Réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra

Mánudaginn 09. október 1995, kl. 15:42:11 (127)

1995-10-09 15:42:11# 120. lþ. 5.2 fundur 13. mál: #A réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um réttarstöðu kjörbarna og kjörforeldra þeirra sem ég flyt ásamt hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur. Meginefni frv. er að breyta gildandi lögum á þann hátt að staða kjörbarna og kjörforeldra verði að öllu leyti hin sama og kynforeldra og barna þeirra.

Herra forseti. Það voru hinir fornu stóuspekingar sem sögðu: ,,Öll erum við jafnir geislar sólarinnar.`` Sem betur fer hefur það viðhorf yfirleitt birst mjög skýrt í lögum frá hinu háa Alþingi. Mörgum kemur þess vegna nokkuð spánskt fyrir sjónir að lögin gera í nokkrum atriðum greinarmun á réttarstöðu kjörbarna og annarra barna sem fæðast og eru getin af foreldrum sínum. Ég var sjálfur afar undrandi þegar ég kynntist því af eigin raun og hafði litla hugmynd um það frekar en aðrir sem ekki þekkja frumskóg laganna nema að takmörkuðu leyti. Ég er líka sannfærður um að það er ekki í anda þeirrar umhyggju sem einkennir hið íslenska samfélag og ekki síður það örsmáa samfélag sem er að finna hér í sölum hins háa Alþingis.

Í umræðum fyrri ára um mál sem tengjast efni þessa frv. speglast þetta raunar skýrt. Þar er að finna mörg dæmi þess að þingmenn telja rangt að gera greinarmun á börnum eftir því hvort þau eru getin og fædd af sínum foreldrum eða ættleidd. Sama viðhorf má reyndar finna í fjölmörgum lagasetningum frá Alþingi þar sem er víða lögð sérstök áhersla á að að sé enginn munur á rétti þessara tveggja hópa.

Andi flestra laga sem með einhverjum hætti tengjast því efni sem er undir í þessu frv. er ótvírætt í þá veru að réttarstaða kjörbarna og foreldra þeirra eigi að öllu leyti að vera hin sama og kynforeldra og þeirra barna. Ég gæti vísast nefnt mörg dæmi um það. Ég læt mér nægja að vísa til 15. gr. ættleiðingarlaganna frá 1978, þar sem segir með leyfi forseta:

,,Nú ættleiðir aðili barn maka síns eða kjörbarn og fær barnið þá réttarstöðu sem væri það skilgetið barn þeirra hjóna.``

Í þessum orðum, herra forseti, tel ég að birtist mjög skýr og afdráttarlaus vilji löggjafans. Allt sem ber vott um annað en jafnstöðu þessara tveggja barnahópa er að mínu viti siðferðilega rangt og óverjandi. Ættleidd barn er nákvæmlega jafnelskað og barn sem fæðist af foreldrum sínum og það veitir þeim ekki minni hamingju. Það þarf ekki heldur á minni umhyggju samfélagsins að halda. Þeir sem ættleiða barn meðhöndla það að öllu leyti sem skilgetið afkvæmi sitt og löggjafanum ber að mínu viti að gera hið sama.

Í vaxandi mæli koma kjörbörn frá öðrum heimshlutum. Þau skera sig stundum úr hópnum sakir uppruna síns og ekki síst af þeim sökum er afar mikilvægt að þau bæði viti og þau finni að þau njóta verndar og umhyggju samfélagsins með nákvæmlega sama hætti og börn af íslenskum uppruna. Ef löggjafinn býr hins vegar svo um hnúta að kjörbörn njóta ekki að öllu leyti sama réttar og önnur börn, þá er um leið gefin vísbending um að þau séu ekki jafndýrmæt, þau séu ekki jafnmikilvæg og þar af leiðandi ekki jafnvelkomin og önnur börn. Hvort tveggja er vitaskuld fráleitt. Það er siðferðilega rangt. Það er víðs fjarri inngróinni réttlætiskennd Íslendinga og auk þess í algerri andstöðu við frumatriði kristinnar trúar. Ég þori að fullyrða að slíkt er hvorki vilji almennings, Alþingis né íslensku kirkjunnar.

Herra forseti. Meginbreytingarnar sem við flm. leggjum til varða annars vegar breytingar á lögum um fæðingarorlof og í kjölfar þeirra afleiddar breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem aðstoð hins opinbera sem tengist fæðingarorlofi er útfærð. Við leggjum sömuleiðis til veigaminni breytingar á tvennum lögum um lífeyrissjóði, annars vegar um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og hins vegar um Lífeyrissjóð bænda en báðir fela í sér úrelt ákvæði sem mismuna kjörbörnum og foreldrum þeirra um tiltekin réttindi.

Í þessu frv. eru lagðar til breytingar á fernum lögum og því er skipt í fjóra kafla. Ég mun nú í örstuttu máli reyna að gera grein fyrir efni hvers kafla fyrir sig.

Megináhersla frv. birtist þegar í 1. gr. I. kafla. Þar er lögð til sú breyting á upphafsgrein laganna um fæðingarorlof sem í dag hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Fæðingarorlof samkvæmt lögum þessum merkir leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar.`` Eins og ég rakti fyrr í minni ræðu, þá er tilgangur þessa frv. sá að ættleiðing skapi sama rétt og fæðing gagnvart aðstoð hins opinbera. Þess vegna leggjum við flutningsmenn til að ættleiðing verði tekin undir skilgreiningu á þeim sem njóta fæðingarorlofs og aftan við 1. gr. verði skotið orðunum: eða ættleiðingar. Í 2. gr. laganna um fæðingarorlof er skilgreindur sá tími sem menn að öðru jöfnu njóta til fæðingarorlofs og er sex mánuðir. Ef þeim foreldrum sem ættleiða er með þessari breytingu okkar bætt við skilgreininguna á þeim sem njóta fæðingarorlofs, þá leiðir af sjálfu að ákvæði 2. gr. laganna um fæðingarorlof ná einnig yfir þá og foreldrar sem ættleiða barn njóti því sex mánaða fæðingarorlofs eða nákvæmlega jafnlangs og kynforeldrar. Í dag er það svo að þeir sem ættleiða geta einungis notið fimm mánaða orlofs. Þetta er að mínum dómi sjálfsögð breyting og jafnframt ein sú mikilvægasta sem felst í þessu frv.

Reglur um fæðingarorlof voru upphaflega lögfestar ekki síst með það fyrir augum að veita foreldrum, einkum móðurinni, gott tækifæri til að skapa sem traustust tengsl milli sín og barnsins í frumbernskunni. Þessi tengsl eru af fjölmörgum sérfræðingum talin vera þau mikilvægustu sem einstaklingurinn myndar á lífsleiðinni og raunar hafa æ fleiri rannsóknir leitt í ljós að sé þeim að einhverju leyti áfátt, þá getur það leitt til ýmiss konar vandkvæða síðar á lífsleiðinni. Og það má geta þess að einmitt þessar niðurstöður vísindalegra rannsókna hafa blásið byr í segl þeirra heima og erlendis sem vilja lengja fæðingarorlofið. Þær hugmyndir eru beinlínis rökstuddar með nauðsyn þess að treysta þessi tengsl í frumbernsku barnsins milli þess og foreldranna. Og ég hygg að það þurfi ekkert að rökstyðja það í ítarlegra máli að þessi nánu tengsl í upphafi lífsgöngunnar eru ættleiddu barni ekki síður nauðsynleg en því barni sem er fætt og alið upp af móður sinni. Sumir mundu jafnvel halda því fram að kjörbörnum væri nauðsyn á því að vera lengur með móður sinni í frumbernsku, einkum vegna þess að a.m.k. nú á tímum tekur kjörmóðir í fæstum tilvikum við barninu algerlega nýfæddu. En það er á engan hátt verið að leggja slíkt til, herra forseti. Einungis að kjörforeldri fái sama stuðning hins opinbera til að vera með sínu nýja barni í upphafi samvista þeirra og kynforeldrar.

Í 2. gr. þessa frv. er fjallað um breytingu á 3. gr. laganna um fæðingarorlof. Samkvæmt 3. gr. laganna um fæðingarorlof er verðandi móður heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir fæðingu. Móðir sem ættleiðir barn hefur ekki átt kost á því að hefja töku orlofsins fyrr. Eigi að síður er það staðreynd að í vaxandi mæli koma kjörbörn úr fjarlægum löndum, oft úr fjarlægum heimsálfum og eins og ættleiðingarferillinn er í dag, þá þurfa verðandi kjörforeldrar að fara í langar ferðir og oft og tíðum að dvelja lengi í upprunalandi barnsins. Í Kólumbíu til að mynda er samkvæmt þarlendum lögum fjögurra vikna dvöl algert lágmark. Yfirleitt er það 6--8 vikur. Í Brasilíu getur það farið upp í þrjá mánuði. Kostnaðurinn við ættleiðingar er því gríðarlegur sökum mikls vinnutaps og mikils ferðakostnaðar og það er þess vegna sanngirnismál og raunar í anda þess jafnréttis sem þetta frv. byggir á að við flm. leggjum til að þær mæður sem ættleiða barn eigi kost á því að hefja töku fæðingarorlofsins fyrr.

Herra forseti. II. kafli þessa frv. fjallar um þær breytingar á lögum um almannatryggingar sem leiða af þeim breytingum á fæðingarorlofinu sem ég hef þegar rakið. En í 9. gr. laganna um fæðingarorlof er mælt fyrir um að útfærsla fæðingarorlofsins skuli sýnd í lögum um almannatryggingar.

Áður en ég kem að 4. gr. langar mig að ræða sérstaklega 5. og 6. gr. vegna þess að þar kemur þessi útfærsla á fæðingarorlofinu fram. Gert er ráð fyrir því að í 15. gr. laganna um almannatryggingar, sem fjallar um fæðingarstyrk, þá taki hann einnig yfir frumættleiðingu og í stíl við 2. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir því að ef barn er sótt til útlanda til ættleiðingar, þá sé hinni verðandi móður heimilt að hefja töku styrksins við upphaf ferðarinnar. Sömuleiðis er til samræmis við þann megintilgang laganna að um algera jafnstöðu sé að ræða meðal ættleiðandi foreldra og hinna sem fæða sín börn eftir hefðbundnum leiðum, þá leggjum við til að í 1. málsl. 5. mgr. 15. gr. laganna um almannatryggingar sé sérstaklega tekið fram að ef fleiri en eitt barn eru ættleidd í einu, þá lengist orlofið sem svarar einum mánuði. Það á nú þegar við þegar fleiri en eitt barn fæðast í einu.

16. gr. laganna um almannatryggingar fjallar um fæðingardagpeninga og þær breytingar sem við leggjum til eru samsvarandi þeim sem ég hef nú þegar rakið.

Herra forseti. Ég hljóp yfir 4. gr. vegna þess að ég vildi fyrst ljúka þeim lagabreytingum sem tengjast fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum, en 4. gr. laganna leggur til breytingu á 14. gr. laganna um almannatryggingar. Sú grein fjallar um barnalífeyri og þar er þess getið að barnalífeyrir skuli greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annaðhvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Það er hins vegar svo að kjörbörn skapa ekki nákvæmlega sama rétt. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

,,Eigi skal heldur greiða barnalífeyri vegna fráfalls eða örorku ættleiðenda nema barnið hafi verið á framfæri hans a.m.k. tvö síðustu árin áður en lífeyrisréttur gat stofnast.`` Síðan kemur eftirfarandi setning sem mér sjálfum finnst beinlínis móðgandi gagnvart þeim sem ættleiða og hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Heimilt er Tryggingaráði að stytta þennan frest ef sýnt þykir að ættleiðingin standi ekki í sambandi við væntanlegan bótarétt.``

Þarna er sem sagt verið að gera því skóna að það kunni að vera ákvörðunarvaldur hjá einhverjum foreldrum að þau eigi bætur í vændum. Ég tel að það sem kemur fram í þeim setningum sem ég las upp feli í sér skýra mismunun gagnvart kjörbörnum miðað við þau börn sem eru alin upp af kynforeldrum sínum og ég tel að það sé með engu móti hægt að verja hana. Þegar lögin voru endurskoðuð 1993, þá tel ég að það hafi hreinlega verið slys að þessu var ekki kippt út. Það er engin krafa gerð um það í þessum lögum að barn þurfi að fæðast meira en tveimur árum fyrir dauða foreldris til þess að skapa slíkan rétt og þess vegna er með engu móti hægt, herra forseti, að gera þetta skilyrði gagnvart kjörbörnum.

Skyld þessari breytingu á almannatryggingalögunum eru síðan tvær veigaminni breytingar á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og lögum um Lífeyrissjóð bænda, en í 12. gr. fyrrnefndu laganna og 11. gr. síðarnefndu laganna er m.a. fjallað um makalífeyri. Báðar greinarnar fyrirskipa að láti sjóðfélagi eftir sig barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með eftirlifandi maka, þá fái maki lífeyri til 18 ára aldurs barnsins án tillits til hjúskapartima. Hins vegar er tekið sérstaklega fram að sami réttur skapist ekki gagnvart kjörbarni ef: Í fyrsta lagi ættleiðing gerist eftir 60 ára aldur sjóðfélaga. Í öðru lagi, ættleiðing fer fram eftir að sjóðfélagi missir starfsorku sína og í þriðja lagi: Ættleiðing á sér stað innan árs áður en sjóðfélagi fellur frá. Samkvæmt þessu er alveg skýrt að kjörbörn hafa ekki sömu lagalegu réttarstöðu og önnur börn að því er varðar þessar tvær lagasetningar. Ég tel að þessi ákvæði séu mjög augljóslega ranglát og misréttið sem í þeim felst bitnar í senn á eftirlifandi kjörforeldri og kjörbarninu vegna þess að það skaðar óhjákvæmilega efnislega velferð beggja. Hlutverk löggjafans er auðvitað að skapa þegnunum réttlát lög. Þetta eru ranglát lög og þess vegna þarf að breyta þeim.

Ef ég fer nokkrum orðum um þessar þrennar forsendur, þá er hin fyrsta þeirra sem gerir kröfu um það að ættleiðing verði að gerast fyrir 60 ára aldur sjóðfélaga tæknilega óvirk. Í dag er ekki hægt að ættleiða barn nema í fyrsta lagi fari fram mjög nákvæm úttekt viðkomandi sveitarfélags hér á Íslandi á þeim sem ætla að ættleiða og hins vegar framkvæmir viðkomandi stofnun í upprunalandi barnsins líka sína eigin úttekt og það er engum sem er kominn er á þennan aldur kleift að ættleiða barn.

Að því er varðar síðan það að ættleiðing megi ekki fara fram eftir að sjóðfélagi missir starfsorku sína, þá gildir þetta ekki um börn sem fæðast eftir að sjóðfélagi missir starfsorkuna. Þarna er því um skýra mismunun að ræða. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að í dag er ættleiðingarferillinn allur annar en hann var fyrir nokkrum áratugum. Eins og ég hef þegar sagt í minni ræðu eru nú fjölmörg tilvik þess að barnið komi úr fjarlægu landi og ættleiðingarferillinn er langur. Hann getur tekið mörg ár. Þegar foreldrar hafa tekið ákvörðun um að ættleiða, þá eru þau sennilega að taka mikilvægustu ákvörðun og afdrifaríkustu sem þau taka nokkru sinni á sínum lífsferli. Þessi ákvörðun varðar auðvitað ekki bara þann einstakling sem er aðili að viðkomandi lífeyrissjóði, heldur líka makann. Meðan á þessum biðtíma stendur sem oft er mjög langur, þá er auðvitað vitneskjan um barnið sem í vændum er orðinn órjúfandi hluti af lífi viðkomandi hjóna. Ég tel að það sé algerlega siðferðilega óverjandi að setja þetta skilyrði. Það er alveg ljóst að það er ekki sett gagnvart þeim börnum sem fæðast af uppalendum sínum. Þess vegna verð ég að segja það að ég tel óhjákvæmilegt frá siðferðilegu sjónarmiði að þetta falli út.

Herra forseti. Það hefur skapast talsverð umræða á síðustu vikum um kjör og réttindi alþingismanna. Þegar alþingismenn samþykktu lög um eftirlaun sín fyrir allmörgum árum, þá var það tekið mjög skýrt fram í þeim lögum að kjörbörn nytu nákvæmlega sama réttar og sköpuðu sama rétt og þau börn sem voru fædd af uppalendum sínum. Alþingismenn hafa undirstrikað það á síðustu vikum að þeir ætlast ekki til þess að um þá gildi öðruvísi lög en aðra þegna landsins. Þess vegna er ég viss um að hið háa Alþingi mun veita þessu frv. skjóta og greiða leið í gegnum þingið.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.