Bætt skattheimta

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 14:48:37 (159)

1995-10-10 14:48:37# 120. lþ. 6.7 fundur 20. mál: #A bætt skattheimta# þál., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. sem flutt er af þeim er hér stendur ásamt eftirtöldum hv. þm.: Ástu R. Jóhannesdóttur, Guðjóni Guðmundssyni, Guðna Ágústssyni, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Hjálmari Jónssyni, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Lúðvíki Bergvinssyni, Magnúsi Stefánssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ögmundi Jónassyni.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að skipa þegar í stað nefnd er hafi það verkefni að koma með tillögur um leiðir til að bæta skattaskil til ríkis og sveitarfélaga. Þá verði nefndinni falið að kanna hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða þannig að skattstofn einstaklinga verði tengdari tekju- og eignamyndun þeirra en nú er.

Nefndin verði skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna aðila: fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, ASÍ, BSRB, VSÍ, Neytendasamtökunum, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins og Félagi löggiltra endurskoðenda. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar eigi síðar en 1. febr. 1996.``

Samkvæmt orðanna hljóðan felur tillagan í sér skipan nefndar er taki á tveimur þáttum. Annars vegar bætt skattaskil til ríkis og sveitarfélaga og ég undirstrika og legg áherslu á skattaskil því hér er ekki verið að ræða um auknar skattálögur. Hins vegar er nefndinni ætlað að birta tillögur til úrbóta á því sem almennt er talið óeðlilegt misræmi á milli uppgefinna tekna til skatts annars vegar og mikilla eigna og tekjumyndunar hins vegar. Nú kunna einhverjir að spyrja hvers vegna tillaga með þessu efni sé fram borin. Um langa hríð hefur umræða í þjóðfélaginu verið hávær um þessa þætti. Þannig virðist almennt þekkt að löglegir skattar skili sér illa til ríkissjóðs. Ekki er það bara almannarómur, heldur er það líka staðfest af tveimur skýrslum. Önnur er frá árinu 1986 og var birt hér á Alþingi en hin var lögð fram í fjmrn. árið 1993. Athygli vekur að niðurstöður beggja þessara skýrslna eru keimlíkar. Þar kemur fram að á bilinu 8 til 11 milljarðar skila sér ekki til ríkissjóðs og niðurstöður beggja skýrslna eru svipaðar. Það segir okkur m.a. að árangur af bættri skattheimtu og skattskilum hefur lítill orðið á þessu tímabili.

Allir eru sammála um að halla ríkissjóðs þurfi að ná niður. Það sé m.a. grundvöllur að bættum lífskjörum og aukinni atvinnu hérlendis. Fyrir þinginu liggur m.a. fjárlagafrv. sem hefur þetta að markmiði. Sé hins vegar rétt að u.þ.b. 10 milljarðar skili sér ekki til velferðarkerfisins þá má ná enn betri árangri í því að rétta af halla ríkissjóðs. Hætt er við að þessir óinnheimtu milljarðar kæmu sér vel í menntamálum, innan heilbrigðiskerfisins eða í nýsköpun atvinnulífs svo dæmi séu tekin.

Vert er að minna á að hluti af óinnheimtum skatttekjum ríkissjóðs hefur verið greiddur af almenningi, neytendum sjálfum, en ekki skilað sér á áfangastað til ríkissjóðs í rekstur velferðarkerfisins. Með sanni má segja að þar sé um hreinan þjófnað að ræða. Langtímaáhrif þess eru m.a. auknar álögur á ríkissjóð, skarð í velferðarkerfið, sem um síðir lendir á þeim sem síst skyldi. Þær fela með öðrum orðum í sér hrópandi óréttlæti.

Samkvæmt tillögunni er nefndinni ætlað að skila til hæstv. fjmrh. tillögum um skilvirkar leiðir til úrbóta. Segja má að lengi hafi verið um þessa þætti talað en þeim mun minna gert. Tillagan felur í raun í sér að tími aðgerða sé upp runninn.

Síðari hluti tillögunnar felur í sér að sömu nefnd er ætlað að skoða hvort ekki sé brotalöm í sambandi annars vegar skattstofns einstaklinga og hins vegar tekju- og eignamyndunar þeirra. Háværar raddir heyrast og hafa lengi heyrst í samfélaginu um að fjölmargir einstaklingar borgi hverfandi lítið í opinber gjöld en eigna- og tekjumyndun þeirra virðist vaxa í öfugu hlutfalli við opinberar tekjur. Ég hygg að allir hv. þm. kannist við sögur og dæmi þessa. Enda er það svo að réttlætiskennd hins almenna launþega er freklega misboðið. Spurningin er raunar sú hvort fyrir því sé pólitískur vilji á hinu háa Alþingi að gera á þessum viðkvæmu málum bragarbót. Segja má að tími aðgerða sé kominn, nóg sé talað. Nefndinni er ætlað að skila ábendingum um úrbætur þannig að hæstv. fjmrh. geti gert Alþingi grein fyrir þeim fyrir 1. febr. á næsta ári. Í framhaldi af því getur svo Alþingi brugðist við. Þá reynir á hinn pólitíska vilja í þessu margrædda og umdeilda máli í samfélagi okkar. Við búum við skattalög í þessu landi. Við búum líka við skattaeftirlit í þessu landi. Lög og eftirlitskerfi sem ætlað er að ná til allra landsmanna á jafnréttisgrundvelli. En samt eru það einungis 30%, eða u.þ.b. þriðjungur launþega sem stendur undir tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti. Von er að þessum 30% svíði skattálögur sínar þegar þau samtímis vita af grönnum sínum velstæðum en skattlausum. Er réttlæti fólgið í því að einungis 30% leggi sitt til samneyslunnar meðan aðrir að því er virðist í góðum álnum, komist hjá sömu skattheimtu en nýta sér í engu minna mæli alla þjónustuna? Er nokkurt réttlæti fólgið í því að sum fyrirtæki standi skilvíslega skil á öllum skattalegum fjármunum meðan önnur fyrirtæki láta það hjá líða? Hvað um samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja? Hvað veldur öllu þessu? Eru það lögin? Er það framkvæmdin? Um það viljum við fá skýr svör fyrir 1. febrúar á næsta ári.

Við boðum ekki lögregluríki né heldur persónunjósnir, við biðjum um gagnsætt og skilvirkt skattakerfi en umfram allt réttlátt skattakerfi.

Virðulegi forseti. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir skipan níu manna nefndar með einum fulltrúa frá áðurgreindum aðilum. Þar með má segja að flest þau samtök og sérfræðingar er hagsmuna eiga að gæta, beinna eða óbeinna, komi að málinu og ætti ekki að þurfa frekari skýringa við. Hins vegar er nefndinni ætlað að hafa á sínum snærum starfsmann og jafnframt að kalla til sín ýmsa aðila er gagn má hafa af.

Virðulegi forseti. Markmið þeirrar þáltill. er hér liggur fyrir er að efla annars vegar skattaskil til ríkis og sveitarfélaga þannig að rekstur velferðarkerfis okkar verði styrktur frekar í sessi. Þá er ekki síðra markmið að leita leiða til að gera skattalöggjöf á Íslandi réttlátari en nú virðist vera. Með samþykki þessarar þáltill. gefst hv. alþm. kostur á að leggja sitt af mörkum til úrbóta á því sem kalla má umdeilt og óréttlátt skattkerfi. Svonefnt skattasvindl og óréttlát innheimta skatta er dauðans alvarlegt mál. Ranglæti og óheilindi á þessu sviði grefur um sig í þjóðarvitundinni og heggur um leið nærri rótum þjóðfélagsins. Það er von mín að verði tillagan samþykkt megi Alþingi fá ábendingar hæfustu einstaklinga um leiðir til að koma eðlilegri skipan á þessi mál. Þá reynir á pólitískan vilja hins háa Alþingis. Ávinningurinn er augljós. Ég nefni nokkur atriði.

Ríki og sveitarfélög gætu náð til sín þeim tekjum sem þeim ber samkvæmt gildandi lögum og um leið styrkt rekstur sinn á öllum sviðum og þar með skapað skilyrði fyrir bættum efnahag og þjónustu við þegna landsins. Skattalöggjöfin gæti orðið réttlátari og um hana væri ríkari sátt en við þekkjum í dag. Siðferði á þessu sviði er eitt brýnasta verkefni okkar með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í huga. Undanskot sumra fyrirtækja á sviði skatta hefur áhrif á samkeppnishæfni annarra. Raunhæfar tillögur nefndarinnar um skilvirkari innheimtu jafnar þann aðstöðumun.

Herra forseti. Að þáltill. þessari standa þingmenn allra flokka. Ég tel það vera teikn um þverpólitíska samstöðu og jafnframt að það feli í sér pólitískan vilja hv. alþm. til að bæta skattkerfi okkar með réttlæti og jöfnuð í huga. Hér er um hagsmuni einstaklinga sem þjóðar að ræða.

Ég leyfi mér því að vonast til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og til hv. efh.- og viðskn.