Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 16:38:46 (173)

1995-10-10 16:38:46# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sl. þrjú ár hefur Alþjóðasamband um geðheilbrigði með stuðningi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar beitt sér fyrir því að 10. okt. væri alþjóðadagur geðheilbrigðis um allan heim. Fjölmörg lönd í flestum heimsálfum hafa tekið áskorun samtakanna og lýst því yfir að 10. okt. væri alþjóðadagur geðheilbrigðis í viðkomandi landi. Ísland hefur ekki verið þátttakandi formlega í þessu átaki fyrr en nú. Ég hef undirritað yfirlýsingu samtakanna um að 10. okt. 1995 sé alþjóðadagur geðheilbrigðis á Íslandi. Var prófessorum í geðlækningum, Geðlæknafélagi Íslands og Geðverndarfélagi Íslands falið að annast undirbúning þessa dags. Í yfirlýsingunni sem send var fjölmiðlum er vitnað til þess að hugtakið heilbrigði felur ekki aðeins í sér líkamlegt heilbrigði heldur einnig heilbrigði hugar og tilfinninga. Það sem stefna ber að er samkvæmt yfirlýsingunni að eftirfarandi atriði séu viðhöfð: Að auka skilning almennings á geð- og tilfinningatruflunum og efla sem best heilbrigði geðs og tilfinninga. Að skapa virðingu fyrir réttindum þeirra sem greindir eru með geð- og tilfinningatruflanir. Að efla forvarnastarf sem hefur það að markmiði að draga úr hættu á tilfinningatruflunum hjá þjóðfélagshópum sem eru viðkvæmastir fyrir slíkri röskun. Að bæta gæði og auka framboð geðheilbrigðisþjónustunnar um allan heim.

Í íslenskri heilbrigðisáætlun, sem samþykkt var á Alþingi árið 1991, er rætt um geðheilbrigði með umræðu um sérfræðiþjónustu sérstaklega. Þar segir svo í 24. gr. m.a.: Sérstök áhersla skal lögð á að geðheilbrigðisþjónusta verði veitt á heilsugæslustöðvum og menntun heilsugæslulækna og hjúkrunarfræðinga miðist við að þeir geti sinnt geðsjúklingum. Gera skal ráð fyrir að geðdeildir í Reykjavík og á Akureyri taki að sér þjónustuhlutverk fyrir ákveðið heilsugæslusvæði. Áhersla verði lögð á að sjúklingum með langvarandi geðsjúkdóma fái inni á langlegudeildum eða sambýlum með öðrum sjúklingum og njóti þar geðlæknaþjónustu. Aldraðir og geðsjúklingar sem þurfa á dvöl að halda á stofnunum verði vistaðir eins og unnt er á almennum hjúkrunardeildum.

Á heilbrigðisþingi árið 1995, sem haldið var í lok janúar, var m.a. fjallað um geðheilbrigði og mikilvægi þess að færa sér í nyt forvarnir á því sviði jafnt sem öðrum sviðum heilbrigðis. Þar kom fram að fagfólk í heilbrigðisþjónustunni hefur vaxandi áhyggjur af andlegri líðan þjóðarinnnar og þá sérstaklega barna og unglinga og ungs fólks. Heilbrigðisþing er heilbrrh. til ráðgjafar og ég hef skipað nefnd til að vinna úr þeim fjölmörgu tillögum sem fram komu á heilbrigðisþingi og mun hún skila tillögum sínum til mín fljótlega.

Allt þetta er rakið hér til að sýna að víða mætti betur gera í geðheilbrigðisþjónustunni og þörf er að því að vinna að þeim markmiðum sem Alþjóðasamband um geðheilbrigði leggur til að verði höfð að leiðarljósi í dag og í framtíðinni. Áherslurnar eru þannig að mikilvægt er að sem flestir komi að málinu. Þannig má benda á að fyrsta markmiðið, að auka skilning almennings á geð- og tilfinningatruflunum, er markmið sem næst ekki nema með öflugum stuðningi fjölmiðla og jákvæðri og opinskárri umræðu um þessi mál. Heilbr.- og félmrn. hafa nýverið efnt til samstarfs til að skoða betur hagi þeirra sem búa við einhverja atferlistruflun og eru ekki á stofnunum. Hér eftir fara svör við þeim fjórum spurningum sem lagðar hafa verið fram um geðþjónustu við börn og unglinga og ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er víða úrbóta þörf, það er rétt hjá hv. þm.

Spurt er hvernig ráðherra mun bregðast við ástandi á barna- og unglingageðdeild. Deildin hefur glímt við mikinn vanda undanfarin ár þar sem þörfin á þjónustu hennar hefur verið meiri en deildin hefur getað sinnt svo vel sé. Bent hefur verið á að fjöldi legurýma er meiri en víða en að sama skapi hefur ekki reynst kleift að veita fullnægjandi göngudeildarþjónustu og stuðning við börn og unglinga og fjölskyldur þeirra heima. Ræðst þetta að nokkru leyti af landfræðilegum aðstæðum á Íslandi þar sem oft getur verið um langan veg að sækja í slíka þjónustu og því nauðsynlegt að fá innlögn fyrir einstaklinginn. Til að tryggja að deildin væri skipulögð á sem allra hagkvæmastan hátt og í samræmi við þá þörf sem er fyrir þjónustu hennar voru ráðnir til að gera ítarlega úttekt á þjónustunni nokkrir sérfræðingar, m.a. barnalæknir og doktor í félagsvísindum sem er rektor við norræna heilsuháskólann í Gautaborg. Í úttektinni er m.a. lagt til að göngudeildarstarfsemi verði aukin, legurýmum og legudögum verði fækkað og þar með fáist möguleikar til að breyta skipulagi deildarinnar. Nú er verið að skoða þessa skýrslu sem er nýkomin og mun hún væntanlega hafa áhrif á þróun þessarar þjónustu.

Spurt er að því hvort fé til þjónustunnar á barna- og unglingageðdeildinni sé eyrnamerkt. Ekki er um sérstaka fjárveitingu að ræða til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans heldur nýtir deildin að hluta fjármagn sem veitt er til Ríkisspítalanna. Það verður svo áfram. En ég vil benda á að það er mikilvægt að efla þessa einingu og tengja hana betur öðrum deildum ríkisspítalanna.

Ég get ekki svarað fleiri spurningum í þessari umferð en vonandi kemst ég að hér á eftir til að svara þeim.