Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 14:45:48 (86)

1995-10-06 14:45:48# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í fjárlagafrv. birtist stefna stjórnarinnar mun betur útfærð en í svokallaðri stefnuræðu sem við heyrðum hér fyrir nokkrum dögum. Það er þrennt sem vekur athygli í þessu frv. Það er engin ný hugsun í því, það eru engar kerfisbreytingar. Það er afnumið fyrirkomulag bóta eins og var hér áður, þ.e. bóta sem voru tengdar vísitölu og samningum á vinnumarkaði. Þetta er kjararýrnun til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Þetta sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og það má benda á að um leið og þessi venja er afnumin, þá er verðtryggður búvörusamningur til aldamóta. Þetta lýsir betur en margt annað hvaða augum ríkisstjórnin lítur á forgangsmál.

Þetta frv. er samdráttarfrv. Það slær á möguleika aukins hagvaxtar og það eru ekki nýtt tækifæri sem eru vissulega til í okkar efnahagsumhverfi. Það er svo með fjárlagafrv. að það er aldrei betra en þær forsendur sem það byggir á. Þetta frv., eins og reyndar fyrri frumvörp, byggir fyrst og fremst á launastefnunni frá 1990 sem hefur verið kölluð þjóðarsátt. Þessi launastefna var mótuð sameiginlega af launafólki. Stjórnmálamenn komu minnst að mótun þessarar stefnu. Hún var sameiginlegt átak nokkurra aðila innan verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda. Þessi stefna fól í sér að hætt var að mæta kostnaðarhækkunum í sjávarútvegi með sífelldum gengislækkunum. Það var samið um sáralitlar kauphækkanir og ríkisvaldið tók virkan þátt í samningsgerðinni. Þetta dæmi gekk upp, verðbólgan hvarf og langþráður stöðugleiki hélt innreið sína. Þetta var endurtekið við samningaborðið nokkrum sinnum en auðvitað vissu allir að hér var verið að frysta vandamál. Það var fryst staðan fyrir 1990, það var fryst mismunun í launum, visst óréttlæti en menn sættu sig við þetta verð sem menn voru reiðubúnir til að greiða fyrir stöðugleikann.

Á þessu tímabili hefur einnig verið samið um skattalækkanir til fyrirtækja til að styrkja þau í samkeppni. Launafólk tók hærri skatta á sínar herðar og nú síðast greiddi ríkið fjóra milljarða fyrir vinnuveitendur í almennum kjarasamningum. Og síðustu kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru þannig greiddir niður um einn þriðja. Það er þessi launastefna sem átti rétt á sér 1990 sem gengur ekki lengur. Það er eðlilegt að spurt sé: Hver er launastefna ríkisstjórnarinnar um þessar mundir þegar við blasir 20% launahækkun ráðherra? Það blasa við nýir ráðherrabílar. Það blasa við sérstök skattalög fyrir alþingismenn. Það er engin furða þó að almenningur spyrji sig: Hver eru skilaboðin? Það verður að vinna aftur trúnað fólks í landinu en það þarf líka að huga að því af hverju hagur launafólks hefur ekki batnað eins og að var stefnt þegar lagt var upp með þessa stefnu. Ein af ástæðunum og líklega aðalástæðan fyrir því er sú að íslensk fyrirtæki eru með einna lægstu framleiðni í Evrópu þrátt fyrir að greiða einna lægstu skatta fyrirtækja í álfunni. Þetta er ástæðan fyrir lágum taxtalaunum og því að Íslendingurinn verður að vinna langan vinnudag til að hafa í sig og á og í samdrætti í eftirvinnu er þetta ekki auðvelt.

Þjóðarframleiðslan á hverja vinnustund er hérlendis einna lægst í Evrópu og það eru einungis Portúgalar, Grikkir og Tyrkir sem eru fyrir neðan okkur. Fyrir ofan eru 14 þjóðir í Evrópu auk Bandaríkjanna og Kanada. Við erum mjög neðarlega í margvíslegum, alþjóðlegum samanburði og það dugar ekki sem framtíðarstefna.

Láglaunastefnan skal hins vegar að mati ríkisstjórnarinnar varin með öllum tiltækum ráðum. Að vísu ekki gagnvart ráðherrum, en þessi ríkisstjórn ver ekki hagsmuni launafólks né þeirra sem þurfa á öryggi í umhverfi sínu að halda hvort sem er í velferðarkerfi eða á sviði menntamála.

Atvinnuleysi hefur aukist þrátt fyrir gagnstæðar spár stjórnvalda. Það bólar ekkert á nýjum störfum sem lofað var fyrir kosningar og það kemur fram í frv. að störfum fjölgi um 1.700 á næsta ári, en sú þróun er nokkuð í takt við fjölgun landsmanna. 12 þús. störf Framsfl. hafa verið gerð hér að umtalsefni og mér fannst grátlegt að hlusta á hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson segja: Ja, þetta er það sem stefnt var að. Það er stefnt að vissulega mörgu í þessu þjóðfélagi, en þannig var það ekki orðað í kosningabaráttunni, hæstv. utanrrh., þegar frambjóðendur Framsfl. riðu um héruð og lofuðu þúsundum starfa.

Efnahagsstefna stjórnvalda eins og hún blasir við bæði í stefnuræðu forsrh. og í fjárlagafrv. stjórnar hans, þessi efnahagsstefna skapar ekki störf. En það sem verra er, hún myndar ekki umgjörð um fjölgun starfa. Þetta er stefna stöðnunar og óbreytts ástands. Fjárfestingar dragast saman, skuldir heimilanna hafa stóraukist og nema nú yfir 300 millj. Það er ekki reiknað með að ná neinum umtalsverðum fjármunum úr skattsvikamyllunni þar sem tapast 15 milljarðar á ári. Það neðanjarðarhagkerfi sem þar blómstrar er óréttlátt og mannskemmandi.

Skattsvik eitra þjóðfélagið og það verður að taka á þeim í alvöru og það verða að sjást markvissar tillögur um þetta. Skattar millitekjufólks verða að lækka, en það eru hvergi útfærðar neinar tillögur um það í þessu fjárlagafrv. Það eru ýmsir, m.a. Þorvaldur Gylfason prófessor, sem telja að undirrót þess að ekki ríkir sú velsæld sem hér geti verið sé einkum að rekja til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi stöðnun í sjávarútvegi, í öðru lagi stöðnun í landbúnaði og nú er það svo að Þjóðvaki sem stjórnmálaafl hefur lagt fram mótaðar hugmyndir um uppstokkun í báðum þessum málaflokkum, m.a. hvað varðar veiðileyfagjald, atriði í nýjum búvörusamningi og virkari aðlögun að GATT. Ekkert af uppstokkun í þessum málaflokkum er að finna í fjárlagafrv.

Þriðja atriðið sem hefur verið nefnt er skipulag á vinnumarkaði. Þar höfum við lagt fram tillögur, hugmyndir, róttækar hugmyndir. Ekki er að sjá neitt í fjárlagafrv. um það efni.

Í fjórða lagi telja margir að það þurfi að draga úr áhrifum stjórnmálamanna í bankakerfi. Þar höfum við líka lagt fram tillögur, en það er svo sem ekki við því að búast að þessi ríkisstjórn komi með neinar breytingar á þeim vettvangi. Það er eitt sem gleymist í umræðunni um þetta fjárlagafrv., og reyndar oft áður, að umfang opinberra aðila hérlendis er mun minna en í öðrum löndum. Það sýnir samanburður. Það er vikið að þessu í fjárlagafrv. og það er til margvíslegur annar samanburður um þetta innan OECD. Skattbyrði sem hlutfall af landsframleiðslu er hér mun lægra en í Evrópuríkjum og 40% lægra en á Norðurlöndum svo tekinn sé samanburður.

Það er þannig að okkar velferðarkerfi er einfaldlega miklu minna umleikis en í nágrannalöndunum og það hefur minna umleikis heldur en flestir telja. Fyrirtæki hérlendis greiða mun lægri skatta en fyrirtæki í Evrópu sem hlutfall af landsframleiðslu. Skattþunginn í þessu þjóðfélagi liggur hjá einstaklingunum. 80% af tekjusköttum er frá einstaklingum, langmest af virðisaukaskatti sem er stærsti tekjustofn ríkisins. Það er búið að skattleggja einstaklinga allt of mikið hérlendis. Það er komið að fyrirtækjunum að leggja meira til samneyslunnar í ljósi bættrar stöðu. Þetta hins vegar, hæstv. fjmrh., er ríkisstjórn fyrirtækjanna sem vill ekki eðlilega skattlagningu þeirra svo sé sambærilegt öðrum löndum. Hér er enginn og síst af öllu sá sem hér stendur að tala um það að skattleggja umfram getu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fyrirtæki þurfa að hafa gott svigrúm til athafnasemi og að það er hið versta verk að skattleggja þau um of. En hér er einungis verið að tala um að skattleggja svipað og aðrir. Það dettur þessari ríkisstjórn ekki í hug. Hún veit vel hvaða hagsmuni hún er að verja.

Ástæðan fyrir þessu er það sem ég nefndi áðan með lága framleiðni miðað við önnur ríki. Það verður að auka verðmætasköpunina. Þannig er hægt að hækka laun og gera vinnutíma skaplegan. Það er engin önnur aðferð til í þessu sambandi. Það eru margar ástæður fyrir lágri framleiðni. Ein af þeim getur verið of lítil áhersla á markaðsmál, slök stjórnun, lítil sjálfvirkni í framleiðslu og rannsóknir og þróunarvinna eða að þróunarframlög séu minni heldur en vera skyldi. Menntamál atvinnulífs eru e.t.v. ekki í nógu góðu lagi. Það eru nokkrir af þessum þáttum sem skýra þessa veiku stöðu sem dregur mátt úr lífskjörum hér á landi. Það er ekkert í þessu fjárlagafrv. sem tekur á þessum vanda til að skapa hér verðmæti til framtíðarinnar, ekki nokkur skapaður hlutur. Auðvitað eru þessar skýringar ekki altækar á þessari stöðu fyrirtækja. Það er kannski sagan, þ.e. verðbólgudans framsóknaráratuganna tveggja sem líklega er meginorsök fyrir þessum slappleika í atvinnulífinu sem menn hafa verið að laga núna undanfarin fimm ár. Það verður líka að bæta þessa þætti því annars verður láglaunastefnan hér varanleg. Ef við bætum það ekki, þá getur íslenskt atvinnulíf einungis slegið skjaldborg utan um sig í formi lágra launa. Þannig væri einugis hægt að standa að samkeppni á alþjóðavettvangi og það er þessi framtíðarsýn sem við viljum ekki sjá og þurfum ekki að sjá.

Vitaskuld verða fyrirtækin að vera sterk en þau verða líka að búa við sömu skilyrði og annars staðar hvað varðar þátttöku í samneyslunni. Það þarf að stækka kökuna og það þarf að skipta henni öðruvísi. Við stækkum hana ekki með því að gera Ísland að láglaunasvæði. Eina afleiðingin sem við höfum af fyrri stefnu er landflótti sem blasir fyrst þannig við okkur. Fyrst fara iðnaðarmennirnir, síðan fara menntamennirnir og þetta dregur þrótt úr þjóðlífinu.

Stefna stjórnvalda kemur ekki hvað síst fram í fjárlögunum. Halli þessa árs eru níu milljarðar og nú er gert ráð fyrir að það verði fjögurra milljarða halli á næsta ári. Áætlanir þessa árs röskuðust um marga milljarða og vera má að hið sama gerist nú. Og ef forsendur í launastefnu bresta á einhvern hátt, þá hrynur þetta frv. eins og spilaborg. En frv. endurspeglar vonda efnahagsstefnu, stöðnun, ekki sókn. Hún er vörn fyrir ríkjandi ástand. Stjórnmál eru spurning um forgangsröðun og það er kostur við fjárlagafrv. að þar er hægt að lesa forgangsröðunina. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar lýsir sér í því að árlega er veitt um 6.000 millj. í styrki til landbúnaðar sem er jafnmikið og fer til reksturs allra grunnskóla á landinu. Þetta lýsir ákveðnu samhengi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Það sem er hins vegar alvarlegast í fjárlagafrv. er niðurskurður í heilbrigðismálum og fjárfestingu. Áhyggjur verkalýðsleiðtoga eru þær að þeir telja að 1.000 störf glatist. Við sjáum engin merki um fjármagnstekjuskatt í þessu frv. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum tekjum af þeim. Þar er talað um uppstokkun í lífeyriskerfinu og það er ástæða að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað verður um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna? Hver eru réttindi þar? Hvað er með þá forréttindasjóði sem eru við lýði í opinberu lífeyrissjóðskerfi? Ætlar hann sér að taka á því máli og þá með hvaða hætti? Það er engin uppstokkun á stofnunum ríkisvaldsins. Það eru engar sameiningar. Það eru engar stofnanir sem eru slegnar af. Það eru engar stofnanir nýjar sem koma til. Þetta er frv. um óbreytt ástand. Hvað er rætt um starfsmannastefnu, hvernig hún eigi að verða, hvernig á að endurskoða hana? Það væri fróðlegt að fá lýsingar hæstv. fjmrh. á því, en ef markmiðið er að brjóta á einhvern hátt upp hina miðstýrðu launastefnu ríkisins, þá held ég að menn væru að leggja inn á rétta braut. Það er kominn tími til að brjóta upp þetta fyrirkomulag kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði. Það er kominn tími til þess því að hvert kerfi á sér líka sín endalok þótt það hafi reynst vel á öðrum tíma.

Það er ýmislegt þó, það er að vísu ekki margt, sem er ánægjulegt í þessu frv. Hér er lagt upp með langtímahugsun í fjármálum ríkisins til fjögurra ára, dregnar upp útlínur og það eru vinnubrögð sem eru af hinu góða. Ég ætla ekki að leggja mat á þær áherslur sem hæstv. fjmrh. gerir en vinnubrögðin við áætlunargerð eru rétt. Það má svo sem benda á að Þjóðvaki talaði um fyrir kosningar að gera fjárlög til fjögurra ára í senn. Ég veit að fjmrh. setti þetta ekki í fjárlagafrv. til að þóknast okkur. Það hefur sjálfsagt verið unnið að þessu lengur, enda er hér einfaldlega um skynsamlega stefnu að ræða.

Það sem gert er í fjárlagafrv., að afnema verðuppbætur í skatta og bótakerfi, er alvarlegast gagnvart eldra fólki og það er ekkert á móti því, hæstv. fjmrh., að það sé afnumin sjálfvirkni í útgjöldum ríkisins. En hér er afnumin alls staðar öll tenging við kjarasamninga við verðbætur þær sem menn hafa búið við undanfarin ár og ekkert kemur í staðinn. Þetta er aðferð til niðurskurðar upp á þrjá milljarða, sem bitnar fyrst og fremst á þeim sem minna mega sín og það er ámælisvert í þessu fjárlagafrv. Óbreytt fyrirkomulag persónuafsláttar er svik við verkalýðshreyfinguna. Það er alveg augljóst mál. Það var samið um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda í vor. Þar fylgdi tekjutap upp á 1.000 millj. Ríkisstjórnin setur á tryggingagjald, 0,5%, sem skilar milljarði og lækkar síðan í reynd persónuafslátt sem þýðir 1.000 millj. á næsta ári. Sem sagt, lét krónu og náði tveimur í staðinn. Hagfræðingur Alþýðusambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, hefur bent á þetta. Þetta er ekki góð aðferðafræði. Þarna er ekki komið vel að þeim aðilum sem menn hafa gert samninga við.

Það er áhyggjuefni að hagvöxtur hér er minni en á Norðurlöndunum, gert ráð fyrir 3,2% hér, 3,7% á Norðurlöndum, á næsta ári 2% hér, 3% á Norðurlöndum. 1% í landsframleiðslu eru tæpir fimm milljarðar. Það skiptir verulegu máli. Þetta er áhyggjuefni að við skulum vera undir nágrannaþjóðunum á þessu sviði. 20% samdráttur í fjárfestingu ríkisins er hins vegar hlutur sem að mínu mati er efnahagslega ekki réttur. Það hefði átt að nýta þá vissu uppsveiflu sem er núna að gefa aðeins, ekki kannski endilega á sviði fjárfestinga. Það hefði mátt hugsa sér það með skattaívilnunum gagnvart rannsóknum og þróunarvinnu, kannski gagnvart fjárfestingum í atvinnulífinu, gefa aðeins inn bensín til hjálpar þessari uppsveiflu sem er í gangi núna í stað þess að stíga á allar bremsur eins og þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Við þurfum að ná upp fjárfestingu hér á Íslandi, við höfum langan hala að vinna upp og við hefðum getað beitt skattkerfinu á einhvern máta og reyndar ríkinu líka og sjóðum ríkisins til að nýta þessa uppsveiflu mögulega.

Eitt kemur líka fram í fjárlagafrumvarpinu sem er auðvitað áhyggjuefni og það er að atvinnuleysið eykst, það er ekki að minnka. Það sem er verra er að langtímaatvinnuleysi er að aukast. Sífellt fleiri eru atvinnulausir lengur en eitt ár. Að vísu vantar mikið upp á að við séum farnir að nálgast Evrópuþjóðirnar og Norðurlöndin í þessu efni en vítin eru til að varast þau. Hér þarf að hugsa öðruvísi, við þurfum að ná betri tökum á endurmenntun og það að láta þá sem eru atvinnulausir vera með þátttöku að nýsköpun í atvinnulífinu og halda tengslum við vinnumarkaðinn. Ég minni á hugmynd Jóns Erlendssonar, forstöðumanns Upplýsingaþjónustu Háskóla Íslands sem hefur barist mjög fyrir þessum hugsanahætti í baráttu við atvinnuleysið.

Einnig má benda á að í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru vextir hærri hér en erlendis. Ég er síðasti maður til að tala um að beita einhverju kjánalegu handafli við vexti. Vextir ráðast ekki af slíkri óskhyggju, þeir ráðast af efnahagsstefnu. Ein af ástæðum þess að við erum með hærri vexti hér er óhagkvæmt bankakerfi, pólitískt stýrt bankakerfi en ekki er von á neinni uppstokkun hjá þessum ríkisstjórnarflokkum í því efni og reyndar ekki hjá gamla flokkakerfinu í heild. Staða sveitarfélaga er líka áhyggjuefni sem lítið og ekki nægjanlega er komið inn á í frumvarpinu. Skuldastaða og rekstrarstaða sveitarfélaganna er mjög slæm en hefur að vísu aðeins lagast í ár eins og kemur fram í frv. en ég er smeykur um að þarna séum við með þætti sem við eigum eftir að blæða fyrir verulega síðar. Í fjárlagafrv. er skerðing til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það á að breyta lögum til þess og væri ánægjulegt að fá rökstuðning hæstv. ráðherra Framsfl., Ingibjargar Pálmadóttur og Páls Péturssonar --- ég sé að það er enginn framsóknarmaður hér í salnum (Gripið fram í: Ojú.) --- fyrirgefið, fullt af framsóknarmönnum í salnum og Friðrik réttir upp höndina, ég geri ráð fyrir að hann taki að sér vörn fyrir Framsfl. um þessar mundir. (Fjmrh.: Og fer létt með það.)

Ég hef áhyggjur af því hvort það gangi upp að virðisaukaskattur hækki um 2 milljarða á næsta ári. Það er óvíst. Við vitum um mikil undanskot í þessu, forsendur eru mjög viðkvæmar og ekki má mikið út af bregða. Hér er oft rætt um jaðarskatta og fjmrh. hefur gert þá sérstaklega að umtalsefni, þ.e. skatti af viðbótartekjukrónunni. Þeir eru mjög háir hér en við verðum að gæta okkar á því í þessari umræðu að þegar barnabætur minnka með vaxandi tekjum, þegar félagslega öryggisnetið gliðnar smátt og smátt með vaxandi tekjum, er ósköp eðlilegt að bætur minnki. Óeðlilegt er að tala um skattlagningu í þessu sambandi. Þetta er vitaskuld minnkun á ráðstöfunartekjum en þetta er ekki skattlagning. Það á ekki að blanda þessum hugtökum saman við háa jaðarskatta. Við skulum sameinast um að reyna að finna betra tekjuskattsfyrirkomulag hér sem flestir flokkar vilja en menn verða þá að fara rétt með hugtök.

Það er ámælisvert í frumvarpinu að engir skattar séu á fjármagnstekjur. Eignarskattar skila einungis 3% af tekjum ríkisins sem er einsdæmi. Í öllum löndum í Evrópu eru tekjur af fjármagni vitaskuld skattstofn eins og tekjur af launum. Það er nefnd að störfum eina ferðina enn í þessum efnum en maður sér alvöruleysið í því, ekki er gert ráð fyrir neinum fjármagnstekjum í frumvarpinu á næsta ári. Greiðslur vegna almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga lækka á næsta ári, m.a. vegna afnáma tenginga við vísitölu og samninga. Það er margt sem lækkar líka sem þarf skýringar á. Framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna lækka einnig og væri fróðlegt að fá skýringar hæstv. menntmrh. á því fyrirkomulagi.

Gerum menntamálin aðeins að umtalsefni. Þrátt fyrir hækkun þeirra um 2 milljarða er það að langmestu leyti vegna launabreytinga. Það eru miklir veikleikar í menntamálunum í frumvarpinu, háskólamenntun er í reynd skorin niður. Væri lengi hægt að ræða hvað við Íslendingar búum illa að háskólamenntun hérlendis. Fráfarandi menntmrh., Ólafur G. Einarsson, þótti ekki góður ráðherra menntamála, ég held að flestir hafi verið sammála um það. Ég vonast til þess að hæstv. núv. menntmrh. beri meiri gæfu í embætti sínu en fyrirrennari hans gerði en það sem hann leggur með upp í fjárlögunum núna bendir reyndar ekki til þess. Það er lækkun á framlagi í Kennaraháskóla og lækkun til framhaldsskóla. Það er aðeins hækkun til grunnskóla. Ég fagna hækkun á framlagi til Landsbókasafns enda þótt það sé einungis nálægt því sem stjórn lagði til, en ég ég held að bókakaup séu alltaf af hinu góða. Það lýsir líka forgangsröð ríkisstjórnarinnar að framlög til þróunarmála lækka. Við Íslendingar erum ekki framarlega í aðstoð við þá sem minna mega sín erlendis. Og e.t.v. markast lífsskoðun manna og skil á milli lífsskoðunar manna að verulegu leyti til afstöðu gagnvart slíkum málaflokki. Hvað eigum við að leggja mikið á okkur til að hjálpa þeim sem verr eru staddir annars staðar í heiminum? Nógum tíma eyðum við í að kvarta og kannski er þessi umræða dæmi um það ef fólki í heiminum víða líður miklu verr og það hefur orðið samkomulag í samfélagi þjóðanna að leggja því fólki lið. Við höfum ekki gert það eins og okkur ber og enn erum við að skera niður af því sem við ættum að gera. Þetta er alvarlegt. Þetta er vond stefna. Þetta er ekki bara stefna ríkisstjórnar, það er vond stefna fyrir Íslendinga að hugsa á þessum nótum. Ég fagna því hins vegar að gert er ráð fyrir því í frv. að leggja til fjármagn til að reyna að ná sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna hingað, það er gott mál, en því miður er engin sókn í menntamálum eins og lofað var fyrir kosningar. Frv. til eins árs skiptir kannski ekki öllu máli en það er hugsað til lengri tíma og þar ekki að sjá stórsókn í menntamálum sem á að skapa lífskjör framtíðarinnar. Það eru veruleg vonbrigði.

Í frv. eru 2,5 milljarðar lagðir í nýjan búvörusamning. Hæstv. fjmrh. hækkaði hann rétt áðan um 200 millj. Hann gerði búvörusamninginn aðeins að umtalsefni en því miður er ekki tími til að fara nánar út í það. Þar hefur hæstv. fjmrh. vondan málstað að verja. Ekki er nóg með að öllum GATT-samningnum hefur verið klúðrað frá upphafi til enda og ekki svo sem staðið við neitt og kom þar fram það sem við sögðum fyrir kosningar. Verra er það sem verið er að leggja upp með núna í búvörusamning því verið er að eyða 14 milljörðum af skattpeningum í sex ár í sauðfjárrækt eingöngu. Ef þetta væri nú varanleg lausn þá væri þetta kannski ekki svo óskynsamlegt. Mér blöskra ekki tölurnar. Þær geta verið háar eða lágar. Það þarf að leysa þetta mannsæmandi, við erum ekki að því með þessum samningi. Fækkun búfjár er of lítil, útflutningur óviss og óhagkvæmur, það er hjakkað í ónýtu og dýru kerfi. Þetta mun ekki bæta kjör bænda þegar litið er til lengri tíma. Það er ekki tekið á birgðavandamálunum í haust, það er ekki tekið á heimaslátrun, verðlagning gefin allt of seint frjáls og það er verðjöfnun milli útflutningsmarkaðar sem er fráleit aðferðafræði. Að loknum samningstímanum eftir fimm ár stöndum við í nákvæmlega sömu sporum. Við þurfum að gera upp við okkur hvort við ætlum á hverju ári næstu áratugina að eyða u.þ.b. 2--2,5 milljörðum á ári í þessa atvinnugrein. Það er röng stefna og við erum ekki að gera þeim greiða sem í atvinnugreininni eru.

Ekkert er tekið á milliliðavandamálum, sláturkostnaði og öðru slíku. Ekki er tími til að fara út í þessa umræðu en ég vil geta um einn þátt sem mér finnst vera sorglegur. Í vor stóð ég ásamt fleirum að því að aðstoða landbrh. við að taka vel á málaleitan hans að fresta ákvörðun um greiðslumark þannig að honum gæfist ráðrúm til að vinna að tillögugerð. Þá gaf hann þau loforð að samráð mundi vera við þingmenn um slíka tillögugerð. Það var talað við alla í þjóðfélaginu aðra en þingmenn varðandi hinn nýja búvörusamning. Hæstv. landbrh., sem því miður hefur fjarvistarleyfi, sveik þetta fyrsta loforð. Það þykir mér miður vegna þess að ég átti von á öðru frá þeim manni. En ríkisstjórnin getur undirbúið sig undir harða landbúnaðarumræðu á haustdögum og að hluta til vegna þeirra vinnubragða sem hún viðhefur en þó mest vegna þess efnis sem hún leggur fram.

Ekki er nokkur uppstokkun í sjávarútvegsmálum, ekki er einu sinni talað um að reyna að stokka nokkuð upp varðandi starfsemi Fiskistofu sem hefur verið full nauðsyn á, ekki orð eða lína um það í þessu ráðuneyti, stöðnunin er alger.

Í félmrn. eru lækkuð framlög til Byggingarsjóðs verkamanna um rúmar 200 millj. Framlög til barna og ungmenna eru lækkuð. Þarna sést forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er veruleg lækkun til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og væri ánægjulegt að fá rökstuðning hæstv. fjmrh., að ég tali nú ekki um hæstv. félmrh. sem er væntanlega einhvers staðar á næstu grösum. Hvers vegna er niðurskurður lagður til í framlögum til vinnumála þegar maður horfir upp á vaxandi atvinnuleysi og ég tala nú ekki um ef maður hugsar um þær áherslur sem voru lagðar upp í kosningbaráttunni? Félagsmál og velferðarmál eru ekki forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Það kom e.t.v. ekki á óvart að Sjálfstfl. mundi ekki leggja mjög mikla áherslu á þennan málaflokk en það kemur á óvart miðað við málatilbúnað Framsfl. Það er eitt sem þetta fjárlagafrumvarp gerir, það dregur skýrar víglínur í íslenskum stjórnmálum. Sú atlaga sem gerð er að velferðar- og heilbrigðiskerfinu segir okkur að Framsfl. getur aldrei aftur mætt fyrir kjósendur og sagst vera félagshyggjuflokkur. Fjárlagafrumvarpið er grafskrift Framsfl. sem félagshyggjuflokks.

Talað er um 100 millj. kr. aukasértekjur í heilbr.- og trmrn. Hvað er hér á ferðinni? Þetta þarf hæstv. heilbrrh. að skýra og mig furðar að við 1. umr. fjárlaga skuli þeir ráðherrar, sem þurfa að búast við því að standa fyrir svörum, ekki vera viðstaddir til að taka á málinu. En í heilbrigðisráðuneytinu fann maður loksins fjármagnstekjuskattinn. Þar kom hann. Það á að skerða tekjutengdar lífeyrisbætur. Þar kom hann fram. Og það á að koma frá gamla fólkinu. Það var greinilega ekki tæknilega örðugt að koma við þar. Þetta á að skila 285 millj. og þarna kemur enn og aftur forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Afnám tengingu bóta við launabreytingar. Hvað verður? Þetta er kjaraskerðing. Hvað gerist ef verðbólgan fer eitthvað af stað? Hvað á þetta fólk að gera, hvernig á það að sækja rétt sinn, hvernig á það að sækja það sem það hefur gengið út frá? Er það fólk sem þiggur bætur úr almenna kerfinu harðasti þrýstihópurinn í þjóðfélaginu? Nei, en þetta á að skila 450 millj. Þessi skerðing bóta almannatrygginga nemur 2 milljörðum, samtals 880 sjúkratryggingum og 1.100 millj. í lífeyristryggingar. Það er margt sem gerist í heilbrigðisráðuneytinu, það á að spara í reglum um heimildarbætur, lækka barnabætur og biðlistar í heilbrigðisþjónustunni eru langir og má benda á það að nú eru á annað hundrað manns í brýnni neyðarþörf á svokölluðum neyðarlista.

Ríkisstjórnin virðist ekki skilja að það er víðar í heilbrigðiskerfinu sem ríkir lífshættulegt neyðarástand, hún virðist ekkert átta sig á því. En þá er haldið áfram á sviði sértekna, sjúklingaskatta og að taka upp innritunargjöld, það á að borga fyrir aðgerðir, það á að greiða fyrir biðlistaaðgerðir. Mig langar að vitna í þáv. hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur, sem sagði 13. des. 1994 við afgreiðslu fjárlaga, með leyfi forseta: ,,... og það er enn boðaður sérstakur skattur á sjúklinga. Þetta eru kallaðar sértekjur í fjárlagafrv. en heitir á mæltu máli bara einfaldlega sjúklingaskattur, nýjar álögur á sjúklinga. ... Enn eru boðaðar nýjar sértekjur á sjúkrahúsunum sem þýðir einfaldlega það, einföld dæmi, að allar kviðspeglanir kosta eftir áramót 14.000 kr.`` Nýjar álögur á sjúklinga, segir hún líka. Þetta eru sönn orð sem hv. þáv. þm. en núv. ráðherra sagði þá. Maður sér þessa kúvendingu sem Framsfl. gekk í en hann fékk fimm ráðherrastóla fyrir og eins og hefur verið bent á áður komust víst hinir í einhverjar nefndir þannig að allir geta unað vel við sitt. En ég er ekki viss um að þeir kjósendur sem trúðu Framsfl. í vor séu jafnánægðir.

Það er lítið lagt til, hæstv. fjmrh. Í skatteftirlit eru óverulegar hækkanir. Þetta er 1,6 milljarðar í heildina og þegar um er að ræða að þarna tapast fé upp á 15 milljarða þá hefði átt að gera meira til.

Ferðamál. Þar lækka framlög og auðvitað er það röng stefna. Þetta er vaxtarbroddur sem hið opinbera á að hlúa að. Það er nákvæmlega það sama, það er ekkert tekið á varðandi orkusölusamninga sem hafa verið gagnrýndir líka á öðrum vettvangi af hálfu borgarstjórans í Reykjavík, sem spyr sig með réttu hvort menn gætu lagt meira fé í þetta eða gert þetta á annan hátt. Hins vegar er slegið upp fundi í hvert skipti sem kemur fax utan úr löndum þar sem spurt er um álver. Þetta er þreytandi umræða. Ég óska þess heitt að við fáum þetta blessaða álver. Í guðanna bænum, hæstv. ráðherra og ríkisstjórn öll, fallið ekki í þá gryfju sem aðrir hafa fallið í að tala í sífellu um álver sem lausn allra vandamála.

Það er fellt í Atvinnuleysistryggingasjóði. Það falla niður bætur til einstaklinga á bótum ef störf eru ekki þegin. Það geta hins vegar, hæstv. ráðherra, verið gildar ástæður fyrir því að störf henta ekki. Þar eru líka frystar bætur. Þar er sparað á atvinnuleysingjunum.

Það er allt á sömu bókina lært hvernig þetta fjárlagafrv. er úr garði gert. Tekjutrygging þeirra sem ekki greiða í lífeyrissjóð er skert. Það er fyrst og fremst heimavinnandi fólk og öryrkjar.

Það er talað um að breyta sérhæfðum deildum í hlutafélög. Hvað er þarna á ferðinni, hæstv. heilbrrh.? Á að einkavæða heilbrigðisþjónustuna? Erum við að stefna hér í bandaríska kerfið sem menn þekkja vel og er alveg hið prýðilegasta heilbrigðiskerfi fyrir þá sem meira mega sín, fyrir þá ríku, en þeir fátæku mega éta það sem úti frýs í því kerfi? Eru menn að stefna í slíkt kerfi hér á landi?

Nei, herra forseti. Þetta frv. er ekki þannig að hægt sé að fara um það hlýjum orðum. Þetta er vonleysisfrv. Það leiðir til meira atvinnuleysis, minni hagvaxtar en annars staðar, hærri vaxta, meiri greiðsluvanda heimila og verulegrar skerðingar á félagslegri þjónustu. Þetta er einkenni frv. Þetta frv. er ekki frv. félagshyggju- og jafnaðarflokka. Það er það ekki. Með þessu fjárlagafrv. eru að mótast skýrir valkostir í íslenskum stjórnmálum. Það er í sjálfu sér ágætt. Og það sem er e.t.v. mikilvægast núna er að ná samstöðu um kjarastefnu og ég hef ekki trú á því þó að ég skilji svör hæstv. utanrrh. svo að ætlunin sé að reyna að leita að siðferðilegum grunni til viðræðna. Sennilega hafa þeir ekki stöðu til þess í augnablikinu.

Eitt aðalhugtak hjá Þjóðvaka í kosningabaráttunni var orðið trúnaður. Það er orðinn trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og fólksins í landinu og það verður að taka þessi mál upp með nýjum hætti, með nýrri launastefnu sem getur verið falin í, eins og ég hef bent á, aukningu á framleiðni, kjarasamningum á vinnustöðum, lækkun skatta á millitekjuhópum aukningu atvinnulýðræðis og hið opinbera hætti niðurgreiðslum á almennum vinnumarkaði samhliða því að við höldum við fastgengisstefnuna. Þetta er stefna sem ætti að geta náðst samstaða um. Þetta er einfaldlega skynsamlegt. Þjóðvaki er reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum að betri kjörum og bættum fjárlögum.

Þetta frv. og óvissan um kjaramálin stefnir fimm ára árangri þjóðarsáttarsamninganna í hættu. Það er afrek ríkisstjórnarinnar. Það má ekki gerast. Það vill enginn hverfa til gamla tímans en þessi stjórnarstefna er röng. Gagnrýni á frv. eru einkum þrír þættir:

Í fyrsta lagi stefnir frv. í þá átt að kæfa hagvöxt með samdrætti í fjárfestingum og ekki beint virkri skattastefnu.

Í öðru lagi er engin kerfisbreyting í frv., forsendur veikar, sérstaklega hvað varðar launastefnuna.

Í þriðja lagi er ráðist harkalega á heilbrigðis- og velferðarmál í okkar samfélagi.

Þetta frv. sýnir e.t.v. betur en margt annað að samstaða stjórnarandstöðu gegn núv. stjórnarflokkum er nauðsynleg. Ríkisstjórn á alltaf rétt á að fá tíma til að móta sínar tillögur og koma með þær fram skýrt og skorinort. Það hefur þessi ríkisstjórn gert með fjárlagafrv., slæmu frv. sem byggir á veikum forsendum og því sem verst er, herra forseti, algerum skorti á framtíðarsýn í uppstokkun mikilvægra málaflokka. Hlutverk Þjóðvaka verður að vinna með stjórnarandstöðu að tillögugerð og gagnrýna eða hrósa ríkisstjórn eftir atvikum en þessi ríkisstjórn hefur ekki unnið til hróssins. Þessi ríkisstjórn hefur horfið frá gildum um samhjálp einstaklinga í verulegum atriðum og það eru hin pólitísku skilaboð sem þetta fjárlagafrv. veitir.