Fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 13:51:01 (187)

1995-10-11 13:51:01# 120. lþ. 8.1 fundur 4. mál: #A fæðingarheimili Reykjavíkur og þjónusta við sængurkonur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin við spurningum mínum. Það kom ekki greinilega fram í svörum hæstv. ráðherra hvenær Fæðingarheimilið yrði opnað aftur, en ég fagna því ef það tekst að opna það fyrr en um áramót og það verði boðið upp á þessa þjónustu sem nú er á Landspítalanum sem kallast MFS-þjónusta. En það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra segir að nýting hafi verið lítil á Fæðingarheimlinu vegna þess að þegar Fæðingarheimilið var opnað aftur, þá var gert ráð fyrir að þar yrðu um 300 fæðingar en þegar því var lokað í sumar höfðu þegar átt sér stað þar 200 fæðingar þannig að það er ekki rétt að þar hafi verið lítil nýting miðað við það sem áætlað var.

Varðandi sængurkonur á göngunum á fæðingardeild Landspítalans, þá er það ekki rétt að engin sængurkona hafi þurft að liggja úti á gangi. Ég veit til þess að konur hafa þurft tímabundið að liggja á göngunum þegar álagið hefur verið sem mest á þeim núna þegar deildir voru lokaðar og á meðan Fæðingarheimilið er lokað. Þannig að það er ekki rétt. Og ef það hefur verið minna um það, þá er það e.t.v. vegna þess að þær eru útskrifaðar fyrr en ella, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. heilbrrh., sængurlegan er orðin styttri. Ég er sannfærð um það að það er hægt að reka Fæðingarheimilið á hagkvæman hátt og tel ástæðu til þess að hjúkrunarfræðingum eða ljósmæðrum eða fagfólki verði gefinn kostur á að reka heimilið sem verktakar. Og ég er sannfærð um að þeir sem hafa áhuga á að fylgja þessari hugmyndafræði eru tilbúnir til að gera það.

Ég vil aftur minna á það að stór hluti fæðinga er eðlilegur og þeim konum á að gefast kostur á því að fæða við heimilislegar aðstæður eins og á Fæðingarheimilinu.