Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:37:59 (209)

1995-10-11 14:37:59# 120. lþ. 8.8 fundur 40. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi upplýsti eru í bráðabirgðaákvæði II í lögunum um málefni fatlaðra kveðið svo á að þau skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra og þau eru frá 19. maí 1992 --- með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem eru nr. 40 frá 1991.

Hugmyndin sem bjó að baki var sú að innan fjögurra ára frá gildistöku laganna yrði m.a. stefnt að því að auka ábyrgð sveitarfélaga um málefni fatlaðra. Í athugasemdum frv. var tekið fram að rétt þyki að þessu atriði verði sérstakur gaumur gefinn við endurskoðun laganna, m.a. með hliðsjón af þróun sveitarfélaga, einkum þeirri sameiningu sveitarfélaga sem kunni að eiga sér stað á tímabilinu. Þá hugsuðu menn sér að fjögur ár væri hæfilegur tími í þessu sambandi.

Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40 frá 27. mars 1991, segir að þau lög skuli endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Hugmyndin að baki var sú að rétt væri að meta reynsluna af þeim nýju lögum innan fimm ára gildistíma. Með undirbúning frv. til laga um málefni fatlaðra þótti rétt að endurskoðun þeirra laga yrði samferða endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum til bráðabirgða í lögunum um málefni fatlaðra og í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf endurskoðun beggja þessara laga að hefjast á fyrri hluta árs 1996.

Ég er þegar farinn að undirbúa endurskoðun þessara laga og er kominn í stellingar til að setja þá vinnu í gang en ég hef viljað doka að taka hitt skrefið fyrst því að þetta er tengt, þ.e. að sjá fyrir endann á reynslu sveitarfélaga, hvort að þær vonir sem ég bind við reynslusveitarfélagaverkefnið ganga upp áður heldur en farið er að ganga í hitt verkefnið. En að sjálfsögðu reyni ég að standa við þau ákvæði sem eru í þessum lögum og ég mun að sjálfsögðu leita víðtæks samráðs um málið við marga aðila.