Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 11:34:18 (232)

1995-10-12 11:34:18# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram sé komin á Alþingi tillaga um mörkun opinberrar fjölskyldustefnu í framhaldi af Ári fjölskyldunnar. En legg jafnframt á það áherslu að til slíkrar stefnu þarf að vanda vel ef hún á að gera sitt gagn. Ég hef á undanförnum árum kynnt mér hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum og í örstuttu máli virðist mér að það megi flokka nágrannalöndin í þrennt að þessu leyti.

Í fyrsta lagi eru til lönd þar sem engin slík stefna er til og mjög fáar aðgerðir til að styrkja fjölskylduna. Ástæðan er sú ríkjandi afstaða að fjölskyldan sé friðhelg, hún sé einkamál og eiginlega handan vettvangs stjórnmálanna. Þetta á t.d. við í Bandaríkjunum og Englandi þar sem beinar aðgerðir varðandi fjölskylduna eru fyrst og fremst til hjálpar ölmusufólki.

Í öðrum löndum, t.d. í Danmörku, eru mjög margar fjölskyldupólitískar aðgerðir í gangi og þær beinast að fjölskyldum almennt, ekki bara að þröngum hópi sem verst er staddur. Þessi lönd hafa þó enga yfirlýsta eða skýra stefnu í málinu þannig að aðgerðir verða ómarkvissar. Ég tel okkur alveg tvímælalaust í þessum hópi. Við erum með ýmsar aðgerðir í gangi en það er engin skýr stefna.

Í þriðja lagi eru til lönd þar sem bæði eru markvissar aðgerðir í gangi og skýr markmið. Ég vil nefna Svíþjóð sem dæmi um slíkt land sem setti fyrst fram skýra fjölskyldustefnu árið 1968 sem hafði það að meginmarkmiði að styrkja fjölskylduna í breyttu þjóðfélagi, þjóðfélagi þar sem jafnrétti kynjanna ríkir.

Ég tel að í dag sé mjög mikilvægt að reyna að stíga skref í þessa síðastnefndu átt og jafnframt sé mjög mikilvægt að viðurkenna margbreytileika fjölskyldunnar og viðurkenna það t.d. að um 10% íslenskra fjölskyldna eru fjölskyldur einstæðra foreldra.

Á lýðveldistímanum hefur lifandi fæddum börnum á ævi hverrar konu fækkað úr 5 í 2,2 og það fer í vöxt að einhleypingar stofni eigið heimili, þ.e. þeir búa ekki jafnlengi hjá foreldrum og áður var. Ég vil einnig nefna, að árið 1993 voru 9,3% fjölskyldna fjölskyldur einstæðra foreldra og þar af 8,4% einstæðra mæðra. En þrátt fyrir hærri fæðingartíðni hér en í nágrannalöndunum og hlutfallslega fleiri einstæða foreldra þá eru útgjöld hins opinbera sem renna til barnafjölskyldna hlutfallslega mun minni heldur en á öðrum Norðurlöndum. Ástæðan er vafalaust að hluta til sú, að okkar velferðarkerfi er almennt veikara en þar. En einnig er vert að hugleiða hvort staða kvenna á ekki einnig sinn þátt í því. Og þá vil ég benda á að þótt atvinnuþátttaka kvenna sé óvenjulega mikil hér, þá er launamunur kynjanna meiri en víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum, en hér fá konur aðeins um 65% af launum karla. Þessi mikla atvinnuþátttaka ein og sér hlýtur líka að kalla á aukna þörf fyrir samfélagslega þátttöku, t.d. í uppeldi barna og aðstoð við einstæðar mæður. Fjöldi einstæðra mæðra gerir þessa þörf enn augljósari.

Oft er fjölskyldan skilgreind út frá einstaklingnum og einstaklingum sem eiga sameiginlegt heimili, deila efnahag og tilfinningum og eru skuldbundnir siðferðilega í gagnkvæmri hollustu. Vil ég í því sambandi benda á skilgreiningu landsnefndar um Ár fjölskyldunnar sem hér kom til umræðu áðan. Með því að skilgreina fjölskylduna á heimasviði þá er tilhneiging til þess að gera hana að málefni kvenna. Kvennalistinn er afl sem vill breyta þessum hefðbundnu hugmyndum um að fjölskyldan sé mál kvenna og atvinnulífið vettvangur karla. Kvennalistinn vill samfélag þar sem bæði konur og karlar eru virk í fjölskyldulífi, atvinnulífi og við mótun samfélagins, samanber stefnuskrá samtakanna. Til að stuðla að því höfum við í Kvennalistanum flutt á Alþingi fjölmargar tillögur og mál sem miða að því að þjóðfélagið viðurkenni breytta stöðu kvenna jafnt í fjölskyldunni sem atvinnulífi. Þess vegna þurfa hugmyndir okkar um fjölskylduna að breytast og við þurfum að búa mjög vel að henni við þessi nýju skilyrði. Kvennalistinn hefur stundum verið gagnrýndur fyrir það að setja kvenfrelsi og stöðu kvenna og barna á oddinn í sinni stjórnmálabaráttu en ekki fjölskylduna, hornstein samfélagins. Þótt þessi gagnrýni sé oft byggð á misskilningi þá er það engin tilviljun að Kvennalistinn sem kvenfrelsisafl setur kvenfrelsi á oddinn í sinni stjórnmálabaráttu. Og ástæðan er m.a. sú að fjölskyldan er ein af þeim stofnunum samfélagsins sem viðheldur tvöföldu vinnuálagi kvenna. Innan veggja fjölskyldunnar í skjóli friðhelginnar á sér því miður oft stað ýmislegt sem er ekki uppbyggilegt fyrir einstaklinga hennar nema síður sé. Þótt við séum oft með þá fögru mynd af fjölskyldunni í huga sem haldið er að okkur í amerískum bíómyndum, þá er það staðreynd að innan fjölskyldunnar eiga sér stað langflest voðaverk og ofbeldisverk sem framin eru á Íslandi og þar eru því miður mjög mörg börn brotin niður á sál og líkama vegna vanrækslu eða misbeitingar og einnig konur. Fjölskyldan er samt sem áður langáhrifamesta stofnunin hvað varðar líðan og starfshæfni fólks og því er óendanlega mikilvægt að henni séu búin þau skilyrði að hún verði í raun vettvangur tilfinningatengsla og athvarf frá erli daglegs amsturs úti í þjóðfélaginu. Að hún verði í raun staður þar sem konur, karlar og börn njóta virðingar og styrkjast í samveru sinni hvert við annað.

Þetta er auðvitað óendanlega mikilvægt fyrir uppeldi og uppvöxt barna og það þarf ekki að koma neinum á óvart að fjölskylduaðstæður skipta meginmáli. En munum einnig að þó að það sé fylgni á milli uppeldisaðstæðna og þess hvernig börnum vegnar í lífinu og fólki almennt, þá er það ekki alltaf foreldrum að kenna eða fjölskyldunni ef illa fer. Stundum getur fólk ekki sinnt sinni foreldraábyrgð vegna lágra launa eða of mikils vinnuálags eða vegna þess að atvinnuleysi foreldra hrjáir fjölskylduna og kemur í veg fyrir það að hún geti sinnt sínum störfum.

Það er því almennt mjög erfitt að ná samstöðu um stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar af því að megnið af stefnumörkun í þjóðfélaginu snertir fjölskylduna eins og fram hefur komið hér í þessari umræðu, hvort sem það er á sviði uppeldis- eða skólamála, félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, skattamála, launamála, allt eru þetta aðgerðir sem snerta fjölskylduna. Pólitískst séð hefur málefnum fjölskyldunnar verið komið fyrir með mismunandi hætti í nágrannalöndum okkar eins og ég sagði áðan. Sums staðar eru til sérstök ráðuneyti fjölskyldumála, eða sérstök ráðuneyti kvennamála en annars staðar t.d. í Austurríki hefur verið reynt að hafa málefni fjölskyldunnar í sérstakri deild í forsrn. Ég tel mjög mikilvægt að þessi mál séu skoðuð vel um leið og þessi tillaga og fái mjög vandaða yfirferð í félmn. Hið pólitíska hnútukast sem þegar hefur komið fram í umræðunni um þessa tillögu gerir mig því miður ekki bjartsýna um að þessi tillaga fái farsæla framgöngu.

Virðulegi forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Það er von mín að á Alþingi Íslendinga verði tekin upp breytt vinnubrögð, að góð mál fái hér framgöngu óháð því hvort sem þau koma úr stjórn eða stjórnarandstöðu. Því miður er valdahroki stjórnvalda of mikill til þess og á því verður að vera breyting. Alþingi Íslendinga á hvorki að vera sandkassi né skylmingavöllur heldur vettvangur fyrir málefnalega og þjóðholla umræðu.