Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 12:45:35 (245)

1995-10-12 12:45:35# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., LG
[prenta uppsett í dálka]

Lilja Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tel mig knúna til að taka þátt í þessari umræðu. Þó hélt ég satt að segja að við værum búin að tala nógu lengi um aðbúnað fjölskyldunnar hér á landi og allan þann vanda sem að henni steðjar. Ég get því tekið undir orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að tími framkvæmda hlýtur að vera kominn og það fyrir löngu. Því fagna ég þessari ályktun og vil þakka flm. hennar.

Ég vil enn fremur bæta því við að ég tala sem kennari og auðvitað móðir. Sem kennari finnur maður mjög greinilega hver vandamál fjölskyldunnar eru vegna þess að það leynir sér ekki þegar barnið kemur inn í skólastofuna ef því líður illa eða á í einhvers konar erfiðleikum. Og enn einu sinni virðist eiga að skera niður þá sérfræðiþjónustu sem skólanum er boðið upp á, hún er a.m.k. ekki aukin. Það er nefnilega þannig með flest hegðunarvandamál sem koma fram hjá börnum í skólum, og það er oft jafnvel við upphaf skólagöngu, að ef á þeim er tekið strax þá eru þetta yfirleitt mál sem hægt er að leysa en sé það ekki gert og kennarinn skilinn eftir, og hann hefur engan til þess að leita til, er oft aleinn með þessi vandamál sem upp koma, þá getur vandamálið þróast og það vex oft með barninu. Því eldra sem barnið verður, því stærra verður vandamálið.

Ég þekki málið líka sem móðir og vil í því sambandi vísa til tillagna sem nefnd á vegum Reykjavíkurborgar hefur komið með þar sem það er m.a. lagt til að sjálfræðisaldur unglinga á Íslandi verði hækkaður upp í 18 ár. Ég get ekki séð annað en að það sé mjög góð tillaga. Við getum velt því fyrir okkur hvernig það er að vera foreldri framhaldsskólanema og geta ekki einu sinni haft samband við skólann og spurt um það hvernig mætingu unglingsins er háttað vegna þess að þegar unglingurinn er orðinn 16 ára þá er hann sjálfráður og þá hafa foreldrar ekki leyfi til þess.

Það er annað sem mér dettur oft í hug. Það er eins og það komi foreldrum alltaf á óvart þessi gangur lífsins að barnið vex og þroskast, þegar það verður unglingur, þá er eins og það gerist allt í einu og mjög óvænt og foreldrar virðast stundum eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvernig þeir eigi að taka á þeim málum sem upp koma í tengslum við það. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að tekin verði upp almenn fræðsla til foreldra. Það er löngu tímabært að allri þeirri þekkingu sem fyrir hendi er um þroska einstaklingsins sé komið til þeirra sem sjá um að ala einstaklinginn upp, til foreldranna. Þessum þætti virðist vera mjög ábótavant hjá okkur.

Það er af svo mörgu að taka í sambandi við mál fjölskyldunnar, en það sem mér er efst í huga er unga fólkið og ekki síst það unga fólk sem komið er á þann aldur að geta farið að flytja að heiman. Það er oft mjög erfitt fyrir þetta fólk að flytjast að heiman vegna þess að aðstæður allar eru mjög erfiðar, sérstaklega fyrir ungt fólk sem ekki á einhverja vel stæða að og það eru nú langflestir í okkar þjóðfélagi. Þetta unga fólk, eins og stúdentar hafa margoft bent á, er bæði að glíma við þung og erfið námslán og þar að auki er mjög erfitt að fá húsnæði og það er mjög dýrt.

Ég ætla bara að endurtaka það sem ég sagði hér í upphafi að ég fagna því að þessi þáltill. er komin. Hún er stórt skref í þá átt að bæta hag fjölskyldunnar og ég vona að á þessum málum verði tekið af festu og úrbætur fari að sjá dagsins ljós.