Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 13:08:37 (81)

1995-10-06 13:08:37# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það mætti halda að það væri alveg nóg að Alþfl. væri í ríkisstjórn einu sinni á öld, þá gæti þjóðin lifað á því í 100 ár. (ÖS: Framsfl.) Það er nú ekki þannig. Ég sagði ekkert um það. Ég var ekkert að ásaka síðustu ríkisstjórn í þessu sambandi. Ég var bara að benda á þá staðreynd að það var nánast engin erlend fjárfesting á síðasta kjörtímabili. Ég var ekkert að gera lítið úr því að það hefði ekkert verið reynt í því sambandi. Það var ýmislegt gert. Þannig að hv. þm. má ekki vera svona óskaplega hörundssár og viðkvæmur.

En að því er varðar að fjárlagafrv. fækki störfum, þá undrast ég þann málflutning. Ég undrast þann málflutning verkalýðshreyfingarinnar þegar sú spá liggur á borðinu sem sýnir ljóslega að samkvæmt undirstöðuatriðum hagfræðinnar er eina leiðin til að fjölga störfum að minnka ríkisútgjöldin þannig að vextirnir lækki, þannig að atvinnulífið fari út í fjárfestingar.

Ef menn vilja hins vegar lifa hér eingöngu á opinberri fjárfestingu og opinberum rekstri með því að safna skuldum og skapa störf þannig, þá er það rétt til skamms tíma. En sú skuldablaðra mun springa og það getur enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur staðið að því. Ég skil því ekki ummæli verkalýðshreyfingarinnar í þessu sambandi og trúi ekki öðru en að þeir eigi eftir að fara betur ofan í þessi atriði og komast að annarri niðurstöðu. Því þessar fullyrðingar standast ekki og ég vonast til að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fari nú ekki að taka þessa vitleysu upp.