Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:26:22 (120)

1995-10-09 15:26:22# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi strax fram að ég er ættaður úr Mýrahreppi í Dýrafirði þannig að þessi lög hafa kannski ekki að öllu leyti komið illa við allan þingheim. En, herra forseti, hæstv. sjútvrh. segir að það sé á algerum misskilningi byggt að endurskoðun laganna hafi átt að koma til á þessu þingi. Nú er það svo að hæstv. sjútvrh. er þeim ágæta kosti búinn að hann ber virðingu fyrir andstæðingum sínum. Hann þarf hins vegar að temja sér það líka að bera virðingu fyrir samstarfsmönnum sínum og það vill svo til að einn nánasti samstarfsmaður hans í þingflokki sjálfstæðismanna í sjávarútvegsmálum er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er jafnframt talsmaður og fulltrúi hæstv. sjútvrh. í hv. sjútvn. og það var þessi hv. þm. sem lýsti því yfir margsinnis, ítrekað hér í umræðum á vorþinginu að þegar kæmi til hinna stóru mála, þ.e. gjörbyltingar á stjórnkerfi fiskveiða, þá skyldu menn koma vaskir til þings í haust. Þetta voru hans óbreyttu orð. Hann gaf yfirlýsingu um það að hann mundi einhenda sér í það að ná fram gjörbreytingu á stjórnkerfi fiskveiða.

Það er auðvitað mikilvægt að það komi hér fram að þessi hv. talsmaður sjútvrh. í sjútvn. nýtur ekki meira trausts en svo að það er ekkert sem liggur fyrir af hálfu hæstv. sjútvrh. um það að hin stóru orð hv. þingmanns eigi eitthvað að baki sér. Því miður er sagan frá því í vor að endurtaka sig, með hinar digru yfirlýsingar hv. þm. Einars Odds frá því fyrir kosningar, eftir kosningar og hér á vorþinginu, það er ekkert sem býr að baki þeim.

Herra forseti. Það er svo annað sem knýr á um það að lögin verði tekin til endurskoðunar og ég vek athygli á því, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan að það kæmi til greina ef nauðsyn krefði. Og nú krefur nauðsyn. Þessi nauðsyn eru eigin orð sjálfstæðisþingmannanna, þar á meðal formanns sjútvn. hér á þingi í vor. (Forseti hringir.) Þá sagði hv. þm. Árni R. Árnason að ef svo færi að þorskafli yrði aukinn, ef kvóti yrði aukinn, þá mundi Sjálfstfl. sjá til þess að lögum yrði breytt þannig að aflahámarki, sem heildarfloti krókabáta má veiða, yrði breytt til samræmis við það. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að það komi til greina á árinu 1997 að þetta verði gert og þá er ekki seinna vænna heldur en lögunum verði breytt í samræmi við það á þessu þingi. Það er ástæðan.