Réttarstaða barna með langvinna sjúkdóma

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:03:31 (191)

1995-10-11 14:03:31# 120. lþ. 8.3 fundur 38. mál: #A réttarstaða barna með langvinna sjúkdóma# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst vegna þess að sú þáltill. sem hér hefur verið nefnd var á sínum tíma flutt af mér og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og við höfum fylgst mjög vel með því nefndarstarfi sem átti sér stað og þeim tillögum til úrbóta sem síðan hafa komið frá ráðuneytinu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau viðbrögð sem hún hefur sýnt síðan hún tók við þessu ráðuneyti. Ég hef átt samtöl við fulltrúa flestra þeirra foreldrasamtaka sem þarna eiga hlut að máli og mér sýnist að það sé ánægja á flestum sviðum með að tekið verði á þessum málum. Þau dreifast að vísu yfir á fleiri ráðuneyti því að hluti af þessum málum fellur að því er mér skilst undir endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra.

Mig langar líka til að þakka Alþfl. sérstaklega fyrir það að hleypa inn af og til varamönnum sem sýna heilbrigðismálum svona mikinn áhuga og hefði gjarnan viljað sjá samsvarandi áhuga á síðasta kjörtímabili.