Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:39:10 (156)

1995-10-10 14:39:10# 120. lþ. 6.4 fundur 10. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# frv., BH
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Varðandi orð hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan um sjúkrasjóðina þá vil ég ítreka það sem ég tók fram í framsögu minni áðan að sjóðunum er ætlað eins og reglurnar eru nú í dag að taka við að lokinni skyldu atvinnurekenda samkvæmt lögum frá 1979. Þannig eru reglurnar í dag.

Það er vissulega varasamt að leggja of miklar álögur á fyrirtækin í landinu en það eru líka takmörk fyrir þeim álögum sem hægt er að leggja á launafólk. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að skella lengi skollaeyrum við neyð launafólks. Á síðustu árum hefur verið létt álögum af fyrirtækjum en einstaklingarnir sem starfa hjá fyrirtækjunum hafa þurft að herða sultarólina. Allt í nafni aukinnar atvinnu og stöðugleika. Þetta hefur launafólk vissulega verið tilbúið til að gera. Það er hins vegar algerlega óásættanlegt að þetta sama fólk búi við þvílíkt öryggisleysi sem raun hefur verið á þegar að erfiðum tímum kemur.

Það var minnst hér áðan á sauðargæru. Af því tilefni vil ég taka fram að það reynir að jafnaði ekki á túlkanir á lögunum frá 1979 hjá þeim atvinnurekendum sem virða starfsfólk sitt sem manneskjur. Það eru aðeins svörtu sauðirnir sem neita og þeir eru því miður of margir. Þessir aðilar hafa notað sér glufur í landslögum til að fara í kringum hlutina og þær glufur þarf að fylla upp í. Og það er Alþingis að gera það.

Hæstv. félmrh. vísaði hér áðan líka til nefndar um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins og að þar væri verið að vinna að þessum málum. Ég vil taka það fram og ég vona að hæstv. félmrh. sé að hlusta, að sú nefnd hefur ákveðið að miða starf sitt við samskipti aðilanna sín á milli, enda er það hlutverk hennar samkvæmt skipunarbréfi. Hér erum við að tala um einstaklingana sem standa berskjaldaðir frammi fyrir örlögum sínum þegar í harðbakkann slær.

Hæstv. félmrh. lét líka að því liggja að einstakir þingmenn væru að grípa inn í mál á viðkvæmu stigi. Er ráðherrann að mælast til þess að einstakir þingmenn þegi á meðan nefndirnar fjölmörgu sem hafa verið skipaðar af ríkisstjórninni eru að klára sín mál? Ég vil bara svara fyrir mína parta að það mun ég ekki gera.