ekki bænda. Það er nú komið í ljós að menn eru farnir að fallast á það að framhjáslátrun hafi verið miklu meiri en viðurkennt er og menn hafa ekki viljað taka tillit til gerbreytinga í neysluháttum Íslendinga.

Ég minnist þess að á undanförnum tveimur þingum hef ég nefnt það að heimaslátrunin væri á bilinu frá 600--800 tonn. Menn hafa hrist yfir því hausinn og sagt það vera vitleysu en hvað er komið á daginn nú? Nú eru menn farnir að tala um að heimaslátrun sauðfjár sé um 1.000 tonn. Þegar á að búa við stjórnkerfi eins og bændum er ætlað gengur þetta ekkert upp.

Ég held að nýgerður búvörusamningur verði tekinn upp eftir mjög skamman tíma, hæstv. fjmrh. Ef árangur á að nást verður að breyta um áherslur í landbúnaði. Við verðum að setja okkur ný markmið sem lúta kröfum tímans. Ég vil endilega ræða svolítið nánar um þennan búvörusamning sem gerður hefur verið við hæstv. fjmrh. og vona að hann nái því sem ég ætla að ræða um við hann.

Kvótakerfið í framleiðslu verður afnumið samkvæmt samningi og má því segja að framleiðslan verði frjáls. Þó er stefnt að því að fækka sauðfé í landinu um 30.000. Í því skyni á að kaupa upp greiðslumark fyrir 443 millj. kr. og endurúthluta því til þeirra eftirstarfandi bænda sem hafa frá 180--450 ærgilda greiðslumark og geti þeir fengið allt að 10% aukningu á beinum greiðslum. Beingreiðslurnar eru gerðar óháðar framleiðslumagni eða óháðari framleiðslumagni en áður þannig að þær eru greiddar að fullu meðan bóndi framleiðir a.m.k. 60% af ærgildistölu sinni. Þá er gert ráð fyrir að verðlagning sauðfjárafurða verði tekin undan opinberri verðlagningu í áföngum á árunum 1996--1998. Fyrsta skrefið er afnám staðgreiðslunnar og frjáls verðlagning í sláturkostnaði. Samkvæmt þeim gögnum, sem hafa birst, er heildarkostnaður skattgreiðenda --- ég óska eftir að menn hlusti --- á næstu fimm árum 11 milljarðar kr. Það er 1,5--2 milljörðum hærri upphæð en orðið hefði ef gamli samningurinn hefði verið framlengdur óbreyttur. Og hvernig mun hann virka? Samningurinn byggist á nokkrum andstæðum markmiðum sem munu virka hvert á móti öðru. Um leið og framleiðslan er gefin frjáls á að eyða verulega opinberu fé til að fækka sauðfé. Það á að koma í veg fyrir offramleiðslu með því að gera alla bændur samábyrga fyrir umframframleiðslunni og refsa þeim með útflutningi sem enginn veit hvert á að fara. Að vísu eru nokkrar hömlur á þessu hæstu tvö árin en síðan er ekkert sagt um framhaldið. Þetta ákvæði hlýtur að verka þannig að bændur munu auka við bústofn sinn sem nemur væntanlegri skerðingu vegna sameiginlegs útflutnings. Verði t.d. búist við því að skerða þurfi uppgjör bænda frá sláturleyfishöfum um 20% vegna offramleiðslu hljóta bændur að gera ráð fyrir því við ásetning næsta haust og reyna þannig að sleppa við skerðinguna. Því eru verulegar líkur á því að niðurstaðan verði öfug við sett markmið nema samningnum verði breytt að tveimur árum liðnum sem ég held að verði gert. Þess vegna setti ég það fram að ég tel að samningurinn mundi aðeins lifa skamman tíma ef hann þá kemst á.

Það eru engar framleiðnikröfur í samningnum. Það er ekkert í samningnum sem styður það markmið hans að stuðla að hagkvæmni og auka samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslunnar. Það er alger óvissa um árangurinn af fyrirhuguðum uppkaupum á greiðslumarki og fækkun fjár. Reynslan af því hefur verið ærið misjöfn undanfarin ár. Hafa reyndar verið færð rök að því að niðurstaðan kunni að vera gagnstæð settum markmiðum. Það má alveg eins búast við framleiðslusprengingu verði árangur uppkaupanna lítill. Það eina verkfæri sem getur þvingað framleiðendur til meiri hagkvæmni er samkeppni á frjálsum markaði.

Samningurinn gerir ráð fyrir breytingum í þá veru að þegar afurðastöðvarnar þurfa að semja við smásöluaðilana munu bændur átta sig á því að það hlýtur að vera mjög viðkvæmt gagnvart íslenskum neytendum að selja þeim kjötið á mun hærra verði en neytendum erlendis. Þetta er eitt af meginmálunum, hæstv. fjmrh. Þegar sagt er að verðlagning sauðfjárafurða verði gefin frjáls verður að hafa á því fyrirvara. Það þýðir til að byrja með að hið opinbera muni hætta beinum afskiptum af verðlagningu búvara. Þá munu samtök bænda að líkindum sjálf reyna að taka verðlagninguna í sínar hendur hvort sem sú miðstýring mun halda eða ekki. Verðstýringin fer þannig úr einni skúffu í aðra.

Í samkeppnislögum eru ákvæði sem segja að verðákvörðun á innlendum landbúnaðarvörum falli ekki undir ákvæði laganna. Neytendur munu því ekki horfa fram á alfrjálsa verðlagningu árið 1998 nema frekari lagabreyting komi til og ég spyr hæstv. fjmrh.: Stendur það til? Mér dettur ekki í hug að halda að fyrir þessu sé meiri hluti á Alþingi. Ég trúi því ekki.

Á sama tíma og almenningi er birtur boðskapur fjárlagafrv. að það eigi að aftengja allar verðtryggingabætur almannatrygginga eru fjárframlög samkvæmt þessum samningi að fullu verðtryggð þvert ofan í ákvæði kjarasamninga og þá almennu tilhneigingu í þjóðfélaginu að draga úr verðtryggingarákvæðum. Það er því lítil áhætta tekin í þessum málum.

Núverandi búvörusamningur tók við miklum birgðavanda á árinu 1991 sem er enn þá verið að leysa og það mun kosta 680 millj. kr. næsta ár. Birgðir sem hafa safnast fyrir, um það bil 2.200 tonn, munu kosta okkur 250 millj. kr. á næsta ári. Gamli samningurinn skildi eftir offramleiðsluvanda af þeirri stærðargráðu að það er nauðsynlegt að fækka um 30.000 fjár. Það þyrfti reyndar að fækka mun meira nema ef þeir sem eru að gera þennan samning reikni með að lambakjötsneyslan aukist á næsta ári. Það getur orðið aðeins með auknum útflutningi og þá þurfum við að breyta um markmið í stjórnun landbúnaðarkerfisins.

Samningurinn er skref sem leiðir bændur vonandi út úr blindgötunni. Hann leysir þó ekki vanda sauðfjárbænda nema að litlu leyti. Hann lengir í hengingarólinni og viðheldur því sem ég get hugsað mér að kalla steinaldarkerfi sem er bæði dýrt og eyðir byggðum bænda hægt og örugglega. Skattgreiðendum skilar hann engum sýnilegum ávinningi í bráð. Hvað verður eftir fimm ár er mjög óvíst. Skattgreiðendur fá enn að borga brúsann tvöfalt, annars vegar sem neytendur í formi hás vöruverðs og hins vegar í formi hárra skatta. Þetta kemur hvorki neytendum né þeim sem starfa við landbúnað til góða.

Nýgerður búvörusamningur hefur verið mikið til umræðu eins og ég kom að áðan og ég hélt mig hafa fjallað um málefni þessa búvörusamnings nokkuð ítarlega þannig að hæstv. fjmrh. á að vera ljóst hvað ég er að fara í þessu máli. Ég tel að samningurinn sem var gerður án aðildar aðila vinnumarkaðarins standist ekki, hann sé ekki neinum til góða. Hins vegar viðurkenni ég að það varð að taka á þessum málum.

Því miður er það svo að kvótakerfið, sem við Íslendingar búum við undir forustu frjálshyggjunnar sem birtist okkur sem úlfur í sauðargæru í líki Sjálfstfl., er kannski það óhugnanlegasta sem er staðfest í fjárlagafrv. sem við höfum undir höndum. Miðstýringarkerfi sem gæti gengið sem hemill ef af nógu er að taka og markaðir væru víðtækir. En þegar svo er sem raun ber vitni að það er of lítill afli sem má taka úr sjónum og of margir sem vilja fá hann og of mikill floti til að ná honum gengur slíkt stjórnkerfi ekki upp. Því er þveröfugt farð með landbúnaðinn. Þar eru allt of margir að framleiða allt of mikið fyrir tilverknað miðstýringar á markað sem engan veginn getur tekið við því sem framleitt er. Allt þetta er gert undir stjórn ímyndar frjálshyggjunnar, Sjálfstfl., sem heldur reyndar í sovésku miðstýringuna sem aldrei fyrr. Þess vegna segi ég: úlfur í sauðargæru.

Virðulegur forseti. Ég hef m.a. farið nokkrum orðum um forsendur fjárlagafrv., trúverðugleika frv. og varað við boðum og grynningum sem eru ekki nægilega merkt á sjókortinu. Ég hef tekið undir það markmið að draga úr fjárlagahalla og ég hef reyndar bent á hvar samdrátturinn kemur harðast niður. Alþingi Íslendinga, stjórnaraðilar og stjórnarandstaða, reyna að vinna sitt verk af samviskusemi en auðvitað er eðlilegt að okkur greini á um leiðir. Við finnum sárast til með þeim sem lakast eru settir. Þá er ég farinn að ræða um launamálin. Við þurfum að draga allt fram á borðið, leggja spilin á borðið fyrir alþjóð og ef allt kemur þar upp, ekkert gerist á þann veg að þegar ég ræði um laun félaga míns og geri samanburð þá ræði ég um lægstu laun mín og hæstu laun hans. Ef allt er dregið fram á borðið er unnt að ná jöfnuði. Ég held að ójöfnuður í þjóðfélagi okkar sé miklu meiri en áferðarfallegar meðaltalsskýrslur sýna.

Á hvaða vettvangi sem er á að vinna að leiðréttingu og jöfnun kjara þessarar fámennu þjóðar sem með skipulögðu átaki getur auðveldlega komist hærra í röð hinna best settu í heiminum.

Virðulegur forseti. Ég sé að tíma mínum er brátt lokið. Við 2. umr. eins og ég gat um í upphafi óska ég þess að ráðherrar og formaður fjárln. og varaformaður verði viðstaddir svo að hægt sé að leggja fram þær spurningar sem eru vaknaðar og munu vakna við umfjöllun þessa plaggs sem ég er búinn að benda á að er með innbyggðum veikleikum sem þarf að taka á.