Fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 13:49:33 (186)

1995-10-11 13:49:33# 120. lþ. 8.1 fundur 4. mál: #A fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Af svörum hæstv. ráðherra má ráða að ákvörðun hafi verið tekin um lokun Fæðingarheimilisins til áramóta. Hér er um mjög misráðna ákvörðun að ræða að minni hyggju. Ég vil rifja það upp að opnun Fæðingarheimilisins á sínum tíma byggði í fyrsta lagi á því að auka valkosti fæðandi kvenna og í annan stað var einnig um hagræðingarátak að ræða, þ.e. gefa kost á ódýrari úrlausnum. Þetta er ígildi sjúkrahótels ef svo má segja, bæði um að ræða valkost fyrir konur sem taka þá ákvörðun að fæða sín börn á þessum stað og einnig hitt að þarna gefst kostur á því að konur sem fæða á kvennadeild Landspítalans geti á öðrum eða þriðja degi fært sig um set í öllu heimilislegra umhverfi og lokið þar sinni legu. Þar er minna lagt upp úr sérfræðikostnaði, þarna er reksturinn ódýrari á hvert rúm og þess vegna hygg ég að þegar upp verði staðið, hafi ákvörðun hæstv. ráðherra um að loka Fæðingarheimilinu kostað ríkissjóð mun meiri peninga heldur en hitt, þ.e. ef þessi valkostur hefði verið til staðar áfram.