Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:15:31 (117)

1995-10-09 15:15:31# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hér er hafin svolítið skringileg umræða þegar hv. 4. þm. Vestf. stendur upp utan dagskrár til þess að kvarta yfir því að á lista ríkisstjórnarinnar um þingmál sé ekki endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Hv. þm. veit manna best að heildarendurskoðun á þeim lögum fór fram á tíma fyrri ríkisstjórnar, lauk með ákveðnum breytingum sem gerðar voru vorið 1994. Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð var tekið fram við stjórnarmyndunina að vinda þyrfti bráðan bug að tilteknum leiðréttingum á þeim lögum og Alþingi afgreiddi þau mál á sl. vori, á vorþinginu sem stóð eftir að núv. ríkisstjórn var mynduð. Það er þess vegna á algerum misskilningi byggt og engin rök fyrir því að fyrir dyrum hafi staðið einhver heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Þau eru hins vegar þess eðlis að það þarf alltaf að koma til þess að á þeim séu gerðar breytingar. Við erum að fjalla hér um löggjöf sem lýtur að viðamestu atvinnustarfsemi í landinu, atvinnustarfsemi sem er háð duttlungum náttúrunnar, atvinnustarfsemi sem menn þurfa stöðugt að vera að fylgjast með að því er lagaramma varðar þannig að það er aldrei hægt að segja fyrir fram um það hvort nauðsynlegt verður að gera á breytingar að fenginni tiltekinni reynslu. Og þó að á lista ríkisstjórnar yfir lagafrumvörp sé ekki endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, þá er það auðvitað fráleitt og barnalegt af hv. þm. að halda því fram að það feli í sér yfirlýsingu um að það komi ekki til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að flytja slíkt frv. ef nauðsyn krefur.

Hv. þm. nefndi til að mynda ákveðið atriði sem lýtur að mistökum, að minni hyggju, sem urðu við gerð eða afgreiðslu laganna í vor sem leið, yfirfærslu á milli tímabila varðandi smábátana. Ég hef til að mynda sagt við forustumenn smábátaeigenda að þarna hafi að minni hyggju orðið mistök við afgreiðslu málsins á þingi og þess vegna komi fyllilega til álita að gera þar á breytingar. Og það kunna að vera fleiri atriði sem þarf að skoða að því er smábátana varðar sem við kunnum að vilja gera á breytingar. Þessi löggjöf er þannig lifandi rammi sem getur tekið breytingum frá einum tíma til annars.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Að mestu er byggt á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi en banndagakerfi svonefndra krókabáta verður tekið til endurskoðunar.``

Hér er lögð alveg skýr stefna um grundvallarþætti fiskveiðistjórnunarkerfisins og endurskoðun að því er krókabátana varðar hefur farið fram. Ég hef aldrei dregið úr því að af minni hálfu var sú niðurstaða um margt gölluð og málamiðlun sem hefði ugglaust mátt vera miklu betri. En hér þurfti að ná málamiðlun og niðurstaðan einkenndist af því. Það er hins vegar skýrt tekið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að öflugar líffræði- og hagkvæmnirannsóknir séu forsenda skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar og eðlilegrar þróunar hennar. Og í samræmi við það var tekið fram í verkefnaskrá sjútvrn. að gerð yrði úttekt á mismunandi leiðum við fiskveiðistjórnun og bornir saman kostir og gallar ólíkra fiskveiðistjórnunarkerfa og niðurstöðurnar yrðu síðan nýttar við þróun fiskveiðistjórnunar. Í samræmi við þetta ákvæði í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er nú verið að undirbúa skipun nefndar sem á að fjalla um þetta mál og ætlun mín er að að því starfi komi fulltrúar helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og allra stjórnmálaflokka í þinginu.

Í verkefnaskránni er einnig fjallað um nauðsyn þess að bæta umgengni um auðlindir sjávar í samvinnu við sjómenn og útvegsmenn og að sett verði löggjöf til að tryggja ábyrga umgengni um auðlindina. Að þessu hefur verið unnið í samvinnu við sjómenn og útvegsmenn og ég geri ráð fyrir því að frv. um þau efni komi hér til meðferðar á Alþingi innan tíðar.