Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:06:58 (255)

1995-10-12 14:06:58# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert að bera brigður á það að fyrirrennari minn í ráðuneytinu, hv. 13. þm. Reykv., hafi viljað vinna af góðum hug og haft hin bestu áform á prjónunum. En vinnulagið var einhvern veginn þannig hjá henni að það komst lítið af því í verk. Hvers vegna er allt í ólagi í málefnum fjölskyldunnar að hennar dómi úr því að hún var búin að sinna þessu embætti í sjö ár?

Ég veit ekki hvort ég á að fara að þreyta ykkur á því að fara yfir rugl hennar um fjárlögin. Ég held hún sé ekki hagsýn í fjármálum. Hún heldur þráfaldlega fram röngum staðhæfingum um ákveðna þætti fjárlaga til málefna fatlaðra. Hlutur félmrn. til málefna fatlaðra er hækkaður um 10% á fjárlögum 1996 frá árinu í ár. Það tel ég vera býsna góðan árangur. Ég er ekki í illindum sýknt og heilagt við samstarfsmenn mína. En það var einmitt vinnulag hv. þm. þegar hún var ráðherra, þá fyrst gat hún opnað munninn þegar hún þurfti að standa í deilum við samherja sína hvort sem heldur var innan flokks eða í ríkisstjórn. Það eiga nýfengnir samherjar hennar eftir að reyna áður en kjörtímabili lýkur, það er ég viss um.