Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:47:38 (251)

1995-10-12 13:47:38# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. dró mjög skyndilega í land og féll frá allri gagnrýni á mín ummæli hér áðan því að ég sagði nákvæmlega það sama í andsvari mínu og ég sagði í ræðu minni. Það var útgangspunktur míns máls að það þyrfti að gera ráðstafanir m.a. í gegnum skattkerfið til að laga aðstæður fjölskyldufólks. Ég held að við þurfum ekki að verða neitt ósammála um það að þar séu ýmsar leiðir færar til þess að færa hlutina til og koma til móts við þá sem eru í mestum erfiðleikum án þess að það þurfi á nokkurn hátt að tengjast markmiðum okkar um að hemja útgjöld ríkisins eða ná þar árangri.

Út af fyrir sig er rétt að það eru gefin viss fyrirheit í stjórnarsáttmálnum en það örlar ekki á efndum á þeim. Það ljótasta er kannski það að það á að skerða persónufrádráttinn í reynd um nokkurn veginn jafngildi þess sem nemur skattfrelsi 4% iðgjaldagreiðslna í lífeyrissjóð samkvæmt fjárlagafrv. Það eru efndirnar á þeim þætti málsins. Það er dálítið merkilegt að heyra hina hógværu framsóknarmenn koma og ræða af miklum raunaþunga um ábyrgð og erfiðar aðstæður og hvað þetta hafi allt orðið óskaplega erfitt síðan í vor. Mikið lifandis ósköp hafa mennirnir orðið að ganga í gegnum á þessum mánuðum miðað við hvað þeir voru bjartsýnir og fullir á trú á það að þeir gætu leyst allan vanda fyrir nokkrum mánuðum. Þetta hefur verið meira sumarið fyrir Framsfl. að vera kominn að þeirri niðurstöðu að allt sé þetta svo óskaplega erfitt og þungt í vöfum og geta ekki vísað til nokkurs hlutar nema einhverra fyrirheita í stjórnarsáttmála. Það er t.d. þannig varðandi jaðarskattlagninguna að það er til mjög einföld aðferð til að taka á því máli og hún er ósköp einfaldlega að setja þak á jaðarskattsprósentuna. Það er spurning um pólitík hvort menn þora það eða eru tilbúnir til þess. Menn þurfa ekki að skjóta sér þar á bak við einhver óljós fyrirheit sem eigi að skoða einhvern tíma seinna á kjörtímabilinu. Það er hægt að gera ýmislegt í þessum efnum strax ef vilji er fyrir hendi. Ég trúi því ekki að Framsókn hafi misst svo gersamlega móðinn á þessum sumarmánuðum að hún sé ekki tilbúin til þess að skoða það með okkur hér að taka einhver skref í þessa átt áður en fjárlagafrv. og álagningu skatta verður lokið á þessu þingi.