Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 15:57:00 (168)

1995-10-10 15:57:00# 120. lþ. 6.10 fundur 32. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak á þskj. 32. Flm. ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.``

Hér er um endurflutning á tillögu að ræða sem lögð var fram seint á síðasta þingi en varð eigi útrædd. Henni fylgir óbreytt greinargerð frá því sl. vor, enda er staða mála því miður sú, herra forseti, að ef eitthvað er, þá hefur ástandið enn versnað í Írak og allar sömu forsendur því fyrir hendi og sömu rök að mínu mati og okkar flm. fyrir því að taka ástand mála á þessum slóðum til skoðunar og viðskiptabannið eða a.m.k. framkvæmd viðskiptabannsins til endurskoðunar.

Það ber að taka það fram í byrjun að þessa tillögu ber ekki að skoða sem almennt þannig séð að við sem að henni stöndum séum andvíg því að beita stjórnmálalegum eða viðskiptalegum aðgerðum í alþjóðasamskiptum ef svo ber undir. Þvert á móti er tekið fram í greinargerð að auðvitað hafa slíkar aðgerðir iðulega skilað miklum árangri og væntanlega er þar nærtækast og einna stærst að nefna þátt viðskiptahindrana og pólitískrar einangrunar í því að ráða niðurlögum hinnar illræmdu aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku. Um það deila fáir að pólitísk einangrun á alþjóðavettvangi og ákveðnar viðskiptahindranir áttu stóran þátt í því að knýja hvíta minni hlutann í Suður-Afríku til að láta af sinni illræmdu einangrunar- og aðskilnaðarstefnu.

Sömuleiðis er það alveg ljóst að það er nauðsynlegt að kappkosta að beita friðasamlegum aðferðum við lausn deilumála á alþjóðavettvangi. Tillagan er því enn síður innlegg í þá átt að við teljum að slík deilumál beri fremur að leysa með vopnavaldi heldur en með stjórnmálalegum og friðsamlegum aðgerðum. En þetta breytir ekki hinu að vaxandi umræða er nú um það að beiting slíkra viðskiptalegra aðgerða verði á hverjum tíma að samræmast viðurkenndum mannúðarsjónarmiðum og mannúðarsamningum. Hið alþjóðlega samfélag geti ekki horft aðgerðarlaust upp á það að afleiðingarnar af beitingu slíkra tækja, aðgerða eða ráðstafana eða hvað við kjósum að kalla það eins og viðskiptabann eða viðskiptaþvinganir eru, slíkar aðgerðir brjóti í bága við eða gangi gegn yfirlýstum og samþykktum markmiðum um mannréttindi og viðurkenndum mannúðarsjónarmiðum. Og það er í þeim anda sem þessi tillaga er flutt og leggur það til að íslensk stjórnvöld taki það mál upp á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir endurskoðun á málinu í því samhengi.

Það er ljóst, herra forseti, að alveg frá því að Persaflóastríðinu lauk hafa verið að koma fram upplýsingar um skelfilegt ástand mála í Írak. Það er ljóst að lífskjör almennings, a.m.k. þess hluta almennings sem lakast er settur, eru afar bágborin og aðstæður allar hinar hörmulegustu. Og þar fer margt saman, langvarandi vígbúnaðarkapphlaup, harðstjórn þar sem mikil misskipting hefur viðgengist, langvinnur styrjaldarrekstur því að næst á undan Flóastríðinu stóðu Írakar í langvinnri og blóðugri styrjöld við nágranna sína, Írana, og síðan hefur alþjóðlegt viðskiptabann, nánast algert viðskiptabann á landið í kjölfar Flóastríðsins leitt til þess að í landinu er mikill vöruskortur og í raun er efnahagskerfi landsins hrunið. Því miður er það svo að fórnarlömb þessa ástands, enn sem komið er a.m.k., eru ekki þeir sem þetta var ætlað að beinast gegn, þ.e. valdhafar í landinu. Harðstjórn landsins, harðstjórn Saddams Husseins virðist ef nokkuð er fastari í sessi en áður. Það er almenningur og ekki síst börn í landinu sem eru hin eiginlegu fórnarlömb. Og þetta sést best á því að ríkisstjórn Saddams Husseins hefur enn sem komið er þverskallast með ýmsum hætti við því að veita fulltrúum Sameinuðu þjóðanna fullnægjandi upplýsingar um umsvif sín á sviði kjarnorku- og eiturefnaiðnaðar eða hernaðar.

Það er líka ljóst að þeim takmörkuðu matvælum og fjármunum sem til skipta eru í landinu er alls ekki ráðstafað með það að leiðarljósi að lina þjáningar þeirra sem lakast eru settir, heldur hefur yfirstéttin í landinu og herinn forgang að matvælum, lyfjum og eldsneyti og afleiðingarnar eru enn meiri hörmungar almennings. Við slíkar aðstæður og ég tala nú ekki um þegar þær hafa ríkt um árabil í einu landi, þá verða menn að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og ég held að siðferðisleg ábyrgð hins alþjóðlega samfélags að horfa upp á þetta ástand vara öllu lengur sé að verða óbærileg. Menn verði þá að horfast í augu við það að þarna séu saklaus fórnarlömb að þjást og ekki bara þjást heldur láta lífið svo tugum þúsunda og jafnvel hundruðum þúsunda skiptir. Það má því kannski segja að viðskiptabannið sem slíkt sé að verða fullt eins mannfrekt og styrjaldarreksturinn sjálfur var áður.

Þá hljóta að koma til skoðunar aðgerðir sem mundu viðhalda stjórnmálalegum þrýstingi og í einhverjum mæli kannski efnahagslegum þrýstingi á Írak og íröksk stjórnvöld en losa þannig um hömlur og a.m.k. opna möguleika á matvæladreifingu og öðru slíku til landsins þannig að þar þyrftu menn ekki að líða beina hungursneyð eða láta lífið sökum þess að lyf og læknishjálp eru ekki fyrir hendi í landinu.

Hvað Íslendinga varðar, þá er það þannig að við berum sameiginlega ábyrgð á ástandi mála með öðrum þjóðum heimsins sem fullgilt hafa ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um viðskiptabann og það höfum við gert. Sú auglýsing sem í gildi er um þetta efni af Íslands hálfu og ég hef undir höndum er dags. 28. apríl 1992. Haldi einhverjir annað er best að eyða þeim misskilningi, en við Íslendingar berum fulla pólitíska ábyrgð í samfélagi þjóðanna á þessu ástandi því að við höfum fyrir okkar leyti fullgilt með auglýsingu viðskiptabannið á Írak þó svo að það kunni litlu að skipta hvað varðar bein viðskipti milli landanna. Þótt þau hafi ekki verið umtalsverð, hvorki á fyrri tíð og enn síður nú upp á síðkastið, þá berum við í stjórnmálalegu tilliti ábyrgðina til jafns við aðra í þeim skilningi að við höfum fullgilt þessa sérstöku ályktu og berum þar af leiðandi á henni ábyrgð.

Ég tel líka, herra forseti, að við eigum samkvæmt hefð okkar að leggja áherslu á friðsamlegar aðgerðir og mannúðarstefnu í alþjóðastjórnmálum og ég held að endurskoðun viðskiptabannsins á Írak og reyndar þessara mála í heild á alþjóðavettvangi séu einmitt slíkt verkefni. Þótt hér sé aðallega til umræðu það neyðarástand sem nú er í Írak af þessum ástæðum, þá er síður en svo þar með sagt að ekki sé ástæða til að skoða stöðu fleiri sambærilegra mála. Það má vissulega velta því fyrir sér hvort viðskiptabönn sem nú er verið að reyna að beita á Balkanskaga séu að skila tilætluðum árangri, hvort viðskiptaþvinganir gegn Líbýu séu hinu alþjóðlega samfélagi til mikils sóma svo að ekki sé nú talað um áratuga langt viðskiptabann Bandaríkjamanna á Kúbu sem staðið hefur þeirri þjóð fyrir þrifum og heft framþróun í landinu um áratuga skeið. En eins og menn vita, þá var yfirgnæfandi meiri hluti allra utanríkisviðskipta Kúbu við stóra grannann í norðri, Bandaríkin, en á þau var klippt með viðstkiptabanni sem nú hefur varað um áratuga skeið og auðvitað haft afgerandi áhrif á þróun og framvindu mála í því landi. Þar er að vísu um tvíhliða deilu milli viðkomandi ríkja að ræða þannig að hið alþjóðlega samfélag er ekki ábyrgt með sama hætti og það er í þessu tilviki.

Herra forseti. Ég vona að þessi tillaga fái skjóta meðhöndlun í hv. utanrmn. Þetta er mál sem ekki þolir bið í þeim skilningi að vandinn brennur á saklausum fórnarlömbum á degi hverjum sem hér eru til umfjöllunar í þessari tillögu. Einhverjir kynnu að segja að það eigi ekki að vera og sé ekki endilega forgangsmál í íslenskum stjórnmálum að ræða hér um stöðu mála í Írak og viðskiptabann á Írak eða þá tillögu sem hér var til umfjöllunar næst á undan og varðar mótmæli við kjarnorkusprengingum Frakka ekki síst hinum megin á hnettinum í Suður-Kyrrahafi. En það er nú einu sinni svo að jafnvel þótt rödd okkar Íslendinga sé ekki mjög sterk og við höfum ekki umtalsverð áhrif í stjórnmálalegu eða viðskiptalegu tilliti til að breyta framgangi þessara mála, þá breytir það engu um siðferðislega skyldur okkar og siðferðislga ábyrgð sem fullvalda þjóðar í samfélagi slíkra. Okkur ber að taka svona mál til skoðunar, hafa á þeim skoðun og taka afstöðu í samræmi við það og það leysir okkur ekki undan siðferðilegum skyldum í alþjóðastjórnmálum þó að við séum smáríki. Þess vegna held ég að það sé jafnrétt og skylt að taka mál af þessu tagi hér til umræðu og umfjöllunar á Alþingi Íslendinga eins og það er á þingum hinna stærri þjóða sem meiru kannski ráða í krafti stærðar sinnar um framvindu mála.

Ég leyfi mér því að vona að lokum, hæstv. forseti, að hv. utanrmn. þó það fari lítið fyrir henni í þingsalnum um þessar mundir eins og reyndar hv. þingmönnum yfirleitt þó að á því séu ánægjulegar undantekningar sýnist mér úti í salnum, þá viti það ekki á það að þessi mál muni endilega mæta skilningsleysi þegar þau koma til meðferðar í hv. utanrmn. og gjarnan vildi ég sjá að þessar tillögur fengju þar umfjöllun og afgreiðslu á allra næstu vikum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.