Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:18:18 (162)

1995-10-10 15:18:18# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir efni þeirrar tillögu sem er rædd í þingsölum. Það er mjög brýn nauðsyn á bættri þjónustu við sjúklinga og þá sem þurfa að nýta sér þjónustu heilbrigðiskerfisins. Hvort það er umboðsmaður eða trúnaðarmaður finnst mér ekki skipta svo miklu máli en sjúklingar, aldraðir og fatlaðir sem þurfa á samskiptum við velferðarkerfið að halda þurfa meiri aðstoð en þeir fá í dag.

Félagsráðgjafar, sem hafa verið í þessu þjónustuhlutverki á sjúkrastofnunum, eru allt of fáir og þeir starfa ekki á heilsugæslustöðvum. Tíðar breytingar í velferðarkerfinu á þeim reglum sem gilda, hið flókna kerfi sem menn búa við í velferðarþjónustunni gerir það að verkum að það verður að aðstoða fólk þegar það hefur misst starfsgetuna til þess að afla sér upplýsinga og ná þeim rétti sem þeir eiga.

Oft hefur verið sagt um velferðarkerfið að til þess að geta nýtt sér þann rétt sem er fyrir hendi í kerfinu þurfi menn að vera fullfrískir þannig að umræðan, sem hefur reyndar komið áður fram, er nauðsynleg. Þeir sem missa heilsuna og eru á sjúkrastofnunum þurfa á velferðarkerfinu að halda um framfærslu og þess vegna þurfa þeir að þekkja kerfið til þess að vita hvert þeir eiga að leita.

Það kemur fram í greinargerð með málinu að landlæknisembættið tekur við kvörtunum vegna samskipta við sjúkrastofnanir en það er hægt að kvarta víðar og það sýnir hversu flókið og ruglingslegt þetta kerfi er. Hægt er að kvarta til tryggingaráðs yfir því hvernig meðferð málaleitan fólks fær hjá Tryggingastofnun, t.d. ef er fólki synjað um ákveðnar bætur eða fyrirgreiðslu hjá stofnuninni. Þær kvartanir hafa líka aukist mjög mikið og ýta undir það sjónarmið sem fram hefur komið hér að nauðsyn er á þjónustuaðilum sem þessum fyrir sjúklinga.

Kvartanir voru fyrst settar í lög árið 1990 og það ár barst 31 kvörtun til tryggingaráðs en þeim hefur sífellt fjölgað og árið 1994 bárust Tryggingastofnun 268 kvartanir frá viðskiptavinum stofnunarinnar. Og það sem af er þessu ári, til 6. okt. sl., hafa 247 kvartanir borist til Tryggingastofnunar.

Einnig er hægt að setja fram kvartanir vegna meðferðar á sjúkrastofnunum, það er til sjúkratrygginganna ef menn telja að þeir hafi orðið fyrir slysi eða mistökum á sjúkrastofnun, sem kallað er meint slys eða mistök á sjúkrastofnun Frá 1990--1995 hafa 150 slíkar kvartanir borist sjúkratryggingadeild og það sem af er þessu ári hafa slíkar tilkynningar verið 36. Bara þessar upplýsingar sýna hversu mikil nauðsyn er á því að sjúklingar hafi málsvara inni á þessum stofnunum, hvort sem er á sjúkrastofnunum eða á heilsugæslustöðvum. Það verður að bæta þjónustu við þá sem minna mega sín og þurfa að notfæra sér heilbrigðiskerfið.

Vegna þeirrar umræðu, sem varð áðan um áhugaleysi stjórnarþingmanna á málefnum sem stjórnarandstaðan er að vekja athygli á í þingsölum, vil ég að það komi fram að inni í þingsalnum núna er enginn hv. þm. úr flokki hæstv. heilbrrh. og aðeins tveir úr hinum stjórnarflokknum þannig að það er ástæða til þess að vekja athygli á þessu. Það þarf að tryggja að heilsubrestur komi ekki í veg fyrir að þjóðfélagsþegnar geti nýtt sér þau úrræði og þann rétt sem þeir eiga samkvæmt gildandi lögum og þess vegna vona ég að tillagan fái góða umræðu í heilbr.- og trn. og málið fái vonandi afgreiðslu á þessu þingi.