Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:43:53 (249)

1995-10-12 13:43:53# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hafna því alfarið að í mínu máli hafi komið fram einhverjar miklar þversagnir varðandi viðhorf til ríkisfjármála. Staðreyndin er sú, hv. þm., að það er verið að þrengja að fjölskyldunum í landinu með ýmsum ráðstöfunum, m.a. í fjárlagafrv. og ekki síst þar. Það er af þeim ástæðum greinilega sem Framsfl. vill ekki ræða það mál, talar út í loftið og út um gluggann og biðst undan því að það sé rætt um hin efnislegu atriði sem hér eru á ferðinni og varða lífskjör fólksins í landinu með vísan til þess að til lengri tíma litið sé það í þágu fjölskyldunnar að reka ríkissjóð hallalausan o.s.frv. Auðvitað er það svo. En er það þá orðin niðurstaða Framsfl. að það séu engin önnur ráð til í landinu til að ná niður hallanum á fjárlögum en þau að kreppa að fjölskyldunum, t.d. barnafólkinu? Staðreyndin er sú og það sem ég er að benda á hér er að t.d. núverandi álagning og tekjutenging í skattkerfinu veldur því að við tiltölulega lágar heimilistekjur er nánast horfinn allur skattalegur munur á barnafjölskyldum og fjölskyldum einhleypra eða fólks sem ekki hefur börn. Er þar ekki möguleiki á að dreifa byrðunum öðruvísi þó við rekum ábyrga stefnu í ríkisfjármálum? Er hv. þm. Jón Kristjánsson t.d. þeirrar skoðunar að það sé sanngjarnt að fimm manna fjölskylda, sex manna fjölskylda, með um eða innan við 200 þús. kr. heimilistekjur sé í skattalegu tilliti meðhöndluð nánast eins og tveir einstaklingar með sömu tekjur, hjón sem eiga ekki börn?

Ég held að þetta sé kolbrjálað kerfi og þarna sé hægt að dreifa byrðunum öðruvísi án þess að það þurfi að hafa áhrif á hvaða markmið við setjum okkur í ríkisfjármálum þannig að hlutirnir komi réttlátar út og um það snýst málið. Ég held að barnafjölskyldur, sem eru nú að reyna að kljúfa það að koma sér upp húsnæði og borga af námslánum sínum, séu fangar í þessari tekjutengingargildru og þar getum við lagað stöðu þeirra, fært þær byrðar annað án þess að það þurfi að koma niður á markmiðum okkar um að reka ríkissjóð með ábyrgð. Ég er í grundvallaratriðum ósammála hv. þm. og mótmæli því að í máli mínu áðan hafi falist einhverjar óleysanlegar þverstæður af þessum toga.