Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:33:13 (123)

1995-10-09 15:33:13# 120. lþ. 5.92 fundur 26#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), EgJ
[prenta uppsett í dálka]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur ef menn halda að ég eigi erindi hingað upp til að skamma einhverja, en ástæðan er einfaldlega sú að það var fært hér í tal að Byggðastofnun ætti í erfiðleikum með að komast að niðurstöðu í sambandi við úthlutun á vissum afla eða ráðstöfunum í sambandi við smábáta. Það rétta í þessu máli er það að Byggðastofnun á ekki í neinum erfiðleikum með þetta og það hygg ég að sá sem minntist á þetta hafi vel vitað, m.a. vegna þess að tillaga frá honum um þessi efni að vísa málinu frá féll á síðasta fundi með miklum atkvæðamun. Og honum eins og öðrum stjórnarmönnum í Byggðastofnun er fullkunnugt um það að frá þessu máli verður gengið á næsta stjórnarfundi stofnunarinnar. Þannig að allt tal um erfiðleika í þessum efnum er ástæðulaust.

Þetta þótti mér eðlilegt að kæmi hér fram þótt ég hljóti að telja það heldur af hinu verra að meðan menn eru að vinna að afgreiðslu mála í einhverjum tilteknum stofnunum, í þessu tilviki í Byggðastofnun, þá séu þau dregin inn í umræðu af þessum toga.