Réttarstaða barna með langvinna sjúkdóma

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:05:08 (192)

1995-10-11 14:05:08# 120. lþ. 8.3 fundur 38. mál: #A réttarstaða barna með langvinna sjúkdóma# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir greinargóð svör um það sem verið er að framkvæma í málefnum langsjúkra barna innan heilbrrn. og að hún skuli hafa látið þetta mál fá þann forgang og stuðlað að því að þarna hafi skapast samfella í þeirri vinnu sem fram fór og það er ánægjulegt að sú vinna muni halda áfram.

Það voru samt sem áður einstaka spurningar sem ráðherra svaraði ekki af þeim sem ég beindi til hennar. Ég fagna því sérstaklega að það eigi að leggja fram frv. um réttindi sjúklinga, það er þarft mál og gott. Ef það verður samþykkt á yfirstandandi þingi sé ég ekki við lestur fjárlagafrv. að mikið svigrúm skapist til þess að bæta úr málum í þá veru sem nefndin hefur lagt til að verði gert. Ég beindi sérstakri spurningu til hæstv. ráðherra um það hvort vænta megi að ríkisstjórnin leggi í það sérstakt fjármagn á næsta ári að bæta úr réttarstöðu þessara barna.

Auk þess hefði ég gjarnan viljað heyra um það skýrari svör hvort hæstv. félmrh. hefur haft áform um það í samráði við heilbrrh. að hefja vinnu við þessa endurskoðun á félagslegum réttindum þessara barna því vissulega tengist það fleiri ráðuneytum en heilbrrn. Síðast en ekki síst hefði ég gjarnan viljað heyra svör um það hvort ráðherra hefði áform um í samræmi við það nefndarálit sem liggur fyrir að breyta réttarstöðu þessara langveiku barna á þann veg að þau verði hugsanlega metin til örorku þannig að þau njóti og muni koma til með að njóta réttinda sem fötluð börn njóta.