Geymsla forngripa á byggðasöfnum

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:12:24 (195)

1995-10-11 14:12:24# 120. lþ. 8.6 fundur 28. mál: #A geymsla forngripa á byggðasöfnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: Hvaða reglur gilda um það hvenær heimilt er að geyma forngripi í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni skv. 26. gr. þjóðminjalaga?

Samkvæmt þessari grein þjóðminjalaga eru allir forngripir, þ.e. lausar fornminjar 100 ára eða eldri, eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef kemur upp ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi hefur þjóðminjaráð úrskurðarvald. Engar ákveðnar reglur hafa verið mótaðar um það hvenær forngripir eru geymdir í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Einstaka safngripir úr safnkosti Þjóðminjasafns Íslands hafa verið lánaðir í lengri eða skemmri tíma á ákveðnar sýningar eða til safna. En eingöngu tvö dæmi eru þess að forngripir sem komið hafa upp við fornleifauppgrefti séu varðveittir annars staðar en í Þjóðminjasafni Íslands. Í menntmrn. er stefnt að því að móta reglur um þetta efni í samráði við starfsmenn þjóðminjavörslunnar.

Í öðru lagi er spurt: Telur ráðherra eðlilegt að styrkja starfsemi byggðasafna með því að heimila þeim geymslu á forngripum sem finnast í nágrenni þeirra?

Ekki er óeðlilegt að starfsemi byggðasafna verði styrkt með því að heimila þeim þegar svo ber undir að geyma forngripi sem finnast í nágrenni þeirra. Þar yrði formlega um langtímalán á forngripum úr safnkosti Þjóðminjasafns Íslands til viðkomandi minjasafns að ræða.

Til þess að geta fengið forngripi til varðveislu þyrfti að setja byggðasöfnunum ákveðin og ströng skilyrði, t.d. um húsakost, sýningaraðstöðu og faglega getu þeirra til að annast slíka gripi sem margir hverjir eru þjóðargersemar.