Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:27:55 (87)

1995-10-06 15:27:55# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykn. flutti hér um margt ágæta og athyglisverða ræðu. Sá hluti ræðunnar sem fjallaði um atvinnulífið þótti mér athyglisverðari en það sem sneri að ríkisfjármálunum, en hann kom inn á nokkra þætti sem ég vildi gera að umtalsefni og spyrja hv. þm. um. Hann ræddi m.a. um lága framleiðni íslenskra atvinnufyrirtækja sem má vafalaust víða til sanns vegar færa. Einnig ræddi hann um nauðsyn þess að hér gilti sambærileg skattaleg meðferð gagnvart atvinnulífinu og í öðrum nærliggjandi löndum. Hann gat þess jafnframt um leið og hann ræddi um lága framleiðni og nauðsyn á sambærilegum sköttum að það þyrfti að auka hlutdeild atvinnufyrirtækja í samneyslunni sem þýðir á mannamáli að það eigi að hækka skatta á atvinnulífið. þess vegna vildi ég spyrja hv. þm.: Hvaða skatta aðra en veiðileyfisgjald, sem ég veit að hann hefur áhuga á, vill hann leggja á íslenskt atvinnulíf við núverandi aðstæður?