Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:00:21 (235)

1995-10-12 12:00:21# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir það frumkvæði sem hún hefur haft að því þarfa máli sem við ræðum hér í dag. Fyrir mér hafa þessar umræður að mörgu leyti verið afskaplega gagnlegar. Þáltill. sem hv. þm. flytur ásamt nokkrum öðrum, m.a. mér, felur það í sér að mótuð verði opinber fjölskyldustefna þar sem að er lögð sérstök áhersla á að styrkja fjölskylduna sem einingu.

Þær tillögur sem fylgja í köflum með þáltill., herra forseti, eru afrakstur mikils starfs þar sem tugir manna hafa komið að. Um hverja einustu af þessum tillögum skapaðist samstaða í þeim hópi sem vann þetta verk. Ég dreg því þá ályktun að um þetta mál ríki í rauninni þverpólitísk samstaða. Ég held að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi geti verið á móti því að hið opinbera móti sér skilvirka fjölskyldustefnu.

Þess vegna hryggir það mig, herra forseti, að hæstv. félmrh. og einn hv. þm. úr hans flokki skuli sjá ástæðu til þess að draga þetta ágæta mál niður í lágkúrulegt flokkaþras, ég get ekki kallað það annað. Ég held að það sé alveg ljóst að málið er þess eðlis að það er brýn þörf á að það nái fram að ganga. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir benti á það, sem er hárrétt, að vinstri höndin veit ekki alltaf hvað hin hægri gjörir. Við erum að framkvæma ákveðnar aðgerðir á einu sviði sem e.t.v. vinna gegn yfirlýstum markmiðum okkar á öðrum sviðum. Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir gerði að umræðuefni að Íslendingar búa við hærri slysatíðni heldur en allar aðrar þjóðir. Ef við berum til að mynda saman Svíþjóð og Ísland þá blasir við sú staðreynd að tvöfalt fleiri börn miðað við höfðatölu leita aðstoðar slysavarðstofu hér á landi miðað við það sem gerist í Svíþjóð. Allir eru auðvitað hræddir við þetta, þetta eru ógnvænlegar staðreyndir. Það er líka staðreynd að dauðsföll barna af slysförum og alvarleg meiðsl eru miklu meiri hér á landi en hjá nágrannaþjóðunum. Það eru allir á móti þessu. Hæstv. félmrh., ég og hver einasti þingmaður viljum að eitthvað sé gert gegn þessu. Eigi að síður er það svo að flestir flokkar hafa átt aðild að ákvörðunum sem hafa dregið úr því að hægt sé að vinna öflugt gegn þessari vá. Við höfum auðvitað öll borið með vissum hætti ábyrgð á því að launaþróun hér á landi hefur verið þannig foreldrar geti ekki sinnt eftirliti með börnum sínum sem skyldi.

Mér þótti líka forvitnilegt, herra forseti, að heyra, sem mér fannst vera nokkrar þverstæður í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, sem talaði um að það þyrfti að styrkja fjölskylduna sem grunneiningu en eigi að síður var ekki hægt að skilja mál hennar, eða ég skildi það ekki öðruvísi en svo að hún teldi líka að fjölskyldan væri sú eining þjóðfélagsins sem viðhéldi kvennakúgun auk þess sem ýmislegt annað miður fagurt gerðist innan veggja hennar.

Mér þætti vænt um, herra forseti, ef það væri hægt að fá nánari útskýringu á því hvernig þessi tvö markmið ríma, annars vegar að styrkja fjölskylduna en hins vegar að uppræta a.m.k. þann þátt hennar sem viðheldur þessari kúgun.

Herra forseti. Það er nú svo að minnihlutahópar eiga að ýmsu leyti erfitt uppdráttar. Í fæstum tilvikum eiga þeir hér á landi mikinn fjölda á bak við sig, þeir hafa ekki afl fjöldans og það er kannski þess vegna sem okkur hættir oft til að sofna á verðinum yfir velferð þeirra. Þess vegna er mér sérstaklega annt um það að til framkvæmda komi þeir hlutar þáltill. þar sem ýmsum minnihlutahópum er gefinn sérstakur gaumur.

Í II. kafla tillögunnar er til að mynda rætt um að það þurfi að styðja betur við fjölskyldur nýbúa, veita þeim stuðning sem nauðsynlegur er til þess að þeir geti fest rætur í íslensku samfélagi. Þetta er orðið mjög nauðsynlegt að mínu viti. Við höfum tekið á móti hópum flóttamanna sem sannarlega hafa aukið litríki okkar smáa samfélags. Þeir hafa fært með sér hefðir og nýbreytni og má sannarlega segja að þeir hafi auðgað mannlífið. En stuðningur okkar við þá hefur að mínu viti verið skammarlega lítill. Við fylgjumst lítið með þeim eftir að þeir eru komnir til landsins og gerum of lítið til þess að hjálpa þeim að ná tökum á okkar eigin tungu og við vitum ekki alltaf hvernig þeim reiðir af.

Ég vil, herra forseti, nota þetta tækifæri til þess að hrósa hæstv. félmrh. sérstaklega fyrir það að hann hefur nú tekið ákvörðun um það að hleypa nýjum hópi flóttamanna til landsins. Hann á lof skilið fyrir það. Fyrir þá dirfsku sem sannarlega í því felst. En það brýnir fyrir okkur nauðsyn þess að við þurfum með einhverjum hætti í opinberri fjölskyldustefnu sem væntanlega verður niðurstaðan einhvern tímann í framtíðinni að taka sérstakt mið af þörfum þessa hóps. Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að í tillögu okkar er jafnframt gert ráð fyrir því að opinber fjölskyldustefna eigi að beinast að því að uppræta misrétti í garð fjölskyldna samkynhneigðra. Þetta er raunar í stíl við þær tillögur sem er að finna í skýrslu um stöðu samkynhneigðra sem unnin var í kjölfar samþykktar Alþingis og var birt fyrir nokkrum missirum. Í ályktun Alþingis um það mál var kveðið upp úr með það, herra forseti, að hið opinbera ætti, með leyfi forseta: ,,að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki eigi sér ekki stað hér á landi``. Þar var jafnframt talað um aðgerðir til að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi. Það er hins vegar staðreynd að fjölskyldur samkynhneigðra hafa verið litnar hornauga. Þær njóta ekki sama lagalega réttar og aðrar fjölskyldur. Það má hins vegar minna á það að hugmyndin um mennina sem jöfn börn guðs er grundvöllur kristninnar og það er skammt síðan að sagði í texta frá biskupnum yfir Íslandi að fátt væri jafnógeðfellt og fjarlægt frumatriðum kristinnar trúar og útskúfun þeirra sem eru öðruvísi en fjöldinn. Það eiga allir að hafa frelsi til þess að leita hamingjunnar með þeim hætti sem þeir sjálfir kjósa. Við getum auðvitað leitað hamingjunnar með ólíkum hætti enda er verðmætamatið misjafnt og það finnst enginn einn mælikvarði á það sem við köllum hamingju. Það er einmitt þess vegna sem við þurfum frelsi til þess að leita hennar. Og fjölskyldan er að verulegu leyti uppspretta hamingjunnar og þangað leita menn bæði til að deila sorg og gleði. Samkynhneigðir eiga nákvæmlega sama rétt á þessari sömu hamingjuleit og aðrir og þess vegna tel ég nauðsynlegt og afar mikilvægt fyrir réttindabaráttu þeirra að opinber fjölskyldustefna beinist einnig að því að uppræta aldalanga fordóma í garð þeirra fjölskyldna.

Herra forseti. Þegar við tölum stundum um það fjálglega hér á Alþingi og þegar ríkisstjórnin tekur undir að nú þurfi að efla atvinnulífið, þá tala menn líka mikið um nauðsyn þess að fjárfesta í rannsóknum. Rannsóknirnar eru grunnur eflingar atvinnulífsins, segjum við mjög oft, en fjölskyldan er að þessu leyti ekkert öðruvísi en atvinnulífið. Ef við tökum um það meðvitaða ákvörðun að efla fjölskylduna þá er okkur sá kostur vænstur að grafast fyrir um hvernig það væri best gert, hvaða meðul duga best til að styrkja hana. Það kostar vissulega fjármagn og á því verður að vera skilningur. Þetta viðhorf speglast einmitt í þáltill. sem við flytjum hér í dag. Þar er gert ráð fyrir því að það verði veitt fjármagn til þess að rannsaka þætti fjölskyldunnar, rannsaka m.a. þau mein sem hrjá hana. Einungis þannig getum við fundið hin réttu meðul til þess að lækna það sem er að.