Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:05:52 (102)

1995-10-06 16:05:52# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Höfuðmarkmið þessa fjárlagafrv. er að stöðva sjálfvirka útgjaldaþenslu en halli ríkissjóðs nam um 40 milljörðum á síðasta kjörtímabili. Með fjárlagafrv. viljum við skapa áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum. Með fjárlagafrv. viljum við treysta grundvöll atvinnulífsins. Með fjárlagafrv. viljum við leggja grunn að traustara samfélagi hér á Íslandi og varpa ekki ábyrgð skuldasöfnunar á komandi kynslóð, kynslóð sem hefur vart tækifæri til að verja sig. Velferðarkerfi okkar verður veikara með ári hverju ef við tökumst ekki á við skuldasöfnun og fjárlagavanda ríkisins. Við rekum ekki velferðarkerfið með lántökum lengur.

Eins og komið hefur fram eru tekjur samkvæmt fjárlagafrv. áætlaðar um 120 milljarðar. Útgjöld eru áætluð um 124 milljarðar, þ.e. hér er um að ræða um fjögurra milljarða kr. halla. En samkvæmt fjárlagafrv. ársins 1995 er fjárlagahallinn tæplega 9 milljarðar. 4 milljarðar eru minnsti halli á fjárlögum frá árinu 1984. Stefnt er að því að afgreiða hallalaus fjárlög árið 1997. Vissulega er erfitt að þurfa að taka á þessum málum, bæði pólitískt og út frá öðrum forsendum en engu að síður nauðsynlegt og virðast flestir þingmenn sammála um það. Eðlilega er deilt um leiðir en ekki hefur verið bent á mörg önnur úrræði en koma fram í fjárlagafrv. okkar.

En hvers vegna er ríkisstjórnin að fara út í þessar erfiðu aðgerðir? Veltum fyrir okkur hvað gerist ef við tökum ekki á vandanum, bíðum átekta og gerum ekki neitt. Þá nemur halli ríkissjóðs á kjörtímabilinu 50 milljörðum. Skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu verður yfir 50% árið 1999. Það er hærra hlutfall en Maastricht-samkomulagið gerir ráð fyrir og þó við séum ekki aðilar að Maastricht-samkomulaginu er ljóst að það er mælikvarðinn sem miðað er við þegar lán eru tekin á alþjóðavettvangi. Slíkur skuldahali gerir okkur erfitt fyrir um lántökur erlendis. Hvernig fjármögnum við þá velferðarkerfið?

Vaxtagjöld í lok kjörtímabilsins, ef ekkert er að gert, nema um 18 milljörðum kr., einum milljarði hærri upphæð en varið er til mennta- og menningarmála á árinu 1995. Nú eru vaxtagreiðslur um 12 milljarðar. Vegna skulda ríkissjóðs eru vaxtagjöld þriðji hæsti útgjaldaliður fjárlaga. Þetta kom mér reyndar á óvart sem nýjum þingmanni þegar ég skoðaði fjárlögin að sjá hve mikið við greiðum í vexti. Einungis útgjöld til heilbrigðis- og menntamála eru hærri. Þetta getur ekki talist skynsamleg fjármálapóltík. Mun skynsamlegra væri að verja peningunum til mikilvægari verkefna.

Þó að engar nýjar ákvarðanir yrðu teknar um útgjöld og þau látin þróast afskiptalaust mundi fjárlagahallinn tvöfaldast á kjörtímabilinu. Þá mundi nú aldeilis hrikta í velferðarkerfinu.

Flestir viðurkenna þá grundvallarreglu þjóðfélagsins að við þurfum að skapa tekjur til að geta staðið undir rekstri samfélags okkar. Það skiptir miklu máli að deila útgjöldum réttlátlega milli þegnanna. Það skiptir einnig miklu máli að þátttaka þegnanna í útgjöldum til samneyslu sé sem réttlátust. Höfuðatriðið er að nýta fjármagn og fjárfestingar sem best. Það getum við gert betur, bæði hér á Alþingi sem og í ráðuneytum ríkisins og einnig víðar úti í þjóðfélaginu.

Heilbrigðis- og menntamál eru tveir stærstu útgjaldaflokkarnir. Þessir málaflokkar eru þannig að þeir snerta nær allar fjölskyldur landsins. Við sem á Alþingi sitjum erum væntanlega flest sammála um að samfélagið á að taka sameiginlega á grunnútgjöldum þessara málaflokka. Það er óviðunandi þegar vextir af lánum sem ríkissjóður hefur tekið eru orðnir 12% af heildarútgjöldum fjárlaga eða um 13 milljarðar. Þessi upphæð er svipuð upphæð og varið er til stofnkostnaðar á vegum ríkisins. Það svarar til allrar fjárfestingar ríkisins, byggingar skóla, sjúkrastofnana, vega- og brúargerðar, hafnarmannvirkja og fleira mætti telja. Er ekki mál að skuldasöfnuninni linni? Ímyndið ykkur hvað við gætum gert við þessa peninga í heilbrigðiskerfinu, í mennta- og menningarmálakerfinu, í félagsmálakerfinu og til nýsköpunar í atvinnu svo eitthvað sé nefnt.

Með þessum fjárlögum erum við að renna traustari stoðum undir velferðarkerfi framtíðarinnar þó svo að við vildum gjarnan gera betur á flestum sviðum. En til þess að svo megi verða, þá verðum við að treysta undirstöðurnar. Ef fjárlagafrv. þetta nær fram að ganga, þá lækkar skuldahlutfall ríkisins við útlönd á næsta fjárlagaári úr 49,2% í 46%. Halli fjárlaga verður sá minnsti frá árinu 1984, skatthlutfall lækkar þegar tillit er tekið til aukins skattfrelsis í lífeyrissjóðsiðgjöldum og lánsfjárþörf ríkisins minnkar úr 14% í 11,6% sem eru 2,4% af landsframleiðslu.

Samkvæmt frv. hækka laun samkvæmt kjarasamningum um 3%. Bætur í almannatryggingakerfinu munu hækka samhliða launahækkunum um næstu áramót þrátt fyrir frystingu þeirra á næsta ári. Það er mikilvægt að hafa í huga að gjaldskrá verður einnig fryst, t.d. bensíngjald, bifreiðaskattar, gjaldskrá Pósts og síma, afnotagjald útvarps, vitjanir til lækna o.s.frv. Atvinnuleysisbætur munu hækka um 5%. Vissulega væri æskilegt að geta varið meiri peningum til framkvæmda, til heilbrigðismála, til félagsmála, mennta- og menningarmála eða uppbyggingar atvinnu á Íslandi. En sameiginlegur útgangspunktur þessa eru hallalaus fjárlög.

Til lengri tíma litið mun atvinna og fjárfesting aukast. Fram á það er sýnt í nýrri þjóðhagsspá. Fjárfestingar hjá atvinnuvegunum aukast um 10%, 1.700 störf bætast við á vinnumarkaði á árinu 1996 og 1.800--2.000 störf á ári fram til aldamóta. Þessi spá gleður okkur framsóknarmenn og rennir stoðum undir það viðfangsefni sem við kynntum í kosningabaráttunni í vor. Í þjóðhagsspá er ekki tekið tillit til stóriðjuframkvæmda eða hvort til framkvæmda kemur af hálfu erlendra aðila.

Þeir sem mest kvarta yfir samdrættinum í framkvæmdum ríkisins hljóta annaðhvort að vilja auka lántökur, auka fjárlagahallann eða auka skatta í landinu. Ég er á móti því að auka skattbyrði almennings á Íslandi. Það verður ekki lengra gengið í þeim efnum. Skattbyrði þess fólks í landinu sem greiðir skatta er ærin. Það er ekki eðlilegt að aðeins þriðjungur þeirra sem telur fram til skatts greiði tekjuskatt. Við verðum að ná til þeirra sem svíkja undan skatti og taka þannig ekki þátt í sameiginlegum útgjöldum samfélagsins. Það er talað um að um 10 milljarðar séu hugsanlega í neðanjarðarhagkerfinu.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að innheimta hátekjuskatt, enda er það eðlilegt við þessar aðstæður. Það er einnig gert ráð fyrir að fella fjármagnstekjuskatt inn í tekjuskattskerfið.

Herra forseti. Við Sunnlendingar erum söngelskt fólk. Á góðum stundum drögum við gjarnan fram bláa bók sem einnig er nefnd Fjárlögin. Þegar sungið er upp úr þeirri bók skiptir miklu máli að menn séu samstilltir og nái samhljómi. En til þess að ná samhljómi verðum við að mæta til æfinga. Raddir þeirra, sem mæta ekki á æfingunum, mæta bara á hljómleikana og hafa hátt, verða hjáróma. Vonandi ná sem flestir þingmenn samhljómi þegar við höfum þreytt æfingar við fjárlagafrv. ársins 1996 og taka ábyrga afstöðu þar sem við tökumst sjálf á við vandann en vísum honum ekki til komandi kynslóða. Þannig leggjum við drög að traustu samfélagi á Íslandi.