Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:33:29 (247)

1995-10-12 13:33:29# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þá miklu deilu sem mér skilst að hér hafi staðið um ættfræði þessarar tillögu í morgun. Ég held að það sé áhugaverðara að breyttu breytanda að ræða efni hennar. Ég mundi láta mér nægja að segja við hæstv. félmrh. að það sé sama hvaðan gott kemur og það eigi ekki að þurfa að vera mikið deiluefni hvernig þörf mál koma hér fyrir Alþingi. Aðalatriðið er að þau komist hér inn og hér á dagskrá.

Það sem mig langar að taka sérstaklega upp í sambandi við þessa tillögu, og horfa fram hjá ættfræðinni, er það að ég held að opinber fjölskyldustefna muni aldrei felast fyrst og fremst í einhverri samþykkt eða þál. eða einhverjum öðrum slíkum lögfestum ramma sem settur verður niður, getur verið góðra gjalda vert sem slíkt, heldur fyrst og fremst í aðstæðum, kjörum og högum fjölskyldnanna í landinu eins og þær eru á hverjum tíma og eru markaðar af stjórnvaldsathöfnum. Þar birtist hin eiginlega fjölskyldustefna. Þess vegna er ég eins ósammála og framast er unnt að vera ósammála hv. síðasta ræðumanni sem taldi ekki ástæðu til að vera að hengja sig í einhver einstök atriði í fjárlagafrv. varðandi fjölskyldustefnu. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Ef eiginleg fjölskyldustefna stjórnvalda birtist einhvers staðar á hverjum tíma þá gerir hún það m.a. í fjárlagafrv., í skattatillögum og öðrum slíkum stjórnvaldsákvörðunum sem marka aðstæður og kjör fjölskyldnanna í landinu.

Herra forseti. Ég hafði gaman af því að hv. þm. Jón Kristjánsson væri fundinn, að það væri haft upp á honum. Það er dálítið um það að menn séu að auglýsa eftir framsóknarmönnum þessa dagana. Hér vantar meinlega einn, þ.e. síðasta ræðumann sem á að sýna öðrum í umræðunni þann sóma að hlýða á svör þeirra.

Ég, herra forseti, hef t.d. mikið skoðað og velt fyrir mér einum þætti þessa máls sem ég vil nefna hér og það eru skattlögin, skattaleg útkoma fjölskyldnanna í landinu. Við erum þar stödd í herfilegum ógöngum. Fyrst og fremst varðandi tekjutengingu bótagreiðslna og allt of há jaðaráhrif skattkerfisins eins og þau bitna á barnafjölskyldunum sérstaklega. Ég hef skrifað og rætt talsvert um þessi mál að undanförnu og ég trúi því ekki að menn ætli að fara í gegnum þessa umræðu um fjölskyldustefnu án þess að inna eftir áformum stjórnvalda að þessu leyti. Hvar er nú hæstv. félmrh.? Hvar er hæstv. fjmrh., sem fyrir síðustu kosningar talaði einmitt fjálglega um nauðsyn þess að draga úr jaðarsköttum og tekjutengingu í bótakerfinu. Það er fjölskyldustefna að láta ekki barnafjölskyldurnar í landinu sitja með allt upp í 75% jaðarskatta á stóru tekjubili.

Það er líka fjölskyldustefna þó undir öfugum formerkjum sé, hv. þm. Jón Kristjánsson, að leggja á skólagjöld. Skólagjöldin bitna á barnafjölskyldunum. Það er líka fjölskyldustefna þó undir öfugum formerkjum sé að draga úr þátttöku ríkisins í kostnaði fjölskyldna vegna tannlækninga barna. Það er líka fjölskyldustefna þó það sé vitlaus og ranglát fjölskyldustefna. Það er fjölskyldustefna að hækka lyfjakostnað barnafólks þó það sé öfug og vitlaus fjölskyldustefna. Við áttum samleið í því hér á síðasta kjörtímabili, ég og hv. þm. og hæstv. núv. félmrh. að gagnrýna ýmislegt sem þáv. ríkisstjórn gerði af þessu tagi. Hvar er gagnrýni framsóknarmanna á þá hluti nú? Það þýðir ekki að afgreiða hlutina með svo einföldum hætti að segja okkur að það þurfi að draga úr halla ríkissjóðs því það eru fleiri aðferðir tiltækar að afla tekna heldur en þær að beita sífellt íþyngjandi aðgerðum, m.a. gagnvart barnafjölskyldum.

Herra forseti. Ég held að ef menn vilja ræða hér opinbera fjölskyldustefnu af einhverju viti þá eigi ekki síst að líta til þessara þátta. Og ef ég á að leyfa mér að setja fram einhverja gagnrýni eða benda á það sem mér finnst vera veikleiki í þessari tillögugerð þá hefði ég viljað sjá fjallað um þessa þætti með myndarlegri hætti en þeim einum sem gert er í tölul. 2.4 á bls. 2 í II. kafla tillögunnar. Mér finnst að það mætti gera þessum þáttum hærra undir höfði, að hinum efnislegu aðstæðum fjölskyldnanna, efnahag, kjörum, skattalegri meðferð barnafjölskyldna, o.s.frv. væri gefið meira vægi í þessari áætlanagerð um fjölskyldustefnu. Ég er með þessu síður en svo að gera lítið úr gildi þess að mótuð sé opinber fjölskyldustefna sem ákveðinn rammi í þessum efnum og ef t.d. tekst að ná um það sæmilegri sátt að ákveðinn siðferðislegur grundvöllur sé þar lagður sem menn vinni út frá. En það leysir ekki stjórnvöld undan því á hverjum tíma að þau bera mikla ábyrgð á því hver hagur fjölskyldunnar er með ákvörðunum sínum varðandi tekjur og gjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga o.s.frv.

Ég fagna því að þessi mál skuli vera komin hér á dagskrá og vona að það gefist tími til að vinna dálítið rækilega í þessum málaflokki hér á þinginu, nógur var áhuginn á sl. vetri, áður en gengið var til kosninga, um að endurreisa heimilin og allt það. Fóru þar fremstir í flokki með vasklegu yfirlýsingum hv. frambjóðendur Framsfl. sem margir náðu kjöri. Við skulum því ætla að það muni ekki skorta á góða liðsmenn úr þeirri átt. Ættfræði einhverrar þáltill. er mönnum engin afsökun í þeim efnum. Við getum hvenær sem er breytt formi þingmála eða tekið þau fyrir með nýjum hætti. Aðalatriðið er að efni málsins njóti sannmælis og menn reyni að átta sig á því hvort þeir geti orðið sammála um einhverja hluti eða ekki og hvort þeir vilji eitthvað gera en drepi því ekki öllu á dreif með einhverju rifrildi um einskisverða hluti eins og það hvernig mál eru tilkomin.

Ég held að vissir þættir sem snúa að stöðu fjölskyldunnar nú séu þannig að á þeim sé mjög brýnt að taka. Og ég held satt best að segja að um það sé tiltölulega mikil sátt í þjóðfélaginu. Að það geti t.d. ekki gengið að barnafjölskyldur með heildarheimilistekjur á bilinu 120--200 þús kr. beri kannski 75% jaðarskatt, það bara geti ekki gengið. Það kerfi sé svo gjörsamlega gjaldþrota og vitlaust að engu tali tekur. Og eins og þetta er núna ef fjölskyldur njóta t.d. annaðhvort vaxtabóta eða húsaleigubóta, eru með barnabótaauka vegna tveggja eða þriggja barna, eru að borga tekjutengdar afborganir af námslánum og svo koma þar til viðbótar kannski ýmis flöt útgjöld, þá er dæmið svona og þetta getur ekki gengið. Afleiðingin er m.a. sú að þetta fólk er að gefast upp og flýja land. Og þó það megi til sanns vegar færa að menn hafi stundum horft framan í sambærilegan landflótta í tölum talið á undanförnum árum þá er mér til efs að hann hafi áður verið af jafnalvarlegum toga og sá sem nú er í gangi. Sem sagt þeim að fjölskyldufólkið sem við megum síst við að missa úr landinu er að gefast upp. Það er vegna þess að aðstæður þess eru ekki nógu góðar í landinu og fjölskyldustefna hlýtur að snúast um að bæta þær, bæta þær með beinum efnislegum aðgerðum.