Geymsla forngripa á byggðasöfnum

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:15:53 (197)

1995-10-11 14:15:53# 120. lþ. 8.6 fundur 28. mál: #A geymsla forngripa á byggðasöfnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., TIO
[prenta uppsett í dálka]

Tómas Ingi Olrich:

Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og ráðherra fyrir svörin. Ég vil í þessu sambandi minna á ályktun þingsins um safn þjóðminja á Hólum sem var samþykkt fyrir nokkrum árum og undirstrika það í örstuttu máli að hlutur þjóðminja í þróun og starfsemi safna úti á landi hefur ekki verið nógu mikill og þar af leiðandi ekki nógu mikill í þróun ferðaþjónustunnar í heild. Auk þess ber að geta þess að áhugi sveitarfélaga á safnastarfsemi hefur verið mjög mikill víða um landið og það væri því mjög skynsamlegt að heimila varðveislu þjóðminja á söfnum landsins, að gefnum skilyrðum að sjálfsögðu, til þess að virkja þennan áhuga sveitarfélaganna í þágu þjóðminjavörslu. Ég legg því áherslu á að ég tel að þetta sé bæði nauðsynlegur þáttur í almennri stefnumörkun í ferðaþjónustunni og einnig til þess að ýta undir virkari starfsemi í vörslu þjóðminja svo að hægt væri að virkja áhuga sveitarstjórnarmanna og landsbyggðarinnar í þessum efnum.