Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 13:55:33 (253)

1995-10-12 13:55:33# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir þessar umræður sem hér hafa orðið. Þar hefur margt verið spaklega sagt, reyndar ekki allt. En ég mun fara fram á það við þá ágætu nefnd sem ég hef sett til starfa og beðið að hraða störfum sínum að kynna sér umræðurnar. Einn nefndarmanna hefur fylgst gaumgæfilega með þeim en hinir hafa e.t.v. ekki gert það. Að sjálfsögðu verður sú vinna sem unnin hefur verið af félmrn. eða á vegum félmrn. og landsnefndarinnar höfð til hliðsjónar og lögð til grundvallar við þá tillögugerð sem við ætlum að vinna að.

Mig langar samt til að drepa á örfá atriði sem hafa komið hér fram í umræðunum. Hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, talaði um hve mikil vandræði væru í málefnum fjölskyldunnar og hún sá eins og venjulega allt svart. En hvers vegna voru þá málefni fjölskyldunnar ekki flutt með skilmerkilegri hætti inn í þingið öll þau sjö ár sem hún sat í stóli félmrh.? Mér skilst að málefni fjölskyldunnar hafi verið öll þau sjö ár afgangsstærð í þjóðfélaginu.

Hún stakk upp á því að færa málefni fjölskyldunnar til félmrn. Ég er henni sammála að því leyti til að ég tel að fjölskyldumálefni eigi að svo miklu leyti sem hægt er að eiga heima í félmrn. en það er stjórnskipulega torvelt að flytja þau þangað öll. Ég sé ekki betur en þá yrði að taka öll ráðuneytin og leggja undir félmrn. og ég treysti mér ekki til þess að stinga upp á því vegna þess að hvert einasta ráðuneyti kemur með einum eða öðrum hætti að málefnum fjölskyldunnar.

Hún talaði um að smæð sveitarfélaganna hindraði skilvirkni og þá þjónustu sem sveitarfélögin þyrftu að veita. Ég tel að hv. þm. hafi farið offari í tilraunum sínum við að sameina sveitarfélög og tilraunin mistókst vegna klaufalegra vinnubragða hjá hv. þm. meðan hún var ráðherra. Hins vegar hef ég voðalega gaman af því að heyra hv. 13. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur hæla hvor annarri eins og þær hafa gert í morgun. Það finnst mér vera skemmtilegt. Það hafa þær ekki alltaf gert upp á síðkastið.

Um höfundarréttinn að framsöguræðu þeirri sem flutt var hér þá þarf ég ekkert að velkjast í vafa. Nú veit ég ekkert um samskipti þeirra Braga Guðbrandssonar og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur en ég er með í höndum drög að framsöguræðu með till. til þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðstöðu til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Hún er merkt Ingibjörgu Broddadóttur, 20. febr. 1995, og úr þessari ræðu voru orðréttir kaflar fluttir hér áðan og það er ekkert nema gott um það að segja.

Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir talaði um undarlegan málflutning og sannarlega eru orð dýr. Hv. þm. fleipraði um það í ræðustóli á Alþingi í gær að yfirtaka Reykjavíkur og Akureyrar sem reynslusveitarfélaga á málefnum fatlaðra væri komin í strand. Ég bar það til baka í ræðustól. Mig rak samt í rogastans þegar fréttastofa sjónvarpsins kemur með þetta tilefnislausa slúður í fréttum kl. 11 í gærkvöldi. Ég hef rætt við bæði borgarstjórann í Reykjavík og Guðrúnu Ágústsdóttur, sem fer með þessi mál fyrir hönd borgarstjórnar, og þessu er alls ekki svo farið. Þetta mál er í góðum gangi og í mikilli vinnslu á milli félmrn. og Reykjavíkurborgar. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur að ganga frá þessum málum eða slíta samningum við félmrn. en ekki hlutverk hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði um vinnuhraða nefndarinnar. Ég hef beðið nefndina að hraða störfum eins og ég bið allar nefndir sem ég skipa. Ég vonast eftir því að tillaga um mótun fjölskyldustefnu verði afgreidd á þinginu í vetur.

Hann spurði um afstöðu framsóknarmanna til tillögunnar. Tillagan verður skoðuð. Ég vonast til að geta lagt fram metnaðarfyllri tillögu sem verður a.m.k. að hluta til unnin upp úr þessari áður en langt um líður.

Það var hárrétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að það er náttúrlega fleira fjölskyldustefna en orð á blaði, það eru verkin sem tala. Það eru verkin sem skipta máli. Ég get upplýst í stikkorðastíl hver sú fjölskyldustefna hefur verið sem ég hef reynt að reka þann tíma sem ég hef verið í félmrn. Við erum að vinna að úrbótum í húsnæðismálum. Við erum að reyna að skapa úrræði til að bregðast við vanda þeirra sem eru á kafi í skuldum. Við erum að setja upp leiðbeiningarstöð um fjármál heimilanna. Það er unnið að samningu frv. um skuldaaðlögun. Ég held að það sé heppilegra en að keyra fólk í gjaldþrot. Það er unnið að lausn á vanda meðlagsgreiðenda. Það er reynt að hjálpa fólki til að fá vinnu og það hefur orðið töluverður árangur af því. Það er búið að ráða 200 manns af atvinnuleysisskrá í fiskvinnslu síðan það mál fór af stað. Það er ekki smávægilegur sparnaður fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, það eru 134 millj. á ári. Ég tel að það besta sem hægt er að gera fyrir atvinnulaust fólk sé að hjálpa því að fá vinnu. Það er verið að reyna að koma betri skipan á atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlanir. Það er nefnd að störfum sem á að reyna að koma betra formi á samskipti aðila á vinnumarkaði. Við erum að vinna að jafnréttismálum. Það á að endurskoða jafnréttisáætlunina. Það er verið að leita leiða til að jafna launamun karla og kvenna. Svona mætti lengi telja. Það er að fara í gang endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra.

Herra forseti. Ég gæti haldið svona lengi áfram en tími minn er þrotinn og því verð ég að hætta.