Tilraunasveitarfélög

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:30:59 (206)

1995-10-11 14:30:59# 120. lþ. 8.7 fundur 39. mál: #A tilraunasveitarfélög# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið og fagna því innilega að aukinn kraftur skuli hafa verið settur í þetta mál. Hins vegar er mér samt ekki fyllilega rótt eftir þau svör sem ég hef fengið. Ég hef til að mynda haft fregnir af því og hef mjög sterk rök fyrir því að Reykjavíkurborg muni ekki taka að sér þetta verkefni sem tilraunasveitarfélag 1. jan. nk. ef fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram á Alþingi, verður ekki breytt. Það eru alveg skýrar línur frá félagsmálayfirvöldum borgarinnar. Það þarf því að breytast mikið ef þetta verkefni á að verða að veruleika. Það sama gildir um félagsmálayfirvöld á Akureyri en þær fréttir koma þaðan að verði þetta frv. samþykkt á Alþingi í óbreyttu formi muni Akureyrarbær ekki taka við málefnum fatlaðra.

Ég vil einnig fá að nefna að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í málefnum fatlaðra á síðustu áratugum er uppbyggingu þar þó engan veginn lokið og því verður að gera nákvæma raunhæfa fjárhagsáætlun um það hvernig á að standa að áframhaldandi uppbyggingu. Um það þarf að nást góð samvinna milli ríkis og sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðra um það hvaða þjónustu eigi að flytja og hvaða fjármagn eigi að flytja. Það verður aldrei of oft undirstrikað að kostnaðarliðurinn má ekki gleymast, það verður að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna til að standa straum af auknum útgjöldum vegna nýrra verkefna. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hefur verið náð sátt við sveitarfélögin um það hvernig eigi að fjármagna framtíðaruppbyggingu sem er enn þá ólokið í þessum málaflokki og að lokum, hefur verið haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila í þessu brýna máli?