Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 15:31:17 (89)

1995-10-06 15:31:17# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir svarið sem ég sætti mig prýðilega vel við vegna þess að það kom fram hjá honum að mikilvægast er auðvitað að auka framleiðni fyrirtækjanna, þ.e. að bæta afkomu fyrirtækjanna. Mér heyrðist að hann tæki í rauninni undir það sjónarmið sem við ýmsir stjórnarþingmenn höfum haft uppi um að það sé ekki skynsamlegt að auka skattlagningu á atvinnulífinu heldur gera aukna kröfu til atvinnufyrirtækjanna um að bæta sinn rekstur. Það gerum við ekki með því að hækka álögur opinberra gjalda á fyrirtæki umfram það sem brýn nauðsyn ber til og það verður að nefna það sérstaklega þeim til hróss sem bera ábyrgð á því að það er farið mjög varlega í það að auka útgjöld atvinnulífsins og þannig og því aðeins bætum við hag fyrirtækjanna og um leið möguleika þeirra til þess að hækka laun og bæta afkomu almennings í landinu.