Staða geðverndarmála

Þriðjudaginn 10. október 1995, kl. 17:05:17 (182)

1995-10-10 17:05:17# 120. lþ. 6.91 fundur 31#B staða geðverndarmála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því í ræðu minni áðan, hv. form. heilbr.- og trn. hefur trúlega tapað af því --- hann kom of seint --- hvernig væri unnið að undirbúningi þessara mála. (Gripið fram í: Þú svaraðir ekki spurningunni). Ég er að svara spurningum, hv. þm. Og það er verið að undirbúa endurreisn barna- og unglingageðdeildarinnar. En þróun þessara mála er þannig almennt í heilbrigðisþjónustunni að það á líka að veita meiri þjónustu heima fyrir. Við erum að fækka innlögnum og veita meiri þjónustu heima fyrir. Þess vegna var mjög gott það innskot sem kom áðan frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það hefur heldur ekki verið nógu gaumur gefinn að því að þeir einstaklingar sem þurfa á aðstoð að halda og ekki lagðir inn á sjúkrahús fái þá fyrirgreiðslu sem þeir eiga samkvæmt lögum.

Ég vona að umræðan verði til þess að við tökum höndum saman og gerum þetta að forgangsverkefni og ég held að það sé besta svarið við þeim spurningum sem hafa komið fram.

Við vitum að það er þörf á úrbótum og ég vona að við vinnum að því saman. Það er ekki eyrnamerkt fjármagn til þessara deilda frekar en annarra deilda en við skiljum þörfina á því að þarna komi meira fjármagn en hefur verið.

Og ég ætla að ljúka máli mínu með þessum orðum.