Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:46:29 (106)

1995-10-06 16:46:29# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat því miður ekki hlustað á alla ræðu hv. þm. en ég held að það sé bráðnauðsynlegt vegna síðustu orða hennar að það komi mjög skýrt fram að líklega er það svo hér á landi að enginn einn málaflokkur, hefur fengið jafnmikla aukningu fjármuna og málefni fatlaðra á undanförnum árum og áratugum. Þetta verður að koma fram vegna þess að það má ekki skilja við umræðuna með þeim hætti að menn haldi að það sé verið að skera sérstaklega niður hjá fötluðum. Ef flett er upp í frv. á bls. 322 og 323 þá kemur í ljós að að raungildi hafa framlög til rekstrar aukist um 21% frá árinu 1991. Ég vek athygli á því að fjármunir þeir sem notaðir eru til fjárfestingar og rekstrar á þessu sviði hafa aukist frá ári til árs langt fram um aukningu sem er á útgjöldum ríkisins. Enda þótt við séum öll af vilja gerð og ég veit að ég tala fyrir munn allra þingmanna að við viljum að leggja fötluðum lið þá verðum við að átta okkur á því í þessum málaflokkum eins og öðrum að það er ekki endalaust hægt að byggja og fjárfesta og allra síst á grundvelli tekjustofns sem er eins og Framkvæmdasjóður fatlaðra, að hann byggir á erfðafjársjóði þar sem ríkið hefur stundum lagt meira til fatlaðra en erfðafjársjóði nemur. Við verðum að hafa í huga að það þarf að reka líka þær fjárfestingarbyggingar sem ríkið hefur lagt fjármuni til. Ég bið hv. þm. um að skilja það og átta sig á að líklega hefur enginn málaflokkur fengið jafnmikla aukningu einmitt eins og málaflokkurinn um málefni fatlaðra og vissulega eiga þeir það skilið sem njóta þess að fá þessa fjármuni.