Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 12. október 1995, kl. 15:22:25 (272)

1995-10-12 15:22:25# 120. lþ. 9.3 fundur 58. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. flm. þessa frv. hefur gert ítarlega grein fyrir viðhorfum sínum til þessa máls sem hér er flutt og bætt við greinargerðina sem frv. fylgir ítarlegum útskýringum í framsöguræðu sinni. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um frv. efnislega á þessu stigi en mér er þó ljóst að það sem hér er lagt til og verið er að gera er að kveða þannig á um í sambandi við hvaða verkefni eða framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum að það séu fyrst og fremst valin þau verkefni og þær framkvæmdir sem gætu valdið spjöllum eða gætu talist á einhvern hátt hafa neikvæð áhrif eða neikvæðar afleiðingar með því að breyta orðalagi úr ,,umtalsverð áhrif`` sem er það orðalag sem er í gildandi lögum í ,,umtalsverða röskun``.

Fari maður í einhvern orðaleik eða íslenskuleik er kannski rétt að segja að áhrif geti verið bæði jákvæð og neikvæð. En röskun er alla jafna túlkuð sem neikvæð áhrif. Hv. flm. bendir mér svo á að ég hafi ekki enn lesið síðari hluta þessarar setningar þar sem fjallað er um spjöll þar sem er auðvitað enn þá fastar að orði kveðið þegar verið er að tala um þær breytingar sem kunna að verða á umhverfinu við ákveðnar framkvæmdir eða ákveðin verkefni sem verið er að ráðast í. Þetta hygg ég að sé grundvallaratriðið í þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Hvaða áhrif sem það kann svo að hafa á einstök verkefni og þá sérstaklega með tilliti til þeirra þátta sem hv. framsögumaður nefndi ítrekað í framsöguræðu sinni og kemur fram í greinargerð, þ.e. ýmissa verkefna sem geta fallið undir hvers konar verndun gróðurlendis eða uppgræðslu eða endurheimt landgæða eða hvað sem við viljum kalla það, þá eru það einkum þau verkefni sem ég álít að sé verið að tala um hér að eigi síður að falla undir mat á umhverfisáhrifum. Það sé fyrst og fremst um ýmiss konar aðrar verklegar framkvæmdir.

Hv. flm. þekkir auðvitað aðdraganda þessa máls mjög vel. Hann sat í umhvn. þegar málið var þar til umfjöllunar og fór ítarlega yfir frv. og hefur gert grein fyrir þeim vinnubrögðum og því verklagi sem þar átti sér stað og telur að jafnvel hafi verið um að ræða mistök af hálfu nefndarinnar við endanlega afgreiðslu málsins. Ég ætla á þessu stigi ekki að leggja neinn dóm á það en vil þó aðeins benda á það sem hann lætur koma mjög skýrt fram í greinargerð sinni að það hafi komið ábendingar til nefndarinnar um að það væri eðlilegt að framkvæmdir við framræslu votlendis, landgræðsla og skógrækt yrðu felldar undir ákvæði laganna en nefndin ekki talið rétt að gera það og Alþingi síðan fallist á tillögu nefndarinnar. En þó hafi komið fram í áliti nefndarinnar ef ég má vitna orðrétt til greinargerðar frv., með leyfi forseta:

,,Í nefndaráliti kom fram að nefndin væri sammála um að nauðsynlegt væri að skipulega væri unnið að verkefnum á þessu sviði með tilliti til fjölþættra landnota og umhverfisverndar. Þannig gæti verið ástæða til að fram færi mat á umhverfisáhrifum eða hliðstæður undirbúningur áður en ráðist yrði í meiri háttar verkefni af þessum toga, enda er heimild til þess í 6. gr. laganna.``

Ég vildi aðeins láta það koma skýrt fram að mér virðist að nefndin hafi haft þessa hugsun að það gæti þrátt fyrir það að við teljum almennt að endurheimt landgæða, verndun gróðurs eða uppgræðsla séu jákvæð verkefni sem hafi jákvæð áhrif á náttúru landsins og umhverfi okkar og það umhverfi sem við viljum búa okkur í landi okkar þá kunni það að vera að í sumum tilvikum sé rétt að slík verkefni séu skoðuð af öðrum aðilum heldur en þeim sem eiga að framkvæma.

Nú er það ljóst eins og fram kom í framsöguræðu flm. að þær stofnanir, sem hér er fjallað mest um, þ.e. annars vegar Landgræðsla ríkisins og hins vegar Skógrækt ríkisins, hafa auðvitað það verkefni sjálfar að vinna vel undirbúning að framkvæmdum sínum og ég hygg að jafnan, kannski alltaf séu gerðar skýrslur eða álitsgerðir um það þegar ráðist er í viðamikil verkefni þegar viðkomandi stofnanir telja að um sé að ræða stórframkvæmdir. Þá spyr ég en læt nefndinni, eða öðrum sem fá frv. til umfjöllunar að öðru leyti, eftir að skoða það nánar hvort ekki geti verið eðlilegt að einhvers konar athugun fari fram á þeim skýrslum og þeim undirbúningi sem a.m.k. þessar tvær stofnanir hafa gert við undirbúning sinna stóru verkefna þegar um það er að ræða.

Ég hef átt viðræður í sumar við fulltrúa Landgræðslu ríkisins um ákveðið verkefni, sem unnið hefur verið að, og reyndar rætt það mál einnig við fulltrúa hjá Skipulagi ríkisins sem sjá um mat á umhverfisáhrifum. Í því tilviki voru menn nokkuð sammála um að þar væri um svo stórt og viðamikið mál að ræða að það væri eðlilegt að Landgræðslan semdi um það ítarlega skýrslu, sem hefur verið gert, og sú skýrsla yrði síðan tekin til skoðunar. Um það er í rauninni ekki ágreiningur. En hitt er svo sjálfsagt að löggjafinn ákveði það og taki þá af skarið með það ef hann telur að það eigi yfir höfuð ekki að setja slíka vinnu í gang. Ég segi aftur að ég held að það sé til umhugsunar að einhver aðili komi að skoðun á slíkum stórum framkvæmdum og það geti verið með öðru hugarfari en því að velta fyrst og fremst fyrir sér hvort áhrifin séu röskun eða spjöll. Áhrifin geta auðvitað verið margvísleg. Þau eru útlitsleg og þau hafa áhrif, þau eru þess eðlis að þau breyta umhverfinu. En vissulega er einnig rétt sem kom fram hjá hv. flm. að við sjáum ekki á fyrsta stigi og kannski ekki þó við reynum að líta nokkuð fram í tímann hver áhrif af verndun gróðurlendis eða friðun svæða verða vegna þess að eins og fram kom, þá er það svo mikill ferill sem settur er af stað sem maðurinn ræður ekki við ef hann ætlar ekki að skipta sér af. Ef hann ætlar að láta náttúruna sjálfa ráða eina, þá er erfitt að spá í það hvað gerist á löngu árabili.

Þetta vildi ég láta koma fram sem hugleiðingar í sambandi við umfjöllun og umræðu um þetta frv. sem ég tel sjálfsagt og eðlilegt að gangi til hv. umhvn. til frekari skoðunar, en vildi aðeins þó bæta við og minna á að í lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem eru reyndar nýleg lög, komu til framkvæmda 1. maí 1994, þá eru þar ákvæði um að lögin skuli tekin til endurskoðunar í tengslum við endurskoðun á skipulagslögum og endurskoðun á byggingarlögum og á næstu dögum verður vonandi tilbúið frv. í umhvrn. um endurskoðun byggingar- og skipulagslaga sem kemur þá til umfjöllunar á þinginu fljótlega í framhaldi af því og síðan vonandi til afgreiðslu á þinginu í vetur. Það er ekki gert ráð fyrir því að lög um mat á umhverfisáhrifum séu felld inn í þetta frv., þau eru áfram sjálfstæð lög. En að fenginni nokkurri reynslu, kannski tveggja ára reynslu, þ.e. á næsta þingi hér frá, er sjálfsagt að þau séu tekin til ítarlegrar og gagngerðrar endurskoðunar og hugsanlega þá felld að byggingar- og skipulagslögunum, hvort sem mönnum finnst nú að þau eigi heima þar í sama lagabálki eða sem sjálfstæð lög áfram, það verður reynslan auðvitað að skera úr um og álit hv. þm. og löggjafans þegar sú endurskoðun hefur farið fram.

Hinu gleymdi ég áðan sem ég ætlaði að láta koma fram líka í sambandi við verkefni á vegum skógræktar og landgræðslu. Það geta auðvitað verið fleiri aðilar en opinberir aðilar sem fást við verkefni og jafnvel stór verkefni af þessu tagi. Og þá er auðvitað eðlilegt að fylgst sé með því hvernig þeir standa að málinu og hvaða verkefni þeir eru að ráðast í. En þá getur það auðvitað orðið verkefni annaðhvort skógræktarinnar eða Landgræðslu ríkisins að vera eftirlitsaðili með þeim sjálfstæða einstaka aðila. En eftir stendur hitt hvort það sé ekki líka ástæða til að fylgjast með þeim stóru verkefnum sem þessar ágætu opinberu stofnanir eru oft að ráðast í, eða ráðist er í á vegum þeirra.

Ég held þó að það væri útilokað að viðhafa þau vinnubrögð að Skógræktin og Landgræðsla ríkisins gætu aldrei fengist við sín lögboðnu verkefni og skyldur öðruvísi en það væri háð eftirliti eða mati einhverra annarra stofnana. Þar yrði að vera eitthvert mat á stærð verkefna hverju sinni.