Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:20:05 (226)

1995-10-12 11:20:05# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF
[prenta uppsett í dálka]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Síðla árs 1991 var skipuð 30 manna landsnefnd um Ár fjölskyldunnar 1994 en eitt af meginverkefnum nefndarinnar samanber skipunarbréf hennar var að leggja fram tillögur þar sem lagður yrði grunnur að mótun opinberrar stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Landsnefndinni var einnig falið að undirbúa Ár fjölskyldunnar 1994 á Íslandi. Óskað var eftir tilnefningum ýmissa félagasamtaka og stofnana um skipun nefndarinnar og var markmiðið með stofnun svo fjölmennrar nefndar að ná til sem flestra samtaka og stofnana sem láta sig fjöskyldumál varða.

Sú tillaga sem áðan var mælt fyrir er afurð landsnefndarinnar um Ár fjölskyldunnar 1994 þannig að segja má að talsverð breidd sé a bak við hana. Sl. vor bar opinbera fjölskyldustefnu á góma vegna fyrirspurnar hér á þinginu til núv. félmrh. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir upplýsti í þeim umræðum eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það sem hér hefur komið fram er að uppi voru áform á ári fjölskyldunnar um að það starf endaði með tillögu um fjölskyldustefnu. Þetta hafði ekki gerst þegar ég kom í félmrn. í nóvember sl. en málið var gert að forgangsmáli hjá mér og aðstoðarmanni mínum, Braga Guðbrandssyni, formanni landsnefndar, í janúar. Tillaga þar að lútandi var afgreidd af landsnefnd áður en þing kom saman í lok janúar. Það dróst að málið kæmi inn í þing eins og hér hefur komið fram og er umhugsunarefni að þegar það loks komst á dagskrá var það ávallt síðasta málið þrátt fyrir þrýsting.``

Þetta þykir mér mjög athyglisvert. Alþfl. fór með félmrn. í átta ár og þrátt fyrir þrýsting og mikinn vilja að þeirra sögn komst málið ekki á dagskrá. Af þessu má ljóst vera að fyrrv. félmrh. hafði ekki aðstöðu til þess að koma málinu áfram í fyrrv. ríkisstjórn enda má segja að þegar málum er fyrst varpað fram skömmu fyrir kosningar er ólíklegt að ná árangri nema virkilegur vilji sé fyrir hendi. Þessi vilji var greinilega ekki meiri en svo að á þessu þingi er tillagan endurflutt af nokkrum stjórnarandstöðuþingmönnum en hún er efnislega samhljóða fyrri tillögu félmrh.

Varðandi innihald tillögunnar vil ég segja að ég tek undir að það sé brýnt að stjórnvöld móti opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Tillagan hljómar að einhverju leyti á sama hátt og stefna okkar framsóknarmanna en í ályktun flokksins segir á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Fjölskyldan er kjölfesta í lífi einstaklinganna og þannig grundvallareining í samfélaginu. Það er því mikilvægt að vel sé að henni búið svo að hún nái að gegna hlutverki sínu sem best.`` Einnig segir: ,,Framsóknarmenn leggja því áherslu á eftirfarandi: Að styrkja jákvætt viðhorf þjóðfélagsins gagnvart fjölskyldunni. Að sérstakt átak verði gert til að styðja og upplýsa unga foreldra um foreldraábyrgð. Að hjón eigi kost á fræðslu í samskiptum hjóna og þróun hjónabands. Að kennsla í meðferð fjármuna og fjármálastjórn heimilanna verði tekin upp í skólakerfinu. Að styrkja þann þátt fjölskyldunnar er lýtur að miðlun menningarverðmæta, þjálfun og þroska einstaklinga. Að þjóðfélagsgerðin geri ráð fyrir að tími til samvistar fjölskyldumeðlima sé fyrir hendi. Að stjórnvöld og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hlúi sérstaklega að barnafjölskyldum og hvetji til aukinnar ábygðar foreldra, uppalenda og þjóðfélagsins alls á vellíða og velferð barna.``

Hin íslenska fjölskylda hefur breyst á margan hátt í aldanna rás. Í dag er staða hinnar íslensku fjölskyldu að mínu mati sú að foreldrar hafa of lítinn tíma til að vera samvistum við börn sín. Af hverju er tíminn of lítill? Jú, ein ástæðan er mikið vinnuálag vegna tiltölulega lágra launa og rangrar forgangsröðunar. Ofurkapp er lagt á að eignast veraldleg gæði oft á kostnað andlegra gæða eins og uppbyggilegs fjölskyldulífs. Landsnefnd um mál fjölskyldunnar lýsti áhyggjum sínum yfir þeirri staðreynd að samverustundir barna og foreldra eru fáar. Rannsóknir sýna að 37% 6 og 8 ára barna í Reykjavík eru vikulega án umsjá fullorðinna eða að meðaltali í 8,5 klukkustundir á eigin ábyrgð.

Rannsóknir hafa einnig sýnt aðra athyglisverða staðreynd en hún er sú að hlutfall giftra og sambýlisfólks án barna fer vaxandi. Skýringar á því geta verið margar en manni býður í grun að ein skýringin gæti verið sú að ekki er hlúð nægilega vel að fjölskyldumálum.

Stjórnvöld hafa að sjálfsögðu mikla ábyrgð gagnvart fjölskyldunni. Fjölmargar stjórnvaldsaðgerðir hafa bein eða óbein áhrif á afkomu og vellíðan fjölskyldnanna. Þrátt fyrir það virðast hagsmunir fjölskyldna ekki vera almennt viðurkenndir sjónarhorn við lagasetningu né við ákvarðanir og afgreiðslu opinberrar stjórnsýslu. Það er því brýnt að stjórnvöld móti stefnu eða áætlun í málefnum fjölskyldunnar.

Fram hefur komið fyrr á þinginu að hæstv. félmrh. Páll Pétursson er jákvæður gagnvart mótun opinberrar fjölskyldustefnu og hefur hann nú þegar beitt sér í því máli. Hefur ráðherrann skipað starfshóp til að yfirfara og endurskoða tillögu til þingsályktunar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Í starfshópnum eru ásamt þeirri sem hér stendur hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félmrh., sem jafnframt er formaður hópsins. Hópurinn mun yfirfara þau fjölmörgu gögn sem landsnefndin um mál fjölskyldunnar 1994 tók saman, þáltill. og fleira sem viðkemur málinu. Hópurinn hefur nú þegar hafið störf og mun hraða störfum sínum eftir megni og er það von mín að þar takist vel til.

Varðandi fram komna þáltill. sem við erum að ræða um hér í dag finnst mér afar einkennilega að henni staðið. Það er alveg ljóst að það var búið að vinna þetta mál af landsnefndinni og í ráðuneytinu nánast til fullnustu. Það hefur líka verið upplýst af hæstv. félmrh. að ræða sem búið var að undirbúa í ráðuneytinu hafi verið flutt að einhverju leyti í framsöguerindi. Þetta finnst mér afar einkennilegt. Reyndar þekki ég ekki hvað viðgengst á hinu háa Alþingi en mér hefur verið sagt af einum fyrrv. ráðherra Alþb. að svona framkoma sé afar óeðlileg. Mál séu ekki lögð fram af fyrrv. ráðherra nema það hafi komið yfirlýsing um það að núv. ráðherra muni ekki gera svo. Þetta minnir á það að ef maður vinnur í áhaldahúsi og hættir þá taki hann með sér hjólbörurnar og skófluna og fer.