Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 14:30:38 (264)

1995-10-12 14:30:38# 120. lþ. 9.2 fundur 15. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., BH
[prenta uppsett í dálka]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Hér til umræðu er till. til þál. um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur þegar rakið forsögu þessa máls að nokkru leyti og gert grein fyrir efni samþykktarinnar og hef ég í sjálfu sér litlu við það að bæta. Ég lagði fram fsp. til hæstv. ráðherra í vor um þetta mál en að því er ég best veit hefur ekki verið tekin ákvörðun um að fullgilda samþykktina og því er hún lögð fyrir þingið.

Þótt 1. flm. hafi gert nokkra grein fyrir málinu tel ég þó rétt að benda á nokkur atriði ásamt því að vekja frekar athygli á þeirri sögu sem býr að baki tilraunum samtaka launafólks til að fá samþykktina fullgilta en það verður að segjast eins og er að sú saga fer að líkjast nokkurs konar tragikómedíu svo að ég noti lýsandi útlenskt orð yfir fyrirbærið.

Samþykktin um fjölskylduábyrgð lýtur að því að tryggja starfsfólki með fjölskylduábyrgð aukið starfsöryggi en það má segja að Íslendingar séu mjög aftarlega í þeim efnum er samanburður er tekinn við Norðurlöndin. Með starfsöryggi er átt við það að fólk sé verndað á einhvern hátt gegn því að vera sagt upp vinnu án lögmætrar ástæðu. Á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. hinum almenna hluta hans, er það svo að vilji atvinnurekandi segja fólki upp þá þarf hann einungis að gera það á formlega réttan hátt, þ.e. skriflega og með tilteknum fyrirvara, en honum er ekki skylt að gefa upp ástæðu uppsagnar.

Í sumum tilvikum eru settar skorður við uppsögnum, svo sem þegar þungaðar konur eða foreldrar í fæðingarorlofi eiga í hlut og þegar um trúnaðarmenn er að ræða en þessu fólki má ekki segja upp nema mjög knýjandi ástæður séu fyrir hendi. Þá ber atvinnurekanda á grundvelli nýlegra laga þar um að fara að ákveðnum leikreglum við hópuppsagnir sem felast aðallega í tilkynningarskyldu til vinnumálayfirvalda og stéttarfélaga.

Á Norðurlöndum og í fleiri löndum Evrópu gilda allt aðrar reglur í þessum efnum. Öll löndin í Skandinavíu byggja á þeirri meginreglu að til þess að uppsögn sé gild skuli vera lögmæt ástæða fyrir henni og slík ástæða þarf yfirleitt að vera byggð á sök starfsmanns eða rekstrarlegum ástæðum fyrirtækis. Reglur um starfsöryggi eru því nokkurs konar leikreglur sem atvinnurekendum er skylt að fara eftir við uppsagnir og byggja á því að rétturinn til vinnu sé mannréttindi sem megi ekki svipta fólk að geðþótta. Reglurnar vernda þannig fólk fyrir uppsögnum af ástæðum eins og afskiptum af verkalýðsmálum, fjölskylduástæðum eða persónulegri óvild svo að dæmi séu nefnd og þær hvetja atvinnurekendur til að taka á vandamálum sem upp koma á vinnustaðnum í stað þess að reka þá sem falla ekki í kramið eins og því miður vill stundum brenna við.

Því miður er það svo að það fólk sem hefur ábyrgð á fjölskyldu verður oft fyrst fyrir barðinu á uppsögnum og í flestum tilvikum eru það konur sem bera þessa ábyrgð. Getum við tekið sem dæmi fólk sem þarf að vera mikið frá vegna veikinda barna sinna, að ekki sé minnst á þá sem eiga börn sem þjást af alvarlegum og ólæknandi sjúkdómum. Slíkt fólk býr við verulega skerta samkeppnisstöðu á vinnumarkaði en hefur þó öðrum fremur mikla þörf fyrir að halda vinnu sinni enda geta slík veikindi verið kostnaðarsöm af ýmsum orsökum. Margir eiga aldraða foreldra inni á heimilunum sem þurfa aðhlynningar við og í sumum tilfellum getur verið um sjúka maka að ræða sem krefjast aðhlynningar sinna nákomnu á ákveðnum skeiðum.

Það er rétt að taka það fram að við það verður að miða í svona tilfellum að starfsmaðurinn geti alla jafna sinnt starfi sínu, þ.e. að hann sé á vinnumarkaði þannig að sá sem ekki getur komið aftur til starfa og hefur helgað sig alfarið aðhlynningu sjúks aðstandanda mundi ekki teljast þurfa vera á vinnumarkaði og á því ekki rétt á að halda starfi sínu út á það. Ég minni líka á að fólk sem býr við erfiðar fjölskylduaðstæður á hvorki meiri né minni rétt til launa í fjarveru en hver annar. Einungis er verið að tala um að það eigi ekki að gjalda fyrir slíka fjarveru með starfi sínu.

En víkjum nú að raunasögunni um tilraunir samtaka launafólks til að fá samþykktina sem hér um ræðir fullgilta. Þegar nefndin um Ár fjölskyldunnar tók til starfa var rætt á vettvangi samtaka launafólks hvað skyldi gera í tilefni ársins. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í landsnefndinni gerðu það að meginmarkmiði á árinu að þrýsta á um fullgildingu samþykktarinnar en eins og fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þá hafði þetta verið gamalt baráttumál a.m.k. hjá Alþýðusambandinu og ég hef grun um líka að einhveru leyti hjá BSRB og hafa verið gerðar margar tilraunir til að taka málið upp í nefndinni sem fjallar um þessi mál. Fullgildingar samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fara fram eftir skoðun í svokallaðri þríhliða nefnd aðila vinnumarkaðarins og félmrn. Það hefur vægast sagt gengið mjög treglega að fá samþykktirnar fullgiltar og ástæðan fyrir tregðu til fullgildinganna hefur fyrst og fremst verið sú að fulltrúi atvinnurekanda í nefndinni hefur lagst gegn fullgildingu. Afstaða hans hefur ráðið. Þarna er um þriggja manna nefnd að ræða, svokölluð þríhliða nefnd, og fulltrúi ráðuneytisins hefur ekki viljað vera oddamaður í málinu. Þannig hefur ráðuneytið komist upp með það að firra sig pólitískri ábyrgð á þessu máli og ég tel að svona ástæða sé á engan hátt í samræmi við það sem hugmyndir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar byggja á varðandi þríhliða samstarf.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru nokkur ráðherraskipti í félmrn. eins og kunnugt er en tilmælum var komið til þeirra ráðherra sem þar sátu um aðgerðir í starfsöryggismálum og varðandi fullgildingar samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en það er fyrst þegar hv. þm. og 1. flm. þessarar tillögu gegndi embættinu að málið var sett fram sem tillaga um fullgildingu. Því miður náði hún ekki fram að ganga en það væri Alþingi Íslendinga til mikils sóma að taka á þessu máli og samþykkja fullgildinguna. Því miður er orðspor okkar varðandi fullgildingar samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ekki fagurt en á meðan Norðurlöndin hafa meðaltal fullgildinga í kringum 70 og mörg þeirra nálgast um það bil 100 fullgildingar þá höfum við fullgilt 18 samþykktir. Því þarf að breyta og því legg ég til að þingið samþykki þessa tillögu.