Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:26:10 (202)

1995-10-11 14:26:10# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Það er afar brýnt að ekkert komi fram sem tefji það að verkefnatilflutningur varðandi málefni fatlaðra geti átt sér stað með eðlilegum hætti til sveitarfélaganna. En því miður, virðulegi forseti, tel ég ástæðu til þess að ætla að sú stefnubreyting sem fram kemur nú í fjárlögum varðandi málefni fatlaðra geti haft veruleg áhrif á framvindu þessara mála og torveldað að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga í þessu máli. Það er verið að skerða framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra um 150 millj. kr. Það var samstaða um það hér á Alþingi 1991 þegar sú stefna var mörkuð að setja fleiri verkefni yfir á Framkvæmdasjóðinn, að setja það sem skilyrði að tekjur erfðafjársjóðs rynnu óskertar í sjóðinn. Nú hefur orðið veruleg breyting þar á. Við erum með biðlista af fötluðum, 500--600 manns, sem bíða eftir búsetuúrræðum. Þetta mun færast yfir á sveitarfélögin á sama tíma og verið er að skerða sjóðinn þannig að það er ástæða til að spyrja um það, hvort þessi stefnubreyting muni ekki hafa áhrif á framvindu þessara mála.