Fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 13:43:57 (185)

1995-10-11 13:43:57# 120. lþ. 8.1 fundur 4. mál: #A fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Spurt er: ,,Hvenær er áætlað að rekstur Fæðingarheimilis Reykjavíkur hefjist að nýju eftir lokun og hvaða áform eru um rekstur heimilisins í framtíðinni?``

Svarið er: Fyrri hluta ársins 1995 voru þrír kostir í boði fyrir fæðandi konur í Reykjavík. Þær gátu fætt við hinar hefðbundnu aðstæður í fæðingardeild kvennadeildar Landspítalans, á Fæðingarheimili Reykjavíkur eða á MFS-einingu kvennadeildar. MFS-skammstöfunin stendur fyrir meðganga, fæðing, sængurlega. Við eininguna starfa ljósmæður og sinna konum í eðlilegri meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.

Nýting á Fæðingarheimili Reykjavíkur var fremur lítil fyrri hluta ársins. Lokað var vegna sumarleyfa hinn 16. júlí sl. og síðan ákveðið að halda lokuninni áfram út þetta ár vegna sparnaðar.

Seinni hluta ársins hafa gefist tveir kostir fyrir fæðandi konur, þ.e. MFS-eining og fæðingardeildin. Verið er að endurskoða allan rekstur kvennadeildar Landspítalans. Ég hef verið að kanna ýmsar leiðir til að tryggja að konum gefist áfram kostur á að velja. Verið er að skoða hvort MFS-eining geti flutt í Fæðingarheimili Reykjavíkur. Áætlað er að mæðraeftirlit kvennadeildar flytji á fyrstu hæð Fæðingarheimilisins og á hluta annarrar hæðar. Með þessu er húsnæði Fæðingarheimilis Reykjavíkur fullnýtt til þjónustu fyrir verðandi foreldra. Jafnframt þessari breytingu velta menn fyrir sér möguleikum á því að skipta sængurkvennadeild kvennadeildar annars vegar í létta deild fyrir konur sem hafa fætt eðlilega og þyngri deild sem sinnti konum sem farið hafa í keisaraskurð, ættu erfiða fæðingu að baki eða glímdu við læknisfræðileg vandamál.

Markmið með öllum þessum breytingum er að rekstrarkostnaður verði innan ramma fjárlaga og að þjónustan verði fjölbreytt gæðaþjónusta.

Síðan er spurt: Telur ráðherra eðlilegt að allar konur á höfuðborgarsvæðinu fæði börn sín á hátæknisjúkrahúsi? Svarið er: Eins og fram hefur komið hefur íslenskum konum staðið til boða að fæða á svokallaðri MFS-einingu sem er ekki hluti af hátækniþjónustu enda þótt hún sé staðsett á hátæknisjúkrahúsi. Bent skal á að á fæðingardeild Landspítalans fara ekki eingöngu fram hátæknifæðingar svokallaðar. Margs konar þjónusta er í boði og er markmiðið að hver fæðandi kona velji sjálf hvaða leið hún vill fara í fæðingu. Undirbúningur MFS-einingarinnar hófst fyrir um það bil tveimur árum. Fyrstu konurnar komu til skráningar og mæðraeftirlits í júní 1994, en fyrsta MFS-fæðingin var í nóvember á síðasta ári. Margar konur hafa lýst ánægju sinni með þá leið sem hér er verið að þróa. Þær telja sig hafa fengið nýjan valkost við fæðingu og búa við mikið öryggi.

3. Hvað getur fæðingardeild Landspítalans sinnt mörgum fæðingum á ári? Árið 1993 fóru fram 3.129 fæðingar á fæðingardeild Landspítalans. Gert er ráð fyrir að með þeim breytingum sem nú er verið að gera á sængurlegu geti deildin sinnt fleiri fæðingum. Er þar átt við styttingu sængurlegunnar þar sem konur dvelja frekar heima í sængurlegu en áður og aukningu á heimaþjónustu ljósmæðra. Talið er að deildin geti annað 3.200--3.400 fæðingum á ári.

4. Hver hefur þróunin verið hvað varðar fjölda fæðinga á fæðingardeild Landspítalans undanfarin ár? Um stöðuga fjölgun fæðinga á fæðingardeild Landspítalans hefur verið að ræða undanfarin ár. Á það bæði við um fjölda fæðinga á deildinni og fjölda fæðinga sem hlutfall af öllum fæðingum á Íslandi. Má sem dæmi nefna að árið 1980 voru fæðingar 2.248 á fæðingardeildinni eða 49,9% fæðinga á Íslandi. Árið 1990 voru þær 2.784 eða 58,6% fæðinga á Íslandi, en árið 1994 voru fæðingarnar 2.883 og voru þá orðnar 65,3% allra fæðinga á Íslandi.

5. Hversu margar sængurkonur hafa þurft að liggja á göngum fæðingardeildar Landspítalans frá því að Fæðingarheimili var lokað? Svarið er: Engin.

6. Hversu margar konur hafa nýtt sér hina nýju MFS-þjónustu fæðingardeildar Landspítalans og telur ráðherra að slík þjónusta eigi heima á hátæknisjúkrahúsi? 6. október sl. hafði 201 kona skráð sig í MFS-þjónustu en 12 konur í viðbót hafa pantað slíka þjónustu. 91 fæðing hefur nú þegar átt sér stað á MFS-einingu, en eins og komið hefur fram áður er nú verið að kanna hvort hagkvæmt reynist að flytja MFS-eininguna yfir í húsnæði Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Svo virðist sem konum þyki þessi kostur ákjósanlegur og virðist nálægðin við þær deildir Landspítalans sem bjóða upp á hátækniþjónustu ekki hafa nein neikvæð áhrif á afstöðu kvenna. Með hinni nýju MFS-einingu er leitast við að mæta væntingum og óskum þeirra kvenna er kjósa að fæða börn sín við heimilislegar aðstæður og án þess að gripið sé til læknisfræðilegra úrræða við fæðinguna.

Ég læt þessu lokið í bili þó svarið hafi verið lengra, en tíminn er búinn.