Opinber fjölskyldustefna

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:11:18 (258)

1995-10-12 14:11:18# 120. lþ. 9.1 fundur 16. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kann því illa að vera ásökuð um að fara með fleipur. Ég er ekki vön að sitja þegjandi undir slíkum ásökunum og ég mun heldur ekki gera þaðhér. Ég átti þess ekki kost vegna annarra starfa í gærkvöldi að hlusta á ellefufréttir sjónvarps. Hins vegar vil ég endurtaka það sem ég hef sagt á hinu háa Alþingi, í fjölmiðlum og annars staðar og get endurtekið það enn einu sinni fyrir hæstv. félmrh.

Málefni og samningar við sveitarfélögin, sem ætluðu að taka að sér verkefni í þjónustu við fatlaða, hafa verið í uppnámi. Þau hafa verið í uppnámi vegna þess að í fjárlagafrv. er beinn niðurskurður til málefna fatlaðra. Það er ein meginástæðan fyrir því að þessi samningagerð fór í uppnám. Hæstv. félmrh. sat á fjölmennu þingi hjá hagsmunasamtökum fatlaðra á föstudagskvöldið fyrir tæpri viku og hlustaði á nákvæmlega sömu orð og ég gerði eða ég vona að eyru hans hafi numið það. Þar sagði félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar að sem betur fer væri ekki búið að slíta þessum samningum en það væri alveg ljóst að yrðu ekki breytingar á fjárlagafrv. frá því það var kynnt og þar til það verður samþykkt yrði ekkert af þessari yfirtöku. Ég bið hæstv. félmrh. að láta það vera að segja að ég fari með fleipur í þessu máli. Við vitum það öll sem höfum lesið þetta fjárlagafrv. að það er verulegur niðurskurður til málefna fatlaðra. Það þarf enginn að segja mér annað. Það er leikið með staðreyndir, óendanlega. Það er verið að leggja niður Sólborg sem stofnun fyrir þroskahefta á Akureyri. Sólborg var seld til menntmrn. fyrir 80 millj. kr. Þessum peningum er búið að ráðstafa fyrir fram í að kaupa nýtt húsnæði fyrir þá sem þarna bjuggu. Þannig að þetta er engin aukning. Sama gildir um Kópavogshælið. Þetta er talnaleikur, hæstv. félmrh.