Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:40:47 (210)

1995-10-11 14:40:47# 120. lþ. 8.8 fundur 40. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að það er mjög brýnt að fram fari samhliða endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra. Við höfum auðvitað bundið vonir við að hægt væri að efla lögin um félagsþjónustuna og koma á hér heilsteyptri félagsmálalöggjöf og hverfa frá sérlögum sem við höfum t.d. um málefni aldraðra og fatlaðra en ég sé ekki miðað við þá stöðnun sem mér finnst koma fram hjá ríkisstjórninni í þessum málaflokkum að það sé á næsta leiti.

Ég vil nota tækifærið af því að ég gat ekki gert athugasemd við ræðu hæstv. félmrh. áðan um fsp. um málefni fatlaðra að hæstv. ráðherra fór með villandi upplýsingar þegar hann talar um 180 millj. kr. aukningu í þennan málaflokk. Hér er um að ræða töflur sem eru settar upp á mismunandi verðlagi, verðlagi hvers árs, en ráðherra leyfir sér að draga þetta bara frá og fá út úr þessu 180 millj. þegar við erum ekki að tala um sambærilegt verðlag. Hér er því um enga aukningu að ræða og mér finnst alvarlegt þegar að ráðherra fer fer í ræðustól með svona villandi tölur sem sýnir enga raunaukningu í þessum málaflokki.