Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 10:34:27 (215)

1995-10-12 10:34:27# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 16 um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Eins og fram kemur í greinargerð er tillagan efnislega samhljóða tillögu sem undirrituð flutti sl. vetur í nafni ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Tillagan er jafnframt unnin á vegum landsnefndar um Ár fjölskyldunnar. Ég vek athygli á að sú nefnd er ein stærsta nefnd sem hefur verið sett á laggir af hálfu opinberra aðila og ætla má því að um tillöguna sé breið pólitísk samstaða í þjóðfélaginu þar sem fulltrúar í nefndinni koma frá fjölda ólíkra félagasamtaka og stofnana.

Milli þáv. stjórnarflokka náðist sátt um að till. þessi til þál. yrði flutt á Alþingi. Hún var lögð fram á þinginu í febrúar og komst nokkrum sinnum á dagskrá þingsins án þess þó að fást rædd. Ég tel að full þörf sé á því, virðulegi forseti, að íslensk stjórnvöld móti sér stefnu í málefnum fjölskyldunnar.

Á hátíðarstundu er því gjarnan haldið fram að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins og kjölfestan í lífi mannsins. Það virðist liggja í augum uppi að stjórnvöld móti opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar því enginn einn stjórnvaldshafi, ráðherra eða ráðuneyti ber ábyrgð á málefnum fjölskyldunnar öðrum fremur. Hagsmunir fjölskyldunnar virðast hvorki vera viðurkenndur sjónarhóll við lagasetningu né við ákvarðanir og afgreiðslur stjórnsýslunnar. Hins vegar hafa opinberir aðilar leitast við að marka stefnu í ýmsum málaflokkum sem vissulega hafa áhrif á aðstæður og afkomu fjölskyldunnar svo sem í heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum.

Sjónarmið heildarsýnar eru framandi í umræðu um velferðarkerfið þar sem aldrei hefur verið gerð tilraun til þess að meta það í heild sinni og leggja dóm á hvernig einstakir þættir þess spila saman. Þaðan af síður hefur verið gerð tilraun til að greina áhrif velferðarkerfisins á fjölskylduna með tilliti til þeirra verkefna sem henni er ætlað að sinna í nútímaþjóðfélagi.

Hið opinbera velferðarkerfi hefur orðið til í tímans rás og grundvöllur þess var lagður við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú ríkja. En örar breytingar í samfélaginu kalla á viðbrögð.

Í þessari tillögu er lögð áhersla á að heimilunum sé gert kleift að annast uppeldi og umönnun barna þannig að þau fái notið öryggis og tækifæra til að þroska eiginleika sína.

Farsæl fjölskyldustefna byggir á jafnrétti kvenna og karla og sameiginlegri ábyrgð þeirra á verkefnum fjölskyldunnar. Óneitanlega bendir ýmislegt til þess að konur beri enn sem fyrr meiri ábyrgð á heimli og börnum sem og öðrum fjölskyldumeðlimum sem þurfa á ummönnun að halda.

Sl. vetur kom út skýrsla um launamun kynjanna og sú skýrsla sýnir okkur ótvírætt að það ríkir ekki jafnrétti milli kvenna og karla á vinnumarkaði. Sem kunnugt er hafa konur um 78% af dagvinnulaunum karla og þegar tekið er tillit til aukagreiðslna hafa þær einungis 70% af launum karla. Enn lækkar hlutfallið ef miðað er við jafnaðarkaup, þá eru konurnar með 68% af launum karla.

Þó ekki sé alveg ljóst hvað býr að baki má reikna með að fjölskylduábyrgð hafi töluverð áhrif. Þátttaka kvenna á vinnumarkaði er hátt hlutfall og vinnudagur Íslendinga langur. Konur axla enn fremur mun meiri ábyrgð á fjölskyldulífi en karlar og þær eru í eilífri baráttu við að samræma vinnudag utan heimilis verkefnum fjölskyldunnar, ekki síst umönnun barna. Enn er litið á þessi mál sem einhver einkamál kvenna.

Í rannsóknarniðurstöðum í umræddri skýrslu, en þær byggðu m.a. á ítarlegum viðtölum við starfsmenn, kom fram að konur væru álitnar ótryggari starfskraftur og væru því síður ráðnar til starfa en karlar. Þetta var einkum skýrt með því að konur dyttu út af vinnumarkaði vegna barneigna, væru meira fjarverandi vegna veikinda barna. Almennt séð virðast barneignir minnka líkur á að konur sæki um stöðuhækkun en þær auka líkur á að karlar sæki um stöðuhækkun.

Í skýrslunni segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Almennt virðist gengið út frá því að konur sjái um börn og heimili, karlarnir sjái fyrir fjölskyldunni og þurfi því hærri laun. Svo virðist sem sjaldgæft sé að hjón ræði það hvernig þau skipti tíma sínum milli fjölskyldu og heimilis. Þegar börnin fæðast þróast það einfaldlega þannig að konurnar sjá um börnin og karlarnir vinna fyrir fjölskyldunni þó þeir þurfi oft að fá aðstoð eiginkvenna sinna til að endar nái saman.``

Þessi tilvitnun bendir ekki til þess að jafnræði ríki milli kvenna og karla innan fjölskyldunnar og það er ljóst að ekki er um sameiginlega ákvörðun hjóna að ræða þegar konan tekur á sig ábyrgðina á umönnun barna og oft og tíðum aldraðra.

Það er mikilvægt að jafnrétti kvenna og karla sé haft í brennidepli þegar fjölskyldustefna er mótuð, m.a. með tilliti til réttar barna til að eiga samneyti við feður sína og má nefna gildi þess sem aukinn réttur feðra til fæðingarorlofs hefði að öllum líkindum á skiptingu verka innan veggja heimilisins. Svo er einnig rétt að hnykkja á mikilvægi þess að náið samstarf og vel skipulagt sé milli heimila og skóla og ekki síður að samspili atvinnulífs og fjölskyldulífs sé gaumur gefinn af mikilli alvöru. Það er þekkt að við skerum okkur úr meðal Evrópuþjóða með miklu ósamræmi milli vinnudags foreldra og skóladags barna.

Virðulegi forseti. Tillögunni er ætlað að stuðla að því að stjórnvöld á báðum stjórnsýslustigum marki opinbera fjölskyldustefnu sem taki á heildstæðan hátt til þeirra atriða sem hafa öðrum fremur þýðingu fyrir hagi og aðbúnað íslenskra fjölskyldna. Þannig felst í ályktuninni hvatning til ríkisstjórna og sveitarstjórna að leggja fram stefnu eða skýr áform um með hvaða hætti megi búa í haginn fyrir fjölskylduna.

Tillagan skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta kafla hennar er áhersla lögð á mikilvægi fjölskyldunnar sem grunneiningu samfélagsins. Bent er á nokkrar grundvallarforsendur sem stefnumótun um málefni fjölskyldunnar þarf að taka mið af og líklegt er að almenn sátt ríki um. Enn fremur er lögð áhersla á hinar mismunandi gerðir fjölskyldna og að stjórnvöld geri ekki upp á milli þeirra.

Markmið fjölskyldustefnu er að styðja og styrkja fjölskylduna í verkefnum sínum og þrátt fyrir að áherslur hljóti að vera breytilegar frá einum tíma til annars eru vissar meginforsendur sem eðlilegt er að gengið sé út frá:

Að stuðlað sé að því að fjölskyldan geti rækt það hlutverk að vera vettvangur tilfinningatengsla.

Að fjölskyldum sé gert kleift að annast uppeldi og umönnun barna svo þau fái notið öryggis og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta.

Að borin sé virðing fyrir rétti einstaklinga innan fjölskyldna, ekki síst barna, og gagnkvæmum skyldum þeirra.

Að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti kvenna og karla og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan heimilanna.

Þau viðfangsefni sem fjallað er um í II. kafla eru fæst ný þó sjaldan hafi verið gerð tilraun til að fjalla um þau frá sjónarhóli heildarsýnar. Þau eru hugsuð sem leiðsögn en ber ekki að líta á þau sem tæmandi úttekt. Minna verður jafnframt á að nánari útfærsla þeirra og framkvæmd er háð stjórnmálalegum ákvörðunum. Þau sextán atriði sem talin eru upp í II. kafla lúta einkum að því að styrkja fjölskylduna til að sinna verkefnum sínum ekki síst hvað varðar börn. Þau lúti að því að treysta farsæld fjölskyldunnar, einkum öryggi og afkomu og víkja að stuðningi við fjölskyldur sem verðskulda að þeim sé gefinn gaumur vegna þarfa fyrir sérstakan stuðning, svo sem fatlaðir og aldraðir eða vegna þess að staða þeirra er veik og hana þarf að styrkja, svo sem nýbúar og samkynhneigðir.

Önnur viðfangsefni taka til þeirra þátta sem einkum ógna velferð fjölskyldunnar eða einstakra fjölskyldumeðlima, svo sem vegna samskiptaerfiðleika, ofbeldis eða fíkniefnaneyslu. Þau snúast um að efla skilning á mikilvægi fjölskyldunnar, virðingu fyrir ólíkum fjölskyldugerðum og þörf fyrir rannsóknir í fjölskyldumálum.

Til að styrkja stöðu fjölskyldunnar eru í III. kafla lagðar fram tvær tillögur um aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Í fyrsta lagi að undirbúin verði lagasetning um stofnun fjölskylduráðs og í öðru lagi tillaga um að stofnaður verði sjóður um fjölskylduvernd. Sú tillaga sem stendur að baki fjölskylduráðinu er að stjórnvöld á hverjum tíma hafi aðgang að ráðgjafarnefnd sem sé þeim til ráðuneytis í málefnum fjölskyldunnar. Því er einnig ætlað að hafa frumkvæði að því að vekja athygli á æskilegum úrbótum er varða fjölskylduna og viðhalda umræðu um stöðu hennar í samfélaginu. M.a. að hvetja einkaaðila og félagasamtök til að láta málefni fjölskyldunnar til sín taka og stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.

Ég legg sérstaka áherslu á að fjölskylduráðinu er ætlað að gera tillögu að framkvæmdaáætlun í fjölskyldumálum í samráði við einstök ráðuneyti, sambærilega við þá sem gerð hefur verið í jafnréttismálum. Ráðinu er þannig ætlað að hafa heildarsýn yfir málefni fjölskyldunnar og er hér um mjög mikilvægt atriði að ræða því eins og fyrr er getið deilast verkefnin ýmist á ólík ráðuneyti eða milli ríkis og sveitarfélaga.

Stofnun sjóðs sem hafi það hlutverk að stuðla að og styrkja þróunarverkefni og rannsóknir á sviði fjölskyldumála er mjög tímabær. Afar fáar rannsóknir á sviði fjölskyldumála hafa verið gerðar á högum fjölskyldna. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á þetta atriði í tilmælum sínum til aðildarríkjanna á Ári fjölskyldunnar.

Landsnefnd um málefni fjölskyldunnar varði verulegum hluta þess fjármagns sem nefndin hafði til ráðstöfunar til viðamikillar rannsóknar á aðstæðum íslenskra barnafjölskyldna. Niðurstöður rannsóknarinnar liggja nú fyrir og vil ég vekja sérstaka athygli á þeirri merkilegu skýrslu sem komin er út og ber nafnið Barnafjölskyldur, samfélag, lífsgildi og mótun. Þeir sem hafa unnið þessa viðamiklu og afargóðu skýrslu eru Sigrún Júlíusdóttir, Friðrik Jónsson, Nanna Sigurðardóttir og Sigurður Grétarsson.

Virðulegi forseti. Einstöku þættir velferðarkerfisins beinast gjarnan að tilteknum málum eða afmörkuðum hópum, t.d. nemendum, fötluðum, öldruðum eða sjúkum. Fjölskyldan verður því oft eins konar afgangsstærð og réttur hennar er í reynd afleiddur af þeim markhópi sem um ræðir hverju sinni. Hinar bannhelgu línur sem dregnar eru á milli einstakra þátta velferðarkerfisins, á milli landamæra ráðuneyta, á milli ríkis og sveitarfélaga, byrgja heildarsýn. Þetta kemur niður á sveigjanleika og getu til að mæta nýjum og breytanlegum þörfum fjölskyldna. Auk þess geta aðgerðir stjórnvalda á einu sviði auðveldlega valdið ófyrirséðum og óheppilegum breytingum á öðrum sviðum. Og því höfum við öll kynnst.

Þegar velferð fjölskyldunnar er ekki yfirlýst markmið hins opinbera verður opinber umræða um fjölskylduna rýr þar sem farvegur fyrir þá umfjöllun er ekki fyrir hendi.

Það er allt of sjaldan spurt áleitinna spurninga um verkefni fjölskyldunnar og enn síður er leitað svara við þeim með þeim hætti að hið opinbera geti mótað aðgerðir sínar í samræmi við þau svör. Úr þessu er ætlað að bæta með flutningi þáltill. þessarar.

Virðulegi forseti. Í könnuninni um barnafjölskyldur segir, með leyfi forseta: ,,Nýleg norræn rannsókn sýnir hins vegar að breytt viðhorf karla til föðurhlutverks og heimilisábyrgðar kemur fram í raunverulega breyttri forgangsröðun karla. Þessar breytingar eru ekki hvað síst raktar til þeirra aðstæðna að karlmaðurinn verður í vaxandi mæli að laga sig að breyttum kröfum vinnumarkaðarins til kvenna, eiginkvenna og mæðra í ábyrgðarstöðum.`` Og enn fremur, með leyfi forseta: ,,Á Norðurlöndum hafa jafnréttismál og hagsmunamál kvenna og barna verið lengi á döfinni og hefur m.a. fjöldi rannsókna í félagsvísindum á síðustu árum átt sinn þátt í að draga fram í dagsljósið nýja þekkingu og skilning á þessum efnum.

Þetta hefur haft áhrif á hugmyndafræðilega afstöðu í samfélaginu. Það hefur einnig verkað sem þrýstingur á stjórnvöld sem hafa brugðist við með aðgerðum sem hafa auðveldað almenningi að breyta lífsmynstri sínu og samskiptaháttum í samræmi við breyttar forsendur.``

Virðulegi forseti. Ég tel það vel við hæfi að lagður sé grunnur að stefnu í málefnum fjölskyldunnar í framhaldi af Ári fjölskyldunnar sem yrði þannig upphaf að áframhaldandi verkefnum og liður í samfelldri þróun, þróun sem við þurfum sárlega á að halda hér á landi.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til félmn.