Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:18:33 (263)

1995-10-12 14:18:33# 120. lþ. 9.2 fundur 15. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 15 um fullgildingu á alþjóðasamþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.``

Virðulegi forseti. Ég er vissulega spennt að heyra hvort það telst eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á því hvort fullgilda eigi slíka samþykkt. Ég vil einnig í upphafi máls míns, virðulegi forseti, vekja athygli á að fskj. um samþykkt nr. 156 og tillögur nr. 165 sem er útfærsla á samþykktinni voru ekki prentuð með þáltill. í upphafi. En úr því hefur nú verið bætt, þingmönnum til glöggvunar. Og ég vil láta þess getið að ég sneri mér til starfsmanns félmrn. sem ljúflega lét Alþingi í té þessi gögn.

Á liðnum árum hefur oft verið rætt um gildi þess fyrir Ísland að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156. Það hefur verið ályktað um þetta mál. Fyrirspurn hefur verið lögð fram á hv. Alþingi og samstarfsnefnd félmrn. um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur tekið spurninguna til efnislegrar umfjöllunar. Samþykktin tekur til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum og þeirra framfæri þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

Ákvæði samþykktarinnar taka einnig til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar þeirra eða forsjár. Samþykktin tekur til allra greina atvinnulífsins og allra flokka starfsmanna. Það sjónarmið sem liggur til grundvallar er að koma á í raun jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa vinnandi körlum og konum og skal sérhvert aðildarríki setja það markmið í stjórnarstefnu að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð sem er í atvinnu eða óskar að vera það, að framfylgja þeim rétti sínum án þess að verða fyrir mismunun, að svo miklu leyti sem það er mögulegt án árekstra milli atvinnupóls og fjölskylduábyrgðar.

Þess er getið að samþykktinni megi framfylgja með lögum eða reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum, dómsúrskurðum eða þessum aðferðum sameiginlega eða hverjum öðrum hætti í samræmi við landsvenju og jafnframt að framkvæma megi hana í áföngum ef nauðsyn beri til með tilliti til aðstæðna í landinu.

Í samþykktinni er lögð áhersla á ráðstafanir sem gera starfsmönnum með fjölskylduábyrgð mögulegt að hagnýta rétt sinn á frjálsu vali á atvinnu og að taka tillit til þarfa þeirra er varða kjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi, að taka tillit til þeirra í skipulagningu sveitarfélagsins og að þróa eða styrkja þjónustu á vegum hins opinbera eða einkaaðila í sveitarfélaginu svo sem barnagæslu og fjölskylduhjálp. Stjórnvöld eru hvött til að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að upplýsingum eða fræðslu sem leiðir til víðtækari almenns skilnings á meginreglunni um sömu möguleika og jafnrétti til handa vinnandi körlum og konum, á vandamálum starfsfólks með fjölskylduábyrgð og að skapa það almenningsálit sem að leiðir til þess að undinn verði bugur á þessum vandamálum.

Sú grein samþykktar nr. 156 sem helst hefur valdið ágreiningi um hvort fullgilda skuli hér á Íslandi er 8. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Fjölskylduábyrgð sem slík skal ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs.`` Í þessu ákvæði, að fjölskylduábyrgðin skuli ekki vera ástæða til uppsagnar starfs, felst ákveðið starfsöryggi fyrir fjölskyldufólk, ekki síst þegar harðnar á dalnum í atvinnumálum. Þótt samþykkt nr. 156 sé frá árinu 1981 var hún á vissan hátt endurvakin þegar það var ákveðið á 251. fundi stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að gera sérstaka úttekt á þeirri samþykkt og tillögunni sem byggir á samþykktinni. Þetta mun hafa verið á árinu 1991 og var gert í tilefni af yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um að árið 1994 skyldi verða gert að ári fjölskyldunnar. Markmið stjórnarnefndar með úttektinni var að vekja athygli aðildarríkjanna á samþykktinni og hvetja þau til að minnast árs fjölskyldunnar með fullgildingu hennar.

Í skýrslu frá Vinnumálaþinginu í Genf 1993, kom fram, að 19 af 154 aðildarríkjum stofnunarinnar hefðu fullgilt alþjóðasamþykkt 156 en eingöngu 71 ríki skiluðu upplýsingum.

8. gr. kveður á um að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs en á Íslandi þarf atvinnurekandi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar. Milli launþegasamtakanna og Vinnuveitendasambands Íslands er ágreiningur um gildi þess að fullgilda samþykktina. ASÍ sendi félmrh. tilmæli í mars 1992 um að samþykktin yrði tekin fyrir á fundi samstarfsnefndar félmrn. og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Málið hafði oft áður verið reifað af fulltrúum launþegahreyfingarinnar í nefndinni. Í febrúar 1994 beindi stjórn BSRB því erindi til samstarfsnefndar að hún beitti sér fyrir fullgildingu samþykktar og telur hún það verðugt verkefni á alþjóðlegu Ári fjölskyldunnar. Erindi Alþýðusambandsins er ítrekað í mars 1994 og einnig beindi landsnefnd um Ár fjölskyldunnar þeim tilmælum til félmrh. að Íslandi fullgilti samþykktina.

Vinnuveitendasambandið hefur hins vegar talið að fullgilding væri óþörf. Annars vegar liggur því fyrir það sjónarmið að fullgilding samþykktar 156 skapi góðan bakhjarl við stefnumörkun hins opinbera í málefnum fjölskyldunnar, verndi launafólk sem ber fjölskylduábyrgð og sé hvatning til stjórnvalda að auðvelda konum að vera á vinnumarkaði eða koma þangað aftur til virkrar þátttöku eftir tímabundna fjarveru.

Hins vegar er svo sjónarmiðið að fullgilding sé óþörf, hægt sé að ná þessum markmiðum eftir allt öðrum leiðum, svo sem stefnu fyrirtækja í starfsmannamálum. Stuðningsmenn þess sjónarmiðs telja að samþykktin sem slík gæti orsakað að atvinnurekendur yrðu ófúsari til að ráða fjölskyldufólk til starfa, t.d. konur. Afstaða atvinnurekenda byggir sjálfsagt á þeirri grundvallarreglu á íslenska vinnumarkaðnum, að atvinnurekandi þurfi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar og að með fullgildingu á þessari samþykkt væri horfið frá þeirri reglu. Má þó benda á þá undantekningu að barnshafandi konur njóta sérstakrar verndar í lögum gegn uppsögn.

Grundvallarregla þessi er vægast sagt umdeilanleg. Í sumar átti ég orðaskipti við starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki sem hafði að fyrra bragði orð á því hve vörn starfsmanna gagnvart uppsögn væri veik. Unnt væri að kalla til sín starfsmann og segja honum upp störfum án ástæðu og hreinlega ,,af því bara``. Hann spurði hvers vegna í ósköpunum rétti starfsmanna væri ekki búinn lagalegur rammi og ég spyr hið háa Alþingi hins sama.

Þegar kannað er hvort aðstæður á Íslandi séu í samræmi við efni samþykktar nr. 156 kemur í ljós að stefna fyrirtækja um málefni starfsmanna með fjölskylduábyrgð er nokkuð sveigjanleg. Það er samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins um greiðslur til starfsfólks vegna veikinda barna og það er unnið að því að jafna stöðu kynja á vinnumarkaði. Framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum bæta mjög stöðu starfsfólks og benda má á að það hafa verið sett lög um starfsmenntun í atvinnulífinu sem fjölga tækifærum vinnandi fólks, ekki síst kvenna, til menntunar.

Þá er ástæða til að minna á það að flestöll sveitarfélög hafa unnið markvisst að uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn og að ýmsum úrræðum fyrir fjölskylduna þannig að þessi atriði mörg hver gera það fyllilega kleift að fullgilda samþykktina.

En það er skuldbindingin sem felst í 8. gr. samþykktarinnar sem kemur í veg fyrir það. Eins og áður sagði á aðildarríki samþykktarinnar að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík verði ekki gild ástæða uppsagnar. Miðað við aðstæður hér á landi telst fullgild trygging, annaðhvort ákvæði í kjarasamningum eða lagasetning. Það má því ráða það af afstöðu samtaka atvinnurekenda fram að þessu að stjórnvöld verði að setja lög til að hrinda í framkvæmd ákvæði 8. gr.

Það er hægt að setja ný lög varðandi þessi ákvæði og lög sem almennt tækju til uppsagnar starfsmanna en þegar ég leitaði eftir því við starfsmann í ráðuneytinu hvar annars staðar þetta ákvæði gæti átt heima, þá var talið að það væri unnt að setja ákvæðið sem slíkt inn í lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla.

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið vísað til þess að á skorti að vestræn ríki hafi fullgilt samþykktina og því fari fjarri að það sé ástæða fyrir Ísland að verða eitt þeirra fáu. Við því vil ég segja þetta: Bandaríkin og Danmörk staðfesta sjaldan samninga af þessum toga. Bandaríkin vegna eðlis ríkjabandalags og sjónarmiða um íhlutun í ákvörðun ríkis innan Bandaríkjanna og Danmörk vegna þess að löggjafinn hefur ekki afskipti af vinnumarkaði í Danmörku eins og hinum Norðurlöndunum. Þar eru eiginlega engin lög varðandi vinnumarkaðinn, aðilar vinnumarkaðsins sjá um það sem snýr að vinnumarkaðnum sjálfir.

Hins vegar staðfestir Danmörk ötullega allt sem snýr að mannréttindum og langt umfram það sem Íslandi gerir. Það er einnig ástæða til að benda á að Norðurlönd hafa staðfest u.þ.b. 70--80 samþykktir frá Alþjóðavinnumálaskrifstofunni meðan Ísland hefur staðfest 18 samþykktir. Svíþjóð, Noregur og Finnland fullgiltu á sínum tíma þá mikilvægu samþykkt sem hér er til umræðu.

Virðulegi forseti. Norðurlönd eru öðrum Evrópuríkjum fyrirmynd um margt það sem snýr að lýð- og mannréttindum. Það er hlutverk sem við höfum verið stolt af. Við konurnar vitum að í löndum heims er litið til Norðurlandanna í virðingu vegna þeirra réttinda sem þar hafa áunnist í jafnréttisbaráttunni. En við vitum líka að af Norðurlöndunum erum við Íslendingar aftast á merinni hvað varðar jafna stöðu og jafnan rétt kvenna. Ég treysti því að karlar og konur með jafnréttishugsjón að leiðarljósi sameinist um öll hugsanleg skref sem fært geta stöðu okkar sem næst því sem þekkist hjá grönnum okkar á Norðurlöndum. Þessi tillaga er eitt slíkt skref.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði máli þessu vísað til félmn.