Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 11. október 1995, kl. 14:43:10 (212)

1995-10-11 14:43:10# 120. lþ. 8.8 fundur 40. mál: #A málefni fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka ráðherra aftur fyrir að reyna að svara spurningum mínum. Jafnframt þakka ég þeim hv. þm. sem að hafa látið sig málið varða og sýnt því þá umhyggju sem málinu ber. Ég er samt því miður ekki rórri en þegar ég kom í pontu áðan því að ég hef staðfestan grun um það að verulegur hnútur sé kominn í þessi mál varðandi tilfærslu verkefna til sveitarfélaganna. Það er ekki verið að hleypa neinu í loft upp en þeir sem eiga að taka við þjónustunni hafa auðvitað af því áhyggjur að það eigi að setja þennan viðkvæma málaflokk yfir á herðar þeirra, nánast berstrípaðan fjármagni og það eru ekki bara þeir sem eiga að taka við þjónustunni, það eru líka þeir sem eiga að njóta hennar sem að hafa áhyggjur af því. En ég fagna því að endurskoðun laga um málefni fatlaðra er á dagskrá í félmrn. en ég tek aftur skýrt fram að ég tel að miðað við þá áherslu sem hefur verið lögð á það að velferðarmál flytjist til sveitarfélaga, þá líka velferðarmál fatlaðra, að þessi tvö mál verði unnin samhliða í ráðuneytinu. Ég undirstrika að það hefur verið eindregin krafa frá hagsmunasamtökum fatlaðra að þessi leið verði farin en það hefur jafnframt verið mjög skýrt tekið fram af hálfu þeirra að það megi alls ekki verða til þess að þjónusta við þennan viðkvæma þjóðfélagshóp verði skert að neinu leyti. Við vitum það öll sem höfum talað í dag að grundvöllur þess að vönduð þjónusta verði í boði er fjármagn. Því skora ég á hæstv. félmrh. að hann beiti sér þannig í málinu að allt þetta fari saman, endurskoðun laganna, nauðsynlegt fjármagn og undirbúningur að þessu viðkvæma verkefni.