Umboðsmenn sjúklinga

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:30:37 (164)

1995-10-10 15:30:37# 120. lþ. 6.8 fundur 25. mál: #A umboðsmenn sjúklinga# þál., MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með flutning þessarar tillögu sem er svipaðs efnis og frv. sem Kvennalistinn hafði flutt hér áður. Alltaf hefur verið nauðsyn á því að annaðhvort upplýsingafulltrúi eða umboðsmaður, hvort nafnið sem yrði fyrir valinu, væri ráðinn til starfa. Heilbrigðiskerfið og tryggingakerfið eru svo flókin og illskiljanleg. Ég hef reynt það á undanförnum árum að nægjanlega mikið álag er á t.d. foreldra langtímaveikra barna og fatlaðra við að þurfa að fást við sjúkdóma og erfiðleika ýmsa, t.d. fjárhagslega, þó ekki bætist við illskiljanlegt tryggingakerfi þar sem starfsmenn vísa hver á annan til að leysa úr spurningum sem eru einfaldar en verða flóknar þegar farið er með þær í Tryggingastofnun ríkisins og þaðan vísað á svæðisstjórn um málefni fatlaðra og svo til baka aftur. Þetta eru reynslusögur sem fjöldi fólks getur sagt frá.

Ég er sammála því að það er ekki eðlilegt að landlæknisembættið eigi að gegna því hlutverki að taka á móti þessum kvörtunum. Ég hef hins vegar efasamdir um að slíkur umboðsmaður eða trúnaðarmaður ætti að vera launaður starfsmaður við sjúkrahúsin, falla undir heilbrrn., eða vera á launaskrá viðkomandi sjúkrahúss. Ég held að það væri jafnvel eðlilegra að þetta væri embætti sem heyrði ekki undir heilbrrn., að minnsta kosti ekki undir þá sjúkrastofnun sem því ætti að sinna.

Þegar hv. þm. var að flytja framsöguna og talaði um nauðsyn þess að til væri umboðsmaður sjúklinga var mér hugsað til fjárlagafrv. núna þar sem kemur fram að hugsanlega eigi að einkavæða sérhæfðar deildir sjúkrahúsanna. Við lestur þess þá flaug það í gegnum huga minn að nú væri kominn tími til að Kvennalistinn endurflytti það frv. sem hann áður hafði flutt um trúnaðarmann. Hafi einhvern tímann verið nauðsyn á því að gæta hagsmuna sjúklinga og aðstandenda er það núna ef hluti þessara ljótu hugmynda, sem eru æðimargar og birtast í frv. til fjárlaga, verða að veruleika. Það er nauðsynlegt að einstaklingur eða einstaklingar gegni því hlutverki að taka á móti kvörtunum og ekki síður að skýra út réttindi þeirra sjúklinga sem hlut eiga að máli, sérstaklega þegar um meint mistök eða slys er að ræða á sjúkrastofnunum. Við urðum áþreifanlega vör við það í heilbr.- og trn. á sl. ári þegar fulltrúar frá samtökum sjúklinga, sem töldu sig hafa orðið fyrir mistökum og/eða slysum við læknisaðgerðir, komu á fund nefndarinnar að fæstir höfðu gert sér grein fyrir því að þeir ættu nokkurn rétt fyrr en löngu eftir að heim var komið og þá var það oft vegna þess að viðkomandi aðili hafði verið erlendis og lesið um réttarstöðu sjúklinga þar. Hér er enga fræðslu að fá og ekki hægt að sækja þessar upplýsingar neins staðar. Félagsráðgjafar, sem eru á launaskrá hjá sjúkrahúsunum og eiga að sinna þessu starfi, hafa yfirleitt miklu meira en nóg að gera og geta ekki sinnt nema broti af þeim málum sem koma upp hverju sinni. En ég fagna því að þetta mál er tekið upp. Hins vegar hefði ég viljað sjá að þessi starfsmaður væri ótengdur sjúkrahúsunum eða þeim stofnunum sem um er verið að fjalla. Ég held að það væri eðlilegra að það væru engin bein tengsl þar á milli.