Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:44:06 (244)

1995-10-12 12:44:06# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar upplýsingar en heyrði og hlustaði grannt eftir ræðu hv. þm. hér áðan. Það er gott að heyra að nefndin ætlar að hraða störfum þó að nefndarmaður lofi engu um hversu mikið mark verður tekið á þeirri grunnvinnu sem hér liggur fyrir. Að vísu gat hv. þm. um það hér áðan í sinni fyrri ræðu að það gæti allt eins farið svo að tekið yrði að verulegu leyti tillit til þessa og hugsanlega ekki. En hvað sem því líður vonum við hið besta í því sambandi og ég óska þessari ágætu nefnd alls hins besta þó að ég hefði viljað sjá hv. þm. í formennsku fyrir þessari nefnd þannig að við þingmenn gætum þá elt hana uppi hér í þingsölum en þyrftum ekki að hlaupa til aðstoðarmanns ráðherra til þess að fá um þetta upplýsingar. En þetta er nú svona.

Ég nefndi það áðan að fjarvera Sjálfstfl. væri sérstaklega áberandi í þessari umræðu. Ég varð þess líka var hér áðan að ég var dálítið aleinn um tíma í salnum af öðru kyninu, að undanskildum virðulegum forseta og hæstv. ráðherrum sem eru að gegna hér skyldustörfum og hafa skyldusetu nánast. Þess vegna býð ég sérstaklega velkominn Jón Kristjánsson til fundarins.